Húðin skoðuð frá öllum hliðum

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Í bókinni Leyndarmál húðarinnar eftir Dr. Yael Adler er gægst undir yfirborð húðarinnar en yfirborðið er einnig skannað og veitt verðmæt fræðsla.

Dr. Yael Adler er húðlæknir og því sérfróð um málefnið.

Húðin er stærsta líffæri líkamans og gegnir margháttuðum hlutverkum í lífi okkar. Hún ver innyflin, temprar hitastig og gefur okkur tilfinningu fyrir umhverfinu. Ekkert er jafndásamlegt og leggja mjúk, svöl efni upp að líkamanum eða njóta þess að húð snerti húð. Fegurð hennar hefur einnig mikið að segja um útlit manneskjunnar en hún getur einnig verið mælikvarði á almennt heilbrigði. Í bókinni Leyndarmál húðarinnar eftir Dr. Yael Adler er gægst undir yfirborð húðarinnar en yfirborðið er einnig skannað og veitt verðmæt fræðsla.

Dr. Yael er húðlæknir og því sérfróð um málefnið. Hér er farið yfir allt er snýr að þessu stærsta líffæri frá gerð þess, lagskiptingu, heilbrigði, sjúkdómum, hirðingu, kláða, möguleikum á lækningu eða úrbótum til heimilisráða við ýmsum algengum uppákomum. Þetta er bók sem ætti að vera til á öllum heimilum.

Eitt af því sem Dr. Yael fjallar um eru tattú. Hún talar um hryllingsmyndir fyrir húðina. Að hennar mati liggja ekki nægilega margar rannsóknir að baki þeim fullyrðingum að tattú séu skaðlaus. Litarefni innihalda eiturefni og nálarnar þrengja sér í gegnum yfirborð húðarinnar, skaða það og þrýsta inn efnum sem síðan ná miðlaginu og loks niður í neðsta lagið. Ónæmiskerfi líkamans bregst við og reynir að bæta skaðann. Þar með bólgnar allt í kringum myndina og viðgerðarferli húðarinnar fer í gang. Grunnhimnan batnar fljótt en með árunum geta litarefnin farið á flakk og valdið einkennum annars staðar í líkamanum. Dr. Yael nefnir dæmi um það.

Hún bendir einnig á að flestir hafi áhyggjur af áli í svitalyktareyði og ilmefnum í snyrtivörum og forðist slíkar vörur en sama fólk heimsæki tattústofur og virðist ekki velta mikið fyrir sér hvaða áhrif þau efni sem þar séu notuð geti haft á húð þeirra en samt sé þeim efnum troðið á mun ágengari hátt inn í húðina en þeim sem borin séu á yfirborð hennar.

Næmni og tilfinning

Þær konur sem hafa áhyggjur af húðsliti, hrukkum eða öðrum húðlýtum ættu að lesa þessa bók af sérstakri athygli. Dr. Yael hefur hina yfirveguðu sýn vísindamannsins á viðfangsefnið og útskýrir að um sé að ræða eðileg og náttúruleg ferli. Samfélagið vegur síðan og metur og ákveður að þau séu ekki falleg. En ekki er þar með sagt að svo sé. Á líkama okkar eru margvísleg form misgagnleg en við gerum ekki athugasemd við neitt þeirra. Til að mynda eru allir með eyru, neglur og hár sem strangt til tekið eru ekki lífsnauðsynleg manninum. Engum dettur í hug að hafna þessum hluta af sér alfarið af þeirri einu ástæðu að þeir eru ekki ánægðir með útlit þeirra. Menn reyna einfaldlega að gera það besta úr því sem er.

Eitt af því sem Dr. Yael fjallar um eru tattú. Hún talar um hryllingsmyndir fyrir húðina.

Húðin er, auk þess að vera dásamlegt og merkilegt líffæri, stór þáttur í tilfinningalífi okkar. Hún roðnar ef við finnum til skammar eða verðum feimin. Gráföl gefur hún til kynna að eitthvað sé að og menn þurfi að huga að heilbrigði sínu. Við fáum gæsahúð í kuldanum en líka þegar við heillumst af einhverju, ef marka má orð okkar þar um. Kuldahrollur læðist niður eftir bakinu þegar óttinn nær tökum á sálinni og svitnar til að gera áreynslu eða hita bærilegri. Útbrot og exem geta verið til marks um andlega vanlíðan en streituhormónið kortisól getur valdið slíkum viðbrögðum í húð. Dr. Yael hefur líka á reiðum höndum skýringu á því hvers vegna ástin gerir okkur falleg. Hormónaflæði líkamans eykst og eykur ljóma húðarinnar og hársins. En hvort sem menn eru ástfangnir eða ekki er bókin Leyndarmál húðarinnar líkleg til að hjálpa öllum að meta húðina að verðleikum.

Texti / Steingerður Steinarsdóttir

- Auglýsing -

Athugasemdir

Lestu meira

Þegar tryggingar snúast um fólk

Tryggingafélagið VÍS hefur nýlega vakið athygli fyrir að boða nýjung á bílatryggingamarkaði, svokallaðan Ökuvísi. Ætlunin er að...

Nína ekki ólétt

Nína Richter ljósmyndari og rithöfundur og fyrrum kvikmyndagagnrýnandi á RÚV leiðréttir fjölda hamingjuóska í færslu sinni á...

Tvíburar Hörpu Kára og Guðmundar nefndir

Harpa Káradóttir,  förðunarfræðingur og eigandi förðunarskólans Make-Up Studio,og Guðmundur Böðvar Guðjónsson, eru búin að gefa tvíburasonum sínum...