Í sporum konu „sem verður fyrir því hræðilega áfalli að verða ástfangin“

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Sigríður Hagalín Björnsdóttir var að senda frá sér sína þriðju skáldsögu. Aðalpersóna bókarinnar er eldfjallafræðingur sem verður ástfangin og það setur tilveru hennar á hliðina. Sigríður hafði gaman af því að setja sig í spor þessarar skynsömu raunvísindamanneskju sem missir stjórn á tilfinningum sínum þegar ástin tekur völdin.

„Ég vildi alls ekki skrifa bara einhverja vísindalega spennusögu, það var ekki það sem ég vildi gera. Mig langaði til að skrifa eitthvað sem væri líka fagurbókmenntir,“ segir Sigríður Hagalín Björnsdóttir, rithöfundur og fréttamaður á RÚV, um nýjustu bókina sína Eldarnir. Ástin og aðrar hamfarir. Þetta er þriðja skáldsaga Sigríðar.

Sagan fjallar um Önnu Arnardóttur, prófessor í eldfjallafræði og forstöðumann Jarðvísindastofnunar, sem reynir að hafa stjórn á atburðarás í óútreiknanlegum náttúruhamförum og einnig á eigin tilfinningum. Hvoru tveggja reynist henni krefjandi verkefni.

Bókin Eldarnir. Ástin og aðrar hamfarir á margt sameiginlegt með fyrstu skáldsögu Sigríðar, Eyland. Báðar sögurnar fjalla að vissu leyti um það sem gerist þegar þjóðin sameinast í einhverju óvenjulegu ástandi og atburðarás.

Sigríður greindi frá því nýverið á Facebook að undanfarið hafi margt fólk spurt hana hvort hún hafi spádómsgáfu vegna þess að margt við ástandið sem ríkir í sögunni sem sögð er í Eyland minni á ástandið í COVID-faraldrinum. Sigríður segist ekki búa yfir spádómsgáfu enda skrifaði hún bókina fyrst og fremst um blaðamennsku. Bókin kom út árið 2016 og hefur verið þýdd á fjölda tungumála síðan þá.

„Fólk hefur frá upphafi alltaf brugðist mjög sterkt við Eyland, sem kom mér svolítið á óvart. Það hefur tengt hana við alls konar hluti og túlkað hana á ýmsan hátt,“ segir Sigríður og tekur pólska lesendur sem dæmi. „Þar hefur margt fólk greinilega tengt hana við uppgang þessara popúlísku og hálffasísku afla þar. Eins með Ungverjaland, þar hefur verið litið á söguna sem einhvers konar umfjöllun um pólitíska atburði sem höfðu ekki gerst þegar ég skrifaði bókina,“ útskýrir Sigríður sem hefur fylgst með ólíkum hópum túlka Eyland á ýmsan hátt síðan bókin kom út.

„Það er náttúrlega best þegar bókin einhvern veginn öðlast sjálfstætt líf.“

„Það sem er svo skrítið er að það er eins og bækurnar viti miklu meira en fólkið sem skrifar þær og ég held að Eyland sé svolítið þannig bók. Hún lýsir alls konar aðstæðum í pólitík og samskiptum fólks sem ég hafði ekki hugmynd um að ættu sér stað eða höfðu alls ekki gerst þegar ég skrifaði hana. Það er náttúrlega best þegar bókin einhvern veginn öðlast sjálfstætt líf.“

Eins og áður sagði skrifaði Sigríður bókina Eyland fyrst og fremst um blaðamennsku og það sem gerist þegar blaða- og fréttamenn fá ekki svigrúm til að vinna vinnuna sína. „Mér fannst vera komið svo mikið óþol og skilningsleysi gagnvart þessu hlutverki blaðamanna sem er að spyrja krítískra spurninga um samfélagið sitt. Það er náttúrlega það sem við vinnum við, það er að spyrja krítískra spurninga um það sem er að gerast í kringum okkur.“

Sigríður segir að hún hafi upplifað að á einhverjum tímapunkti hafi krafa fólks um að fréttamenn spyrðu ekki óþægilegra spurninga orðið fyrirferðamikil. „Það var eins og það hefði myndast óþol og pirringur yfir því að einhver skyldi vera að spyrja þessara spurninga. Mér finnst ég hafa fundið sífellt meira og meira fyrir þessu undanfarin ár og það er upphaflega hugmyndin sem varð til þess að ég skrifaði Eyland.“

Sigríður tók nýverið upp hanskann fyrir samstarfsmann sinn, Einar Þorsteinsson, sem fékk yfir sig holskeflu gagnrýni í kjölfar Kastljósþáttar þar sem hann ræddi við Pál Matthíasson, forstjóra Landspítalans, um COVID-smit sem komu upp á Landakoti.

Hún skrifaði meðal annars þetta í Facebook-færslu um málið:

„Við erum aldrei hafin yfir gagnrýni, en margt af því sem sett hefur verið fram um viðtalið, meðal annars hér á Facebook, getur ekki flokkast sem annað en persónulegar árásir og smánun á hendur vönduðum og skeleggum fréttamanni, sem hefur ekki unnið annað til saka en að vinna vinnuna sína. Einar er ekki eini frétta- eða blaðamaðurinn sem hefur þurft að þola rætnar, persónulegar árásir fyrir störf sín, oft frá fólki sem ætti að vita betur en að fara í manninn og skjóta sendiboðann.“

Aðspurð hvort að hún sjálf hafi lent í sambærilegum árásum fyrir það eitt að vinna vinnuna sína segir Sigríður: „Nei, ég hef gert það. Ekkert svona, auðvitað lendir maður alveg í því að fá á sig storminn og það er bara partur af þessu, hluti af því sem maður þarf að brynja sig fyrir í þessu starfi. Að fá yfir sig alls konar leiðindi og viðbrögð frá fólki sem er ekki hrifið af spurningunum manns er hluti af starfinu. En það er svona eins og ákveðin umfjöllunarefni „triggeri“ þetta meira heldur en annað.“

Hún segir að í ástandinu sem hafi skapast í COVID-faraldrinum sé eins og þráðurinn sé styttri hjá mörgum. „Eins og í þessu tilfelli, þar sem var verið að fjalla um spítalann og hópsmit sem kom upp þar, og það var verið að spyrja krítískra spurninga um það sem hefði átt sér stað á spítalanum þá held ég að margt fólk hafi upplifað þetta einhvern veginn sem árás á þessa miklu samstöðu sem við höfum öll reynt að taka þátt í. Fólk er orðið svo gírað inn á það og ég held að margt fólk hafi litið á þetta sem árás á heilbrigðisstarfsfólk, á starfsfólk Landakots. En þessar spurningar snerust alls ekki um það, þetta voru spurningar til yfirstjórnar spítalans um hvernig hefði verið staðið að sóttvörnunum á spítalanum,“ segir Sigríður.

Hún segir að viðbrögð ákveðins hóps við tilteknum Kastljósþætti hafa verið órökrétt. „Viðbrögðin voru ekki lógísk eða í samræmi við umfjöllunina, þetta var eitthvað svo brjálað. Ég held líka að vegna samfélagsmiðlanna og hvernig þeir virka lokumst við alltaf meira og meira inni með fólki sem hefur nákvæmlega sömu skoðanir og við. Margt fólk er orðið svo óvant því að heyra þessar krítísku spurningar sem hefðbundnir fjölmiðlar spyrja.“

„Viðbrögðin voru ekki lógísk eða í samræmi við umfjöllunina, þetta var eitthvað svo brjálað.“

Spurð út í hvort henni þykir almennt vanta upp á þekkingu fólks á fjölmiðlum segir Sigríður: „Nei, það vantar kannski ekki upp á þekkinguna á fjölmiðlum en kannski skilning á nákvæmlega þessu hlutverki þeirra, sem snýst um að spyrja krítískra spurninga. Þessi ofboðslega krafa um að fjölmiðlar eigi að vera uppbyggilegir og jákvæðir og eigi að hjálpa til með því að vera í jákvæðri umfjöllun verður áberandi. Við erum til dæmis oft spurð að þessu á RÚV, af hverju allar fréttirnar okkar séu svona neikvæðar. Af hverju við séum ekki meira í því að segja fréttir sem gera fólk hamingjusamt. En það er náttúrlega ekki hlutverk fréttamiðils, við eigum við reyna að sýna fólkinu heiminn eins og hann er, vekja athygli á því sem betur má fara og veita stjórnvöldum aðhald,“ segir Sigríður. Hún bætir við: „Þetta á auðvitað ekki við um alla, þetta er bara ákveðinn hópur sem gerir kröfu um að við séum í einhverri meðvirkni.“

Mynd / Hákon Davíð

Hún líkir þjóðfélögum við fjölskyldur. „Við verðum að geta talað hreinskilnislega um hlutina, talað um vandamálin og reynt að finna lausnir. Ef við getum það ekki þá verður þetta sjúkt samfélag og það líður engum vel í svoleiðis samfélagi.“

„En sem betur fer þá lifum við í þannig samfélagi að það er fréttnæmt þegar eitthvað slæmt gerist.“

Sigríður tekur fram að það sé þó fátt skemmtilegra en að segja skemmtilegar og jákvæðar fréttir. „Það er dásamlegt að segja jákvæðar fréttir og við þurfum þær líka. En sem betur fer þá lifum við í þannig samfélagi að það er fréttnæmt þegar eitthvað slæmt gerist. Þegar stríð, hörmungar og hamfarir geisa, það er fréttnæmt vegna þess að það er ekki eðlilegt ástand. Sem betur fer.“

Ekki innréttuð í kollinum eins og vísindamaður

Við víkjum að nýju bókinni hennar, Eldarnir. Ástin og aðrar hamfarir. „Já, talandi um hamfarir,“ segir hún og hlær.

„Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á jarðvísindum, alveg síðan ég var krakki en ég er ekki innréttuð í kollinum eins og vísindamaður, ég bý ekki yfir þeim hæfileikum í stærðfræði og öðru til þess að geta unnið í þessu fagi, en það er ægilega gaman að fjalla um eldsumbrot og jarðskjálfta sem fréttamaður,“ segir Sigríður.

Eldarnir er þriðja skáldsaga Sigríðar Hagalín. Fyrri bækur hennar eru Eyland og Hið heilaga orð. Mynd / Hákon Davíð

Hún segir að sig hafi langað til að fjalla um samband íslensku þjóðarinnar við Ísland annars vegar og um kraftmikla ást hins vegar í þessari nýju bók. „Mig langaði til að skrifa um samband okkar við landið okkar, við þetta skrítna land sem við búum á. Það gýs hérna á sirka þriggja til fimm ára fresti og þetta er einhvern veginn bara partur af því að búa hérna, partur af tilverunni og við hugsum ekkert svakalega mikið um það. Fólk verður bara spennt og upprifið þegar það fer að gjósa, við lítum ekki á þetta sem einhverjar hræðilegar ógnir, væntanlega vegna þess að það hefur ekki orðið raunverulegt hamfaragos síðan í Vestmannaeyjagosinu,“ segir Sigríður. Hún segir landsmenn líta á eldgos sem heppilega landkynningu upp að vissu marki, og hún skrifar um það sjónarmið í bókinni. „Auðvitað gerum við okkur grein fyrir því að Katla er hættuleg og að Hekla getur verið hættuleg, en samt sem áður er það ekki eitthvað sem við veltum fyrir okkur dagsdaglega.“

Náttúruhamfarir og vísindi spila stórt hlutverk í sögunni. Svo er það ástin og hamfarir í einkalífinu og hún segir bókina Anna Karenina eftir Leo Tolstoy hafa veitt sér innblástur hvað þann hluta sögunnar varðar. „Ég varð alveg heilluð. Þar skrifar hann um ástina sem eyðandi hamfaraafl sem rústar lífi hennar, ekki eins og einhvern skapandi, góðan og rómantískan kraft. Þetta datt svo saman í kollinum á mér, þessi tegund af eyðandi ást og eldgosin. Bæði svona ofboðslega eyðileggjandi öfl en skapandi á sama tíma. Mig langaði til að tefla þessu tvennu saman í bókinni.“

Jarðvísindamenn flissuðu yfir mestu villunum

Við lesturinn á Eldarnir. Ástin og aðrar hamfarir, skín í gegn að höfundurinn er þenkjandi eins og fréttamaður og í bókinni er sett upp trúleg sviðsmynd af því sem gæti gerst þegar náttúruhamfarir verða. Stofnanir, ráðherrar, vísindamenn, fulltúrar hagsmunasamtaka og fulltrúar lögreglunnar eru meðal þeirra sem koma við sögu.

Þá koma blaða- og fréttamenn líka við sögu og aðrar sögupersónur ranghvolfa augunum yfir að þeir séu mættir forvitnir. „Ég hafði sérlega gaman af því,“ segir hún og hlær.

Þá er ljóst að Sigríður hefur farið í mikla rannsóknarvinnu til að koma vísindalegum upplýsingum um jarðvísindi frá sér á trúlegan hátt. Spurð hvort það hafi ekki verið snúið segir hún: „Jú, það var það. Ég þurfti bæði að lesa mér mjög mikið til og fékk líka jarðvísindamenn til að hjálpa mér. Ég tók bæði viðtöl við vísindamenn og fékk þau til að lesa yfir yfir hjá mér. Þau flissuðu að mestu villunum hjá mér,“ segir Sigríður og hlær. „Auðvitað tek ég mér skáldaleyfi og allt það en ég varð að hafa þetta trúlegt vísindalega. Það er svo mikið að gerast á skaganum núna, hann er vaknaður að einhverju leyti þannig að það var eiginlega bara ábyrgðarhluti að hafa þetta nokkurn veginn í lagi.“

„…ofboðslega gaman að skrifa um þessa skynsömu raunvísindamanneskju, sem verður fyrir því hræðilega áfalli að verða ástfangin.“

Aðspurð hvort henni þyki skemmtilegra, að skapa einhverja trúverðuga sviðsmynd og skrifa um vísindi og prótókol hjá yfirvöldum eða skrifa um ástina segir Sigríður:

„Mér finnst hvorutveggja mjög skemmtilegt. Þegar maður fjallar um svona vísindi og fræðilega hluti er kúnst að koma þeim upplýsingum á framfæri án þess að þetta virki eins og einhver fræðitexti. En svo var líka bara ofboðslega gaman að skrifa um þessa skynsömu raunvísindamanneskju, sem verður fyrir því hræðilega áfalli að verða ástfangin. Heimur hennar og sjálfsmynd hrynur vegna þess að hún er svo vön að hafa allt undir „control“. Líf hennar springur svo í loft upp vegna þess að hún hefur ekki stjórn á tilfinningum sínum eins og hún hefur alltaf haldið að hún gerði.“

Hún segir að þetta tæknilega, textinn sem hún vann með aðstoð sérfróðra vísindamanna, hafi verið krefjandi verkefni en tiltölulega auðvelt miðað við margt annað. „Mesti slagurinn er að berjast við tungumálið, persónusköpunina og byggingu sögunnar. Það er stærsti höfuðverkurinn.“

Mynd / Hákon Davíð

Aðspurð hvort að hún eigi auðvelt með að skrifa út frá einhverjum sem hugsar allt öðruvísi en hún sjálf segir Sigríður: „Það eru stóru forréttindin við að skrifa skáldsögu, að fá að klæða sig í aðra manneskju, sem hugsar einhvern veginn allt öðruvísi og virkar allt öðruvísi en maður sjálfur. Þetta er fyrsta bókin sem ég skrifa eiginlega algjörlega í fyrstu persónu og þá einhvern veginn gerist það enn þá meira að maður setur sig fullkomlega í spor sögupersónunnar. En það er ekki einfalt verkefni, en það er óskaplega gaman.“

Þýðir ekki að bíða eftir innblæstri

Sigríður hefur verið öflug í bókaskrifum undanfarin ár, gefið út þrjár skáldsögur frá árinu 2016, samhliða því að starfa sem fréttamaður á RÚV. Beðin um að lýsa hefðbundnum degi í lífi sínu þegar hún er að skrifa bók segir Sigríður: „Ég tek mér frí frá fréttamannastarfinu þegar ég er að skrifa. Ég vinn heima og hef yfirleitt takmarkaðan tíma til að skrifa. Ég vakna klukkan sjö, helli upp á kaffi og kem krökkunum í skólann. Svo sit ég bara við og skrifa. Þá gengur ekkert annað en að nýta tímann vel og skrifa eins mikið og ég get. Það þýðir ekkert að bíða eftir einhverjum innblæstri eða að bíða eftir að maður sé í stuði til að skrifa,“ segir Sigríður.

„Það að skrifa er bara að bíta á jaxlinn og plægja áfram.“

Hún segist hafa lært að hún tapi aldrei á að skrifa, jafnvel þó að textinn endi í ruslafötunni. „Meira að segja vondir dagar, þegar manni finnst ekkert gott koma, þeir hjálpa manni líka. Þó að maður skrifi kannski einhverjar senur, persónur og kafla sem maður þarf síðan að henda af því að þeir eru vondir, það er samt eitthvað sem nýtist manni. Þetta er bara erfiðisvinna, það að skrifa er bara að bíta á jaxlinn og plægja áfram.“

- Auglýsing -
- Auglýsing -

Athugasemdir

Orðrómur

Lestu meira