Í leit að sjálfri sér

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Ein af vinsælum þáttaröðum á Netflix er Unorthodox. Ekkert eitt orð er til yfir þetta á íslensku en það þýðir ekki strangtrúaður. Þættirnir byggja á bók Deboruh Feldman, Unorthodox – The Scandalous Rejection of My Hasidic Roots. Það eru einkum senur úr lífi strangtrúaðra gyðinga í Williamsburg í Brooklyn sem teknar eru úr bókinni en örlög Estyjar eru allt önnur en Deboruh. Þær eiga það þó sameiginlegt að flýja samfélag þar sem konum gefst lítið rúm til þroska.

Við hittum Esty fyrst þegar hún pakkar saman örfáum eigum sínum og gengur út af heimili sínu. Það er ljóst að hún er á flótta. Smátt og smátt fá áhorfendur innsýn í líf hennar fram að því. Við sjáum hana sautján ára. Amma hennar ætlar að hafa samband við hjónabandsmiðlarann og finna handa henni heppilegan mann. Esty er spennt. Meðal hasídagyðinga er hjónaband og barneignir hlutverk og lífsfylling kvenna. Hún getur því ekki beðið eftir að hefja nýtt líf. Eftir brúðkaupið tekur hins vegar við martröð. Hvorki hún né maður hennar hafa fengið fræðslu um kynlíf og ekki kynnst því gegnum Internet eða bíómyndir. Esty finnur stöðugt til og þau ná aðeins einu sinni að ljúka samförum. Auðvitað eru vandræðin öll Esty að kenna, að mati umhverfisins, og hún fær fræðslu um hvernig best sé að veita manninum ánægju og sagt að honum eigi að líða eins og konungi í hjónasænginni. Enginn hefur fyrir því að ræða hvernig drottningunni eigi að líða.

Spennan magnast og í stað þess að finna ánægju og gleði í þessu nýja lífi verður Esty stöðugt óhamingjusamari. Við komumst líka fljótlega að því að hún hefur alltaf verið öðruvísi, svolítið utangarðs. Móðir hennar yfirgaf fjölskylduna og býr nú í Berlín með konu. Það eitt og sér setur auðvitað blett á afkomanda hennar en löngun Esty til að læra að spila á píanó er einnig óvenjuleg. Hún semur við píanókennara sem leigir íbúð af afa hennar um að fá kennslu. Það er litið fram hjá þessari uppreisn en hún er ekki beint samþykkt og þegar Esty ákveður að gefa tónlistina upp á bátinn í þeirri von að guð gefi henni ögn meiri hamingju í hjónabandinu er henni sagt að hún hafi tekið rétta ákvörðun.

Tveir menn sendir á eftir henni

Shira Haas leikur Esther Shapiro eða Esty og gerir það af einstakri næmni. Svipbrigði hennar segja oft meira en mörg orð. Hún er einnig ákaflega lágvaxin og fínleg og það eykur samúðina með henni. Þegar hún flýr er hún nýlega búin að uppgötva að hún er ófrísk og samfélagið er sannarlega ekki tilbúið til að taka því þegjandi að hún fari. Barnið tilheyrir því. Yanky, eiginmaður hennar, og Moishe, frændi hans, eru sendir á eftir henni til Berlínar og það á að koma henni heim með góðu eða illu.

 „Esty er spennt. Meðal hasídagyðinga er hjónaband og barneignir hlutverk og lífsfylling kvenna. Hún getur því ekki beðið eftir að hefja nýtt líf.“

Esty hefur hins vegar fyrir algjöra tilviljun kynnst ungum tónlistarnemum og hún veit að hana langar að komast inn í tónlistarskólann í Berlín. Hún sækir um skólastyrk og smátt og smátt komumst við að því að þessu unga kona býr yfir óvenjulega sterkum persónuleika og getur yfirstigið ótrúlegustu erfiðleika. Sakleysi hennar og hlýja opnar henni einnig leið að hjörtum margra samferðamanna og allir virðast vilja rétta henni hjálparhönd.

Deborah Feldman fylgdist með tökum og gerð þáttanna. Hún var spennt og svolítið kvíðin til að byrja með en er ánægð með útkomuna þótt þættirnir fylgi alls ekki nákvæmlega lífshlaupi hennar. Hún segir líka að þegar hún fór að læra bókmenntir við Sarah Lawrence-háskólann hafi hún tekið kúrs um femínisma. Samnemendur hennar hafi þá gjarnan minnt hana á að hún þekkti öfgafullt feðraveldi af eigin raun. Deborah telur hins vegar að þótt karlarnir ráði séu það konurnar sem viðhaldi þeirri kúgun sem viðgengst.

Þær eigi fyrst fremst í samskiptum hver við aðra og snúi hjólum samfélagsins og viðhorfum þess. Karlarnir eru passífir. Konurnar sjá hins vegar um að þrýsta hver annarri inn í formið. Hún segir að karlarnir í Williamsburg hafi legið yfir trúarlegum bókum og rætt kenningar sín á milli meðan föðursystir hennar, tengdamóðir, kvenkynskennarar og kvenkyns-„kynfræðingur“ samfélagsins sem sáu um að koma inn hjá henni sektarkennd og beygja hana. Hún segir þær fyrst og fremst hafa sært sig og reynst sér illa. Þetta kemur vel fram í þáttunum sem eru einstaklega áhrifamiklir og spennandi.

 

 

- Auglýsing -

Athugasemdir

Lestu meira