Hafdís Björg Kristjánsdóttir, einkaþjálfari, fitnessdrottning og athafnakona hefur líkt og margir aðrir ekki farið varhluta af þeim afleiðingum sem heimsfaraldurinn hefur haft í för með sér fyrir daglegt líf okkar í ár.
Í helgarviðtali við Vikuna ræðir hún meðal annars hvaða áhrif heimsfaraldurinn hefur haft á hennar atvinnu, samskipti hennar við barnsföður sinn sem hún skildi við fyrr á árinu, atvinnumennskuna sem hún stefnir á og fleira.
Sjá einnig: Hafdís Björg gerir upp 2020: „Reyndi gríðarlega á hugarfarið mitt og framtíðarplön“
Atvinnumennskan á bið
Hafdís Björg hefur keppt í fitness bæði hér heima og erlendis með góðum árangri. Erlendis hefur hún meðal annars keppt á Arnold Classic í Bandaríkjunum, sem er stærsta mót í heimi og hefur hún sagt áður að hún stefndi á atvinnumennsku í fitness. Ertu enn gallhörð á því?
„Ohh ekki segja þetta! Ég er búin að segja Arnold 2017-2018-2019 en hætt við vegna barneigna, þjálfaranum mínum og æfingafélaga til mikillar gleði. En 2020 átti að vera stóra árið okkar Hrannar og ætluðum við að halda áfram að sópa að okkur titlum hér og erlendis en það verður þá bara 2021! Markmiðin eru eins, bara smá frestun,“ segir Hafdís Björg. Hrönn sem hún vísar til er Hrönn Sigurðardóttir, vinkona Hafdísar Bjargar og margfaldur Íslandsmeistari í fitness.
„Markmiðið mitt hefur alltaf verið að ná PRO titlinum en það er markmið sem ég setti mér á Arnold 2016 og er það bara fyrir mig til þess að gera alltaf betur á næsta móti og halda mér við efnið. Ég elska þetta sport og umhverfið í kringum það, endalaus ferðalög, kynnast fullt af fólki og upplifa nýja hluti. Ég er bara rétt að byrja.“
„Markmiðið mitt hefur alltaf verið að ná PRO titlinum en það er markmið sem ég setti mér á Arnold 2016“
Atvinnan í lamasessi sem reyndi verulega á
Hafdís Björg er sinn eigin yfirmaður í öllum sínum störfum, hún starfar sjálfstætt sem einkaþjálfari í World Class, er með eigið fyrirtæki, snyrti-, nudd- og trimstofu í Faxafeni 14 og einnig rekur hún netverslun með fitnessvörur. Samkomutakmarkanir hafa valdið því að atvinna hennar hefur að mestu legið niðri allt árið.
„Eins og aðrar snyrti- og nuddstofur á landinu höfum við þurft að loka mest megnið af árinu og hefur það verið mjög krefjandi. Fyrirtækið hafði ekki náð eins árs aldri fyrir fyrstu lokunina svo það var enginn stuðningur sem við höfðum rétt á og síðan þegar kom að næstu lokun þá var fyrirtækið ekki búið að sýna nógu mikinn hagnað til þess að eiga rétt á neinum stuðningi svo ég hef haldið þessu á floti eftir minni bestu getu,“ segir Hafdís Björg og segir ástandið hafa tekið verulega á sig.
Sjá einnig: Hafdís Björg gagnrýnd vegna góðra samskipta við barnsföður: „Á hann ekki bara 2 yngstu?“
„Mig langaði alveg nokkrum sinnum að skríða undir sæng og aldrei fara á fætur aftur því þetta reyndi gríðarlega á hugarfarið mitt og framtíðarplön. Þannig að já þetta var bara drulluerfitt, en eftir að við fengum að opna á ný í nóvember þá hefur þetta verið að malla í réttan farveg og við sjáum fram á frábæra tíma og nýjungar hjá okkur í Virago.“
Aðspurð um hvort hún sé búin að setja sér áramótaheit eða markmið fyrir 2021 segir hún:
„Einhverra hluta vegna hræðist ég að setja niður plön fyrir næsta ár þar sem 2020 átti sko að vera árið mitt,“ segir Hafdís Björg og hlær.
„En ég stefni á að byggja Virago upp og gera það að þeirri stofu sem ég sé fyrir mér. Vinna með dásamlegu fólki og njóta með fólkinu mínu! Vonandi verja sumrinu út í Bulgaríu með strákunum mínum.“
„Einhverra hluta vegna hræðist ég að setja niður plön fyrir næsta ár þar sem 2020 átti sko að vera árið mitt.“