Jarðvísindamenn flissuðu yfir mestu villunum

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

„Ég vildi alls ekki skrifa bara einhverja vísindalega spennusögu, það var ekki það sem ég vildi gera. Mig langaði til að skrifa eitthvað sem væri líka fagurbókmenntir,“ segir Sigríður Hagalín Björnsdóttir, rithöfundur og fréttamaður á RÚV, um nýjustu bókina sína Eldarnir. Ástin og aðrar hamfarir.

Við lesturinn á bókinni sést að Sigríður hefur farið í mikla rannsóknarvinnu til að koma vísindalegum upplýsingum um jarðvísindi frá sér á trúlegan hátt. Spurð hvort það hafi ekki verið snúið segir hún: „Jú, það var það. Ég þurfti bæði að lesa mér mjög mikið til og fékk líka jarðvísindamenn til að hjálpa mér. Ég tók bæði viðtöl við vísindamenn og fékk þau til að lesa yfir yfir hjá mér. Þau flissuðu að mestu villunum hjá mér,“ segir Sigríður og hlær.

Eldarnir eru þriðja skáldsaga Sigríðar Hagalín Björnsdóttur.

„Auðvitað tek ég mér skáldaleyfi og allt það en ég varð að hafa þetta trúlegt vísindalega. Það er svo mikið að gerast á skaganum núna, hann er vaknaður að einhverju leyti þannig að það var eiginlega bara ábyrgðarhluti að hafa þetta nokkurn veginn í lagi.“

Aðspurð hvort henni þyki skemmtilegra, að skapa einhverja trúverðuga sviðsmynd og skrifa um vísindi og prótókol hjá yfirvöldum eða skrifa um ástina segir Sigríður:

„Mér finnst hvorutveggja mjög skemmtilegt. Þegar maður fjallar um svona vísindi og fræðilega hluti er kúnst að koma þeim upplýsingum á framfæri án þess að þetta virki eins og einhver fræðitexti. En svo var líka bara ofboðslega gaman að skrifa um þessa skynsömu raunvísindamanneskju, sem verður fyrir því hræðilega áfalli að verða ástfangin.“

„Mesti slagurinn er að berjast við tungumálið, persónusköpunina og byggingu sögunnar.“

Hún segir að þetta tæknilega, textinn sem hún vann með aðstoð sérfróðra vísindamanna, hafi verið krefjandi verkefni en tiltölulega auðvelt miðað við margt annað. „Mesti slagurinn er að berjast við tungumálið, persónusköpunina og byggingu sögunnar. Það er stærsti höfuðverkurinn.“

Lestu viðtalið við Sigríði í heild sinni hérna.

- Auglýsing -
- Auglýsing -

Athugasemdir

Orðrómur

Lestu meira

Óska eftir almennum lesendum í verðlaunanefndir

„Okkur fannst kominn tími á rödd hins almenna lesanda,“ segir Bryndís Loftsdóttir, starfsmaður Félags íslenskra bókaútgefenda en...