Hver er þinn eðalsteinn?

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Enginn smiður er jafnhagur og Móðir náttúra. Hún mótar og myndar fegurstu eðalsteina í gömlu bergi og frá því maðurinn uppgötvaði þá hefur hann látið heillast. Ómælt erfiði kostar stundum að ná í þessa glitrandi litríku mola en þegar þeir eru komnir í umgerð eðalmálma skreyta þeir hendur og hálsa kvenna um allan heim. En sumar steindir eru ekki bara fallegar heldur bera þær boðskap og eiginleika til eigandans. Lítum aðeins á mánaðarsteina og hvað þeir gera fyrir afmælisbörn sín.

Líklega vita ekki margir að trúin á að ákveðnir gimsteinar eigi við tiltekna mánuði á rætur að rekja aftur til Bíblíunnar, nánar tiltekið Mósebókar. Þar segir af Aroni, bróður Móse, æðsta presti gyðinga og spámanni. Hann bar brjóstbrynju skreytta tólf eðalsteinum, hver þeirra var táknrænn fyrir ættbálka Ísraelsmanna en fljótlega var farið að tengja þá við stjörnumerkin og mánuðina. Þeim voru eignaðir ákveðnir yfirnáttúrulegir kraftar og á átjándu öld var orðið algengt að ungum stúlkum væru gefnir skartgripir með mánaðarsteini þeirra. Þetta var gert til að vernda þær gegn illum öflum og efla þær á þann hátt sem kraftar steinsins leyfðu. Að fá sinn fyrsta skartgrip með mánaðarsteini sínum varð næstum eins og kvendómsvígsla og siður víða um heim.

Á Viktoríutímanum voru mánaðarsteinar vinsælir á Englandi og þar var algengt að setja stein brúðar í trúlofunarhringinn. Ýmist var þá demantur í miðjunni og minni mánaðarsteinar umhverfis hann eða öfugt. Vitað er að konur þessa tíma tengdu mikið við sína steina og völdu þá oftar en annað í skartið sitt.

Steinarnir sem auðvelt var að nálgast

Frederick Kunz, forstjóri Tiffany‘s-skartgripafyrirtækisins, skrifaði bók um þjóðsögur og sagnir tengdar eðalsteinum. Hún hét The Curious Lore of Precious Stones. Hann rakti þar gamla þjóðtrú víða tengda verðmætum steindum. Hann sagði þar að ekki væri undarlegt að menn hefðu frá örófi alda eignað steindum ýmsa yfirnáttúrulega og töfrandi eiginleika. Þeir væru svo fagrir, ljósbrotið og litbrigðin svo dásamleg að þau vektu ímyndunaraflið og rómantíkina í hjörtunum. Hann rakti einnig hvernig samtök skartgripaframleiðenda á Vesturlöndum hefðu komist að niðurstöðu og sett saman lista yfir mánaðarsteinana á árlegri ráðstefnu sinni í Kansas City árið 1912.

Vissulega var listinn litaður af hversu auðvelt var að nálgast þær steintegundir sem komust á listann í Bandaríkjunum en þónokkrir þeirra voru hinir sömu og skreyttu brjóstbrynju Arons. Þeirra á meðal er túrkís, mánaðarsteinn desember. Hann var þekktur meðal Forn-Egypta. Þar var hann eignaður gyðjunni Hathor. Hún var gyðja ástar, fegurðar og frjósemi. Hathor var einnig verndari kvenna og færði þeim sem bar túrkíssteininn heppni og hamingju. Astekar þekktu túrkís sömuleiðis vel en þar var hann tengdur guðinum Xiuhtecuhtli eða túrkíslávarðinum. Hann sendi ævinlega túrkíslitaðan fugl á undan sér þegar hann boðaði komu sína meðal manna. Frumbyggjar Ameríku voru lika hrifnir af túrkís og báru hann til að efla hreysti sína og lækna sjúkdóma.

Tár sjálfs Seifs

Brynja Arons var líka skreytt ópal en fáar steindir eru til í jafnfjölbreyttum útgáfum og hann. Þessir dásamlegu steinar eru algengir hér á landi og þá oftast mjólkurhvítir. Eldópallinn kemur á hinn bóginn frá Ástralíu og Mexíkó. Litbrigði hans eru óteljandi. Það einkennir hann hins vegar öðru fremur að í honum eru glitagnir sem skína eins og litlir eldar inni í steininum. Kannski ekki undarlegt að Forn-Grikkir hafi talið þá tár sjálfs Seifs.

Skartgripasalarnir með Frederick Kunz í fararbroddi voru skynsamir og áreiðanlega hefur listi þeirra frá 1912 einnig mótast af löngun til að selja sem mest og dýrast. Þess vegna duttu út nokkrir svokallaðir semi-precious stones en það mætti þýða sem milliverðmætir eða meðaldýrir steinar. Þeir voru einnig rausnarlegri við suma mánuði en aðra og gáfu þeim fleiri en eina steintegund. Þar á meðal eru júní, nóvember og desember. Þótt perlur séu strangt til tekið ekki steinar geta júníbörn valið þær umfram mánastein ef það hentar. Nóvemberfólk á svo kost á að kjósa sítrín, gagnsæjan kvartsstein sem er allt frá ljósgulum yfir í nánast brúnan eða gulan tópas. Steinarnir eru vissulega báðir gulir, líklega til að minna fólk á að sólin mun sýna sig fljótlega aftur þótt skammdegið sé skollið á. Sítrín var í miklu uppáhaldi hjá Viktoríu drottningu og hún valdi þann stein í marga af sínum gripum. Það gleður eflaust þá sem fæddir eru í nóvember að bæði Katrín, hertogynja af Cambridge, og Meghan, hertogaynja af Sussex, hafa undanfarið valið að bera einmitt þessa gripi úr safni krúnunnar.

Hinn steinninn, guli tópasinn

En hvað svo sem þeim gekk til endurvöktu þeir með listanum gamla hefð og hún náði strax bæði vinsældum og útbreiðslu. Síðan þá hefur meðal annars tíðkast víða að velja mánaðarsteina í eyrnalokka lítilla stúlkna þegar þær fá göt í eyrun. Margar konur hafa svo líka tröllatrú á að mánaðarsteinninn færi þeim lukku og fari þeim betur en annað skart.

Mánaðarsteinarnir

Árið 1912 var á Vesturlöndum gefinn út listi yfir mánaðarsteinana og hann hefur haldist óbreyttur síðan.

Dimmrauður garnet er janúarsteinninn.

Fjólublár ametyst, febrúar.

Grænblár aquamarine tilheyrir mars.

Skínandi demantur, apríl.

Djúpgrænn emerald tilheyrir maí.

Júní á mánastein en einnig perlur.

Eldrauður rúbín á við júlíbörn.

Peridót á við ágúst.

Glitrandi blár safír tilheyrir september.

Hinir fjölbreyttu og fögru ópalar eru rétt val fyrir októberfólk.

Nóvemberbörn geta valið milli sítríns og gulra tópasa.

Desember á túrkís, bláan tópas eða bláan sirkon.

Hvað gera steinarnir fyrir þig?

Steinarnir eiga að vera lýsandi fyrir persónuleika þeirra sem fæddir eru í tilteknum mánuði ársins og einnig gefa honum orku og bæta heilsu hans.

Garnet táknar kærleikann og bæði kveikir hann og heldur honum við.

Ametyst líknar og læknar þegar erfiðar tilfinningar taka yfir. Hann eykur jafnvægi og skapar vellíðan.

Aquamarine dregur úr streitu og styrkir viðkvæma, gefur þeim aukið sjálfstraust og dirfsku.

Demanturinn er steinn sátta, kynorku og gleði í samskiptum við aðra.

Emerald styrkir hjartað bæði í eiginlegum og óeiginlegum skilningi. Hann á að lækna hjartsláttartruflanir og um leið koma á kyrrð í tilfinningalífinu.

Mánasteinn gefur hugrekki og hjálpar líkamanum að hreinsa sig.

Safír hreinsar bæði líkamann og andrúmsloft.

Rúbín býr til verndarhjúp og eykur dirfsku.

Perídót dregur úr öfund og abrýðisemi og opnar hjörtun fyrir gleði og hamingju.

Safír er þekktur sem viskusteininn. Hann dregur úr andlegu álagi og vinnur gegn þunglyndi.

Ópal gefur sjálfstraust og styrk. Trú á eiginhæfileika en einnig frumkvæði og sköpun.

Sítrín ýtir undir framkvæmdagleði og einbeitingu.

Gulur tópas tengir menn við guðlegt eðli sitt. Ýtir undir örlæti og skapar heppni.

Túrkís eykur innsæi og andlega krafta.

Blár tópas endurnærir, hvetur og lyftir.

Blár sirkon hreinsar, sameinar og veitir andlega leiðbeiningu.

 

- Auglýsing -

Athugasemdir

Lestu meira