Hressandi matur

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Allir þekkja hvernig löngun í ýmis konar óhollustu kviknar þegar þeir eru leiðir eða stressaðir. Góðu fréttirnar eru þær að nóg er til af alls konar hollum mat sem hressir, bætir og kætir. Þótt matur geti auðvitað aldrei læknað vanlíðan eða eytt streitu er hann engu síður líkn og getur hjálpað öllum að finnast þeir upp á sitt besta.

Grænt te

Grænt te hjálpar fólki að slaka á. Þegar álag er mikið getur verið mjög gott að taka sér tíma yfir rjúkandi bolla af þessu eðaltei því það inniheldur efni sem ýta undir framleiðslu vellíðunarboðefna. Að auki veitir það ágæta vörn gegn kvefi og flensu því það inniheldur margvísleg andoxunarefni en þau hjálpa ávallt við að byggja upp varnir líkamans.

Rauð paprika

Rauð paprika er ríkari af C-vítamíni en appelsínur og flestir aðrir ávextir. Þær rauðu fá að hanga lengst á paprikutrénu og það gefur þeim færi á að safna í sig þessu mikilvæga vítamíni. Þær eru einnig stökkar undir tönn og rannsóknir hafa sýnt að það að heyra eitthvað smella þegar bitið er í það gleður fólk þegar það borðar.

Hnetur flestra meina bót

Valhnetur  og möndlur eru gleðigjafar. Þær eru bragðgóðar, stökkar og fullar af prótínum og Omega3-fitusýrum. Hvoru tveggja næringarefni sem efla hjartað og heilann. Það að borða hnetur er þess vegna líklegt til að hressa fólk allverulega við. Þess vegna eru þær einstaklega gott snakk í eftirmiðdaginn þegar orkan er tekin að dala verulega. Hnetusmjör úr jarðhnetum eða möndlum getur líka slegið á sykurlöngun, gefið aukna orku og ýtt undir bjartsýni. Aðeins tvær teskeiðar af þessu ljúfa og bragðgóða smjöri nægir. Pistasíur á hinn bóginn innihalda umtalsvert prótín, B6-vítamín og magnesíum. Þess vegna er gott að borða þær eftir kvöldmat en efnin í þeim hjálpa við að slaka á og býr okkur vel undir svefninn og nú vita allir hversu mikilvægt það er fyrir góða skapið og gleðina að sofa vel.

Kefir

Kefir er gerjuð mjólkurafurð upprunninn í Kákasushéraði í Rússlandi. Margir hafa meira að segja trú á að þessi afurð hafi mikil áhrif á langlífi manna þar um slóðir. Kefir er ekki ósvipaður jógúrti að áferð og útliti. Hann bætir mjög bakteríuflóru líkamans og núorðið er vitað að samband er milli heilbrigði þarmaflórunnar og þunglyndis. Að auki hefur hann áhrif á svefn, þyngdarstjórnun og streitustjórnun. Það er því engu að tapa við að prófa kefir í morgunmat.

Hörfræ

Fræ eru holl og þægilegt snakk að maula á yfir daginn ef löngun í mat grípur mann eða mikil þreyta sækir að. Í þeim er mikið af prótínum en einnig eru þau rík af náttúrulegu estrógeni sem getur komið sér mjög vel fyrir konur á breytingaskeiði. Þær ættu endilega að bæta hörfræjum við morgunþeytinginn, hafragrautinn eða strá þeim yfir morgunkornið. Þau eru einnig trefjarík, innihalda Omega3- og Omega6-fitusýrur.

Korn

Alls konar korn eru trefjarík hollusta og þótt margir kjósi núorðið að borða ekki brauð eða önnur kolvetni er spurning hvort menn vilji ekki bæta múslí eða öðrum heilkornablöndum í daglegan kost. Það er hægt að borða slíkt beint upp úr pokanum. Í þeim er mikið af prótínum og trefjum og eru mjög saðsöm. Að borða vel af korni dregur mjög úr löngun í sykur og aðra óhollustu. Hafrar eru mjög holl korntegund og hafragrautur er til að mynda einstaklega góður morgunmatur. Í höfrum er mikið af B-vítamínum en þau draga úr þunglyndi og streitu.

Edamame-baunir

Edamame-baunir eru bragðgóðar og skemmtilegur matur að borða. Það er eitthvað mjög ánægjulegt við að opna belginn og taka dísætar baunirnar innan úr honum. Þær eru að auki ríkar af alls konar vítamínum og steinefnum sem gera fólki bara gott.

Indælir ávextir

Í banönum er mikið af B6-vítamíni og margt bendir til að efni í þeim séu góð fyrir heilann en það dregur úr líkum á minnisglöpum með aldrinum. Bandarísk rannsókn sýndi einnig fram á að bananar geti dregið úr einkennum fyrirtíðaspennu. Og fleiri ávextir gera mönnum ekkert nema gott. Avókadó er fullt af hollum fitusýrum og margvíslegum plöntunæringarefnum. Það er saðsamt og dregur því úr löngun til að borða um of. Hindber eru sæt og safarík en einnig mjög trefjarík og því meinholl. Vatnsmelóna er sömuleiðis ákaflega sæt og getur þess vegna dregið úr löngun í sykur en hún er svo vökvarík að hún er hið besta snakk því flestir gleyma að drekka jafnoft og mikið og þeir þurfa yfir daginn. Appelsínur eru sömuleiðis safaríkar og góðar og að auki ríkar af alls konar góðum næringarefnum. Að lokum er gott að benda á að allir ættu að grípa eina eða tvær fíkjur eftir kvöldmat vegna þess að í þeim er pótassíum, magnesíum, kalk og járn. Allt eru þetta steinefni sem eru góð fyrir blóðrás og hjálpa við að sofna hratt og vel.

 Súkkulaði

Rannsóknir benda til að andoxunarefni í dökku súkkulaði ýti undir framleiðslu vellíðunarboðefnisins serótíns í líkamanum. Ýmislegt bendir einnig til að það örvi heilastarfsemina og dragi úr líkum á að menn þjáist af elliglöpum og minnistapi á efri árum. Nú og flestir kannast auðvitað við að bragðið af súkkulaði virkilega gleður.

Ristaðar kjúklingabaunir

Kjúklingabaunir eru prótínríkar og hollar. Góð leið til að gera úr þeim fyrirtaks stökkt snakk er að krydda þær og rista í ofni. Þær verða við það stökkar og bragðmiklar, mun betri en kartöfluflögur eða annað djúpsteikt snakk. Að auki fá menn úr þeim mangan, fólöt og járn.

 

 

 

- Auglýsing -

Athugasemdir

Orðrómur

Lestu meira