Katrín Ósk gefur af sér:„Kennir börnum hver hinn raunverulegi og verðmætasti fjársjóður lífsins er“

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Katrín Ósk Jóhannsdóttir ákvað að láta drauma sína rætast og hefur nú stofnað eigið fyrirtæki þar sem hún gefur út barnabækur sínar, ásamt tengdum vörum. Hún segist aldrei áður hafa fundið jafnmikla ástríðu og gleði í vinnu. Hluti af ágóða bókarinnar Mömmugull rennur til Umhyggju, styrktarsjóðs fjölskyldna langveikra barna, nú í nóvember, en Katrín Ósk segir mikilvægt að gefa af sér til annarra.

Mikilvægt að gefa af sér

Katrín er með átak í gangi til 15. nóvember þar sem 500 krónur af hverri seldri bók af Mömmugulli renna til Umhyggju, félags langveikra barna. „Ég er alin upp við að koma fram við aðra eins og ég vil að þeir komi fram við mig. Í kringum jólin er maður einstaklega þakklátur fyrir það sem maður hefur, og gefur þá meiri gaum að því sem maður hefur og aðrir hafa ekki,“ segir Katrín, sem vegna atvinnumissis og aðstæðna í þjóðfélaginu hugsaði hvaða leið hún gæti farið í ár til að láta gott af sér leiða. „Ég hef til dæmis alltaf sett jólapakka undir jólatrén í Kringlunni og Smáralind, en eins og ástandið er veit ég ekki hversu aflögufær ég verð í ár. Ég ákvað að hugsa í lausnum, og ég á lager af Mömmugull-bókunum. Frekar en að gefa Umhyggju bækurnar ákvað ég að ég vildi frekar selja þær og gefa kaupendum kost á að styrkja félagið um leið. Ég valdi Umhyggju því ég vildi styrkja foreldra og börn. Þangað geta foreldrar allra langveikra barna sótt styrki. Markmiðið er að ná 200 bókum, þannig að ég geti gefið félaginu 100.000 krónur en allt umfram það væri algjör draumur.“

Katrín Ósk með Mömmugull
Mynd / Hákon Davíð Björnsson

Heimasíða Óskar-Brunnur.

Mömmugull mun heilla bandarísk börn

Mömmugull verður ekki bara fáanleg hérlendis, því á næsta ári mun hún koma út í Bandaríkjunum undir nafninu Mommy´s Treasure, en Katrín sendi bókina til útgefanda þar og fékk strax jákvætt svar. Bókin mun koma þar út sem harðspjaldabók, hljóðbók og rafbók, einnig verða gefin út veggspjöld, bókamerki og auglýsingabæklingar um bókina.

„Ég er dásamlega hvatvís og set markið hátt, það getur verið kostur og gríðarlegur ókostur líka. Ég er með þann hugsunarhátt að maður tapi aldrei. Þannig að ég ákvað að reyna þetta sjálf, ég hef bara svo óbilandi trú á Mömmugulli,“ segir Katrín, sem þýddi bókina og sendi rafútgáfu af henni til útgefandans í Bandaríkjunum. „Mér finnst bókin falleg og er dásamlega stolt af henni, og útgefandinn er það líka, þau samþykktu textann og ætla ekki að breyta honum neitt, myndirnar fá að halda sér, nema við munum gera aðra forsíðu. Ég er ótrúlega lánsöm að hafa fundið þau og þau vinna mikið fyrir mig tengt markaðssetningu og fleira. Þau gefa sér ár frá því að skrifað er undir samninginn, og þar til bókin kemur út, þannig að ég veit ekki alveg útgáfudag, en það verður alla vega ekki fyrir jólin,“ segir Katrín og brosir. „Eins og ég segi alltaf: Þú tapar engu á að reyna. Annaðhvort færðu neitun, eitthvað gengur ekki upp og þú stendur á sama stað og áður eða þú færð þetta geggjaða JÁ og hlutirnir ganga upp, og stórt ævintýri hefst! Ég er alsæl með að Mömmugull nái til enn fleiri barna.“

Katrín Ósk styrkir Umhyggju

Lestu viðtalið við Katrínu Ósk í Vikunni sem fæst á næsta sölustað.

- Auglýsing -
- Auglýsing -

Athugasemdir

Orðrómur

Forsíðuviðtal Mannlífs

Lestu meira