Heitasti skóhönnuður ársins

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Andrea Wazen hefur slegið í gegn með litríkri, frumlegri skóhönnun. Frægar konur keppast við að klæðast skóm úr nýrri sumarlínu hennar og tískuspekúlantar segja að Christian Louboutin megi fara að vara sig.

Þessi rísandi stjarna tískuheimsins fæddist í London en ólst upp í Beirút í Líbanon. Strax sem lítið barn var hún farin að teikna föt og skó í gríð og erg meðan vinir hennar teiknuðu sólir, hús og fólk. Hún vissi þess vegna vel að hvað hún ætlaði að verða þegar hún yrði stór. Hún flutti þess vegna til Parísar um leið og hún hafði aldur til. Hún sótti um og fékk inngöngu í Istituto Marangoni, ítalskan tískuhönnuðarskóla í Mílanó. Þar uppgötvaði hún að öðrum fannst hún einnig nokkuð lúnkin að teikna skó.

Eftir að náminu lauk fór hún til London og gerðist lærlingur Rupert Sanderson og Christian Louboutin. Meðan hún var í læri hjá þeim var hún iðulega kölluð til og látin máta prótótýpur. Það er vegna þess að Andrea er fótnett og notar það númer sem hönnuðir kjósa að vinna út frá þegar þeir eru að búa til nýja hluti, eða nr. 37. „Það var mjög áhugavert,“ segir hún í viðtali við breska Vogue. „Mér fannst ég geta fundið fyrir efninu og hvers vegna sniðið var ekki þægilegt, eða sniðið ekki rétt.“ Að hennar mati hjálpaði það mikið þegar hún ákvað að stofna sitt eigið merki að hún þekkti á eigin skinni hvernig skór gátu ýmist smellpassað á fótinn eða þrengt að og meitt.

Gloria í uppáhaldi

Á þeim tíma sótti hún einnig kúrsa í skóhönnun Central Saint Martins School of Arts. Hún hefur sagt í viðtölum að dvöl hennar í París, Mílanó og London hafi reynst sér innblástur og einstök uppspretta hugmynda enda eru þessar borgir taldar meðal háborga tískunnar. Hún stofnaði eigið fyrirtæki og nú er nafn hennar orðið þekkt um allan heim og stendur fyrir hágæða, handunna hátískuskó en vörurnar eru hannaðar og framleiddar í Beirút.

„Þeir eru innblásnir af þeim skóm sem ég sá mömmu ganga í þegar ég var barn. Mig langaði alltaf að ganga í þannig skóm en var of ung. Þess vegna ákvað ég að endurhanna þá og framleiða í dag.“

Meðal þeirra kvenna sem hafa gersamlega fallið fyrir hönnun hennar eru Sienna Miller, Tracee Ellis Ross, J-Lo, Hailey Bieber, Kate Moss og Kylie Jenner. Sumarlína hennar í ár þykir með því flottara sem frá henni hefur komið en hún er litrík, létt og falleg. Andrea segir að sitt uppáhald sé the Gloria. Það eru hælaháir skór, með þykkum hæl, bandi yfir tábergið en opnir fremst. Þeir eru sérlega hentugir því þeir ganga við hvernig fatnað sem er. Sjálf segir hún: „Þeir eru innblásnir af þeim skóm sem ég sá mömmu ganga í þegar ég var barn. Mig langaði alltaf að ganga í þannig skóm en var of ung. Þess vegna ákvað ég að endurhanna þá og framleiða í dag.“ En Andrea ólst upp á tíunda áratugnum.

Þótt hún sé sjálf búsett í London hefur hún leitast við að nýta líbanska handverksmenn og verksmiðjur til að framleiða vörur sínar. Hún telur mikilvægt að blása lífi í atvinnulífið í heimalandi sínu og viðhalda þeirri handverksþekkingu sem þar er að finna. Að hennar mati á vandvirkni samstarfsmannana mikinn þátt í velgengni merkisins hennar. „Ég framleiði skóna mína í verksmiðjum sem berjast við að halda sér gangandi og þess vegna hefur merki mitt hjálpað þeim. Fólk hélt að það væri ekki mögulegt að búa til almennilegt par af skóm í öðru landi en Ítalíu eða utan Evrópu.“

Þessi tryggð hennar við upprunann og viðleitnin við að styrkja rætur sínar varð til þess að dómarar í Fashion Trust, Arabíunefndinni, sem stofnuð var til að styrkja unga hönnuði í Miðausturlöndum og Norður-Afríku, völdu hana að styrkþega í ár. Meðal þeirra sem sátu í nefndinni voru Diane von Fürstenberg, Elizabeth Saltzman og Giambattista Valli svo það voru engir aukvisar sem dæmdu verk Andreu. Hún fékk einnig verðlaunin sem fylgihlutahönnuður ársins hjá Fashion Trust. Þetta þýðir að hún fær bæði peningastyrk og aðgang að sérfræðingum til ráðgjafar svo hún geti styrkt merki sitt enn frekar. Andra ætlar að nota peningana til að leita leiða til að gera fyrirtækið sjálfbærara. Hana dreymir einnig um að bæta við sig handtöskum og vinna þær úr leðurafklippum. En hvernig sem því verður háttað í framtíðinni er að minnsta kosti nokkuð víst að skór frá Andreu Wazen eru heitari en heitar lummur í sumar.

 

 

 

- Auglýsing -

Athugasemdir

Orðrómur

Lestu meira

Alma og Joey Christ og eiga von á barni

Parið Alma Gytha Huntingdon-Williams, jarðfræðingur, og Jóhann Kristófer Stefánsson, útvarpsmaður og rappari, eiga von á barni.Jóhann, sem...