Íris Svava lærði að elska og lifa í sátt við sjálfa sig: „Jákvæð líkamsímynd bjargaði lífi mínu“

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Íris Svava Pálmadóttir missti föður sinn þegar hún var átta ára gömul. Hún segir það hafa verið mikið áfall að horfa upp á móður sína og eldri bróður reyna að bjarga lífi hans og þótt hún sé að mestu búin að vinna úr áfallinu verði hún samt enn þá reið yfir því að hafa ekki fengið fleiri ár með pabba sínum. Íris segist alltaf hafa verið þyngri og stærri en jafnaldrar sínir sem barn og hafi verið strítt vegna þess. Hún hafi ekkert þráð heitar en að verða grönn og öðlast sjálfsöryggi og það hafi tekið sig langan tíma að sættast við líkama sinn og læra að elska sjálfa sig.

Fyrir um það bil þremur árum segir Íris Svava að hún hafi farið að leita á samfélagsmiðlum að konum sem sér hafi fundist hún geta samsamað sig við. „Ég þurfti alveg að hafa fyrir því að finna þær en það tókst eftir nokkra leit og ég fór upp frá því að fylgja konum á Instagram sem áttu það sameiginlegt að vera örugggar með sjálfar sig þrátt fyrir að uppfylla ekki þessar stöðluðu kröfur um fegurð. Allt í einu sá ég konur sem ég gat speglað mig í, konur sem voru sterkar og búnar að ná langt, og ég efldist við það. Ég gætti þess líka að umkringja mig jákvæðum konum sem tala ekki niður til annarra kvenna og ég fylgi ekki neinum á Instagram sem fá mig til að efast um mitt eigið ágæti.“

Hún segir ferlið í átt að sjálfsást þó ekki hafa verið auðvelt. „Ég get ekki sagt að ég hafi vaknað einn daginn og bara hugsað með mér að ég væri geggjuð og þetta væri komið. Ferlið að læra að elska mig og lifa í sátt með sjálfa mig hefur tekið á en að uppskera allt erfiðið er mjög gott. Það að geta elskað mig nákvæmlega eins og ég er, klætt mig nákvæmlega eins og ég vil, segja og gera það sem ég vil, svo lengi sem það særir ekki neinn auðvitað, er mjög frelsandi. En svo er líka svo dásamlegt að vera sama hvort aðrir dæmi mig eður ei. Ég er líka hætt að bera mig saman við aðrar stelpur og um leið og ég hætti því fann ég svo mikinn frið. Ég áttaði mig loksins á því að ég er einstök og verð aldrei eins og einhver önnur og það er engin önnur að fara að verða eins og ég. Og það sem er einmitt svo skemmtilegt við þetta allt saman er að uppgötva að maður er einstakur, það er ofurkrafturinn okkar allra,“ segir Íris og brosir breitt.

„Jákvæð líkamsímynd bjargaði lífi mínu.“

Íris Svava er í forsíðuviðtali í nýjasta tölublaði Vikunnar sem kemur í verslanir á morgun, fimmtudag.

Íris Svava er í forsíðuviðtali Vikunnar

Bryndís Óskarsdóttir, eða Dísa Óskars, kann listina að nýta hlutina til hins ýtrasta. Hún heldur saman Facebook-hópi undir yfirskriftinni Úr geymslu í gersemi, en þar kennir hún ekki bara leiðir til að gefa gömlum hlutum nýtt líf heldur einnig þessa fallegu hugsjón nýtni.

Vilhelm Grétar Ólafsson tannlæknir, sérfræðingur í tannfyllingu og tannsjúkdómafræði, og lektor við Tannlæknadeild Háskóla Íslands. Hann útskrifaðist sem tannlæknir árið 2007, að eigin sögn í bullandi góðæri, en jafnframt korter í kreppu. Vilhelm gefur lesendum góð ráð til að viðhalda heilbrigðum tönnum og forðast andfýlu.

Í Málinu sem er nýr efnisliður í Vikunni munum við taka fyrir málefni sem eru í umræðunni. Stuldur á persónuupplýsingum eða „identity theft“ kallast auðkennisþjófnaður á íslensku. Glæpir af þessu tagi eru í hröðum vexti í heiminum og þjófarnir notfæra sér upplýsingarnar á margvíslegan hátt. Þekktir Íslendingar hafa orðið fyrir auðkennisþjófnaði og deila reynslu sinni.

Kraftlyftingakonan og grænkerinn Hulda B. Waage hefur sett fjölmörg Íslandsmet síðan hún fór að stunda lyftingar. Árangurinn kemur ekki að sjálfu sér og Hulda leggur mikið á sig til að ná markmiðum sínum, hún vaknar gjarnan klukkan 4.45 á morgnana til að fara á fyrri æfingu dagsins.

Sigvaldi Þórður Kaldalóns, Svali, leiðsögumaður og útvarpsmaður með meiru er undir smásjánni. Hans mesti ótti er að tapa gleðinni.

Í Vikunni má einnig finna umfjöllun um tísku, fræga fólkið, húðumhirðu, og fleira, auk þess sem Deiglan, Lífreynslusaga Vikunnar, krossgátan, orðaleit og stjörnuspá Vikunnar eru á sínum stað

Tryggðu þér eintak í næstu verslun eða í vefverslun okkar.

- Auglýsing -

Elsta tímarit landsins um daglegt líf, tísku, menningu, mat og lífsstíl.

Tryggðu þér árs áskrift og fáðu vikuleg tölublöð á 832 kr. stykkið eða kauptu stakt blað á 1.795 kr.

- Auglýsing -

Athugasemdir

Orðrómur

Lestu meira