Hluti af fréttamannsstarfinu að fá yfir sig alls konar leiðindi

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Fyrir skemmstu kom nýjasta bók Sigríðar Hagalín Björnsdóttur út, skáldsagan Eldarnir. Ástin og aðrar hamfarir. Sagan minnir að sumu leyti á fyrstu skáldsögu Sigríðar, Eyland sem kom út 2016. Sú bók hefur vakið mikla athygli og verið gefin út á fjölda tungumála. Þá bók skrifaði hún fyrst og fremst um blaðamennsku og það sem gerist þegar blaða- og fréttamenn fá ekki svigrúm til að vinna vinnuna sína.

„Mér fannst vera komið svo mikið óþol og skilningsleysi gagnvart þessu hlutverki blaðamanna sem er að spyrja krítískra spurninga um samfélagið sitt. Það er náttúrlega það sem við vinnum við, það er að spyrja krítískra spurninga um það sem er að gerast í kringum okkur.“

Sigríður tók nýverið upp hanskann fyrir samstarfsmann sinn, Einar Þorsteinsson, sem varð fyrir mikilli gagnrýni í kjölfar Kastljósþáttar þar sem hann ræddi við Pál Matthíasson, forstjóra Landspítalans, um COVID-smit sem komu upp á Landakoti.

Hún skrifaði meðal annars þetta í Facebook-færslu um málið:

„Við erum aldrei hafin yfir gagnrýni, en margt af því sem sett hefur verið fram um viðtalið, meðal annars hér á Facebook, getur ekki flokkast sem annað en persónulegar árásir og smánun á hendur vönduðum og skeleggum fréttamanni, sem hefur ekki unnið annað til saka en að vinna vinnuna sína.“

Aðspurð hvort að hún sjálf hafi lent í sambærilegum árásum fyrir það eitt að vinna vinnuna sína segir Sigríður: „Nei, ég hef gert það. Ekkert svona, auðvitað lendir maður alveg í því að fá á sig storminn og það er bara partur af þessu, hluti af því sem maður þarf að brynja sig fyrir í þessu starfi. Að fá yfir sig alls konar leiðindi og viðbrögð frá fólki sem er ekki hrifið af spurningunum manns er hluti af starfinu. En það er svona eins og ákveðin umfjöllunarefni „triggeri“ þetta meira heldur en annað.“

„…þetta var eitthvað svo brjálað.“

Hún segir að viðbrögð ákveðins hóps við tilteknum Kastljósþætti hafa verið órökrétt. „Viðbrögðin voru ekki lógísk eða í samræmi við umfjöllunina, þetta var eitthvað svo brjálað. Ég held líka að vegna samfélagsmiðlanna og hvernig þeir virka lokumst við alltaf meira og meira inni með fólki sem hefur nákvæmlega sömu skoðanir og við. Margt fólk er orðið svo óvant því að heyra þessar krítísku spurningar sem hefðbundnir fjölmiðlar spyrja.“

Lestu viðtalið við Sigríði í heild sinni hérna þar sem hún ræðir meðal annars nýjustu skáldsögu sína Eldarnir. Ástin og aðrar hamfarir.

- Auglýsing -
- Auglýsing -

Athugasemdir

Orðrómur

Lestu meira