„Heyrðist enginn grátur og þurfti að blása í hann lífi“

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

„Hann er mjög ákveðinn ungur maður,“ var sagt við mig um tæplega sjö ára gamlan son minn um daginn. „Ef þú bara vissir,“ hugsaði ég. Enda vart við öðru að búast miðað við kraftaverkið sem hann er.

Í mars 2013 komst ég að því að ég væri ólétt, sem átti samt ekki að vera möguleiki. Ég var með stóra vöðvahnúta í leginu sem stóð til að fjarlægja þar sem útséð var með frekar barneignir og hnútarnir voru til trafala.

Í skoðun hjá kvensjúkdómalækninum sáust engin ummerki um óléttu og ekki heldur í skoðun á kvennadeildinni en þar var niðurstaðan sú að ég hefði misst fóstur og ég var því bókuð í útskaf vegna fósturláts næsta dag. En það er þetta með kraftaverkin … Þau geta gerst.

Hækkandi þungunarhormón þrátt fyrir allt

Ég dvaldi á spítalanum yfir nótt á eftir en tveimur dögum síðar hringdi læknir í mig og sagðist óttast að ég væri með utanlegsfóstur þar sem blóðprufur hefðu sýnt hækkandi þungunarhormón. Hún sagði mér að pakka niður í tösku til vikudvalar á spítala og gera ráð fyrir því að legið yrði fjarlægt undir eins.

Ég fór í sneiðmyndatöku þar sem kom í ljós að í stað utanlegsfósturs var ég gengin tæplega ellefu vikur með lítið ljós sem hafði falið sig í skjóli vöðvahnútanna. Mér var þó sagt að búast ekki við að ná tólf vikum, þegar þeim var náð var ólíklegt talið að ég næði fimmtán vikum og síðan koll af kolli þar til ég var komin það langt að líklegt gat talist að barnið myndi lifa þótt það fæddist fyrir tímann.

Þegar ég var hægt og rólega að nálgast fulla meðgöngu vildu læknarnir að ég færi sjálf af stað og fæddi í gegnum fæðingarveg, þar sem ég hafði fætt tvíburana mína þannig eftir 38 vikna meðgöngu. Of áhættusamt þótti að setja mig í keisara og hvað þá að ætla að taka legið í leiðinni (já, ég spurði hvort það ekki hægt að slá tvær flugur í einu höggi).

Gættu að því sem þú óskar þér

Ég var gengin rúmlega 39 vikur þegar ég datt heima hjá mér. Satt að segja var eins og einhver hefði hreinlega hrint mér. Ég fór niður á kvennadeild þar sem skoðun sýndi að allt væri í lagi en ákveðið var að halda mér inni yfir nótt til öryggis. Næsta dag var ákveðið að setja mig af stað en ekkert gerðist og einhverjum klukkutímum síðar var ástandið orðið ískyggilegt og barnið komið í nauð. Mér var rúllað inn á skurðstofu í bráðakeisara.

Við mæðginin á góðri stundu.

Ég áttaði mig á því þar sem ég lá á skurðarborðinu að hlutirnir voru ekki eins og þeir áttu að vera en það var samt ekki að sjá eða heyra á neinum inni á skurðstofunni að brugðið gæti til beggja vona. Það heyrðist enginn grátur þegar drengurinn kom í heiminn og það þurfti að blása í hann lífi. Ég viðurkenni að mömmuhjartað var brotið yfir því að horfa á eftir læknunum fara með hann í flýti á vökudeild.

Ég man síðan eftir því að læknirinn kom til mín og sagði að það yrði að taka legið (best að gæta að því sem maður óskar sér). En málið var ekki sérlega einfalt vegna hnútanna og ég veit að læknarnir og hjúkrunarfræðingarnir björguðu lífi mínu þetta kvöld. Fimm kílóa leg (með hnútunum) og rúmlega fjórir lítrar af blóðir lágu í valnum. En ég þraukaði, með góðri hjálp.

Sigraðist á öllum hindrunum

Eftir aðgerðina var ég flutt á gjörgæsluna þar sem ég dvaldi yfir nóttina. Það gladdi mig óendanlega mikið þegar hjúkrunarfræðingurinn sem annaðist mig þar tilkynnti mér að ég væri að fá ungan herramann í heimsókn. Þótt samverustundin með nokkurra klukkustunda gömlum syni mínum væri ekki löng var hún dásamleg.

Næstu mánuði var ég ansi veik eftir allt sem á undan var gengið og gekk í gegnum alls konar þrautir sem ég hélt að tækju engan enda, en þær gerðu það þó. Vegna aðstæðna var sá stutti, sem seinna fékk nafnið Hlynur Nói, mikið í fanginu á mér og svaf helst í hjónarúminu. Ég tók hann með mér í allar spítalaferðirnar sem voru margar, hann beið rólegur á meðan ég þurfti að fara á skurðstofuna annan til þriðja hvern dag í nokkrar vikur og lagðist með mér inn á spítalann í tæpa viku þegar ég fór í síðustu aðgerðina. Alveg frá fyrsta degi lagði starfsfólk hvaðanæva að af spítalanum leið sína til okkar og spurði hvort það mætti sjá kraftaverkadrenginn.

Þótt aðstæður hjá okkur mæðginum hafi ekki verið eins og maður ímyndar sér hina fullkomnu fæðingu þar sem allt gengur snurðulaust fyrir sig hafa tengsl okkar alltaf verið mikil og góð. Eiginlega einstök, kannski af því að við eigum þessa ótrúlega lífsreynslu sameiginlega.

Hlynur Nói er stálsleginn strákur, eldklár og ótrúlega skemmtilegur. Hann er ljúfur og góður en þrjóskari en allt sem þrjóskt er og skyldi engan undra eftir að hafa sigrast á öllum þeim hindrunum sem voru í veginum þegar hann ætlaði sér að koma í þennan heim.

- Auglýsing -

Athugasemdir

Lestu meira