„Klæðskiptin voru lítill plástur á stórt sár“

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Ljósmyndaranum Hröfnu Jónu Ágústsdóttur var úthlutað karlkyni við fæðingu, en fann snemma að hún væri stelpa. Hún reyndi í mörg ár að laga sig að því sem samfélagið bjóst við af strákum en fann ávallt að eitthvað vantaði. Röð áfalla varð til þess að Hrafna Jóna upplifði andlegt þrot en upp úr því fékk hún kjarkinn til að fylgja hjartanu. 

„Það var ekki fyrr en ég fór að takast á við unglingsárin sem ég áttaði mig á því að það væri eitthvað ekki rétt í hausum á mér. Ég hafði samt engin orð yfir það. Eitt það fyrsta sem ég man eftir var þegar ég fór í afmæli til frænku minnar. Hún og einhverjar vinkonur hennar voru saman í hóp og einhver þeirra sagði eitthvað á borð við: „Við stelpurnar erum að leika okkur saman.“ Mér fannst ég vera hluti af þessum stelpuhóp, en vissi að þær voru ekki með mig í huga þegar þær sögðu „við stelpurnar“. Eins man ég þegar mamma sagði: „Ég á ekkert nema stráka, hvar eru stelpurnar?“ þá var eitthvað inni í höfðinu á mér sem sagði: Ég held að ég sé stelpa, en ég veit það ekki,“ segir Hrafna.

Hún fluttist til Reykjavíkur en það var eins og hún væri alltaf á skjön við veruleikann og hún fann sig aldrei fyllilega. „Á þessum tíma fékk ég hálfgerða andlega útrás með klæðskiptum (cross-dressing). Það er til fólk sem fær kynferðislega nautn með því en ég var ekki þar, ég var í þessu til að fá andlega útrás. Margar sem ég kynntist á þessum tíma sem stunduðu klæðskipti áttuðu sig síðar á því eins og ég að klæðskipti voru bara eins og lítill plástur á ofsalega stórt sár. Maður var að bara að reyna að tappa aðeins af pirringnum í höfðinu á sér.“

Eftir fertugt lét Hrafna gamlan draum sinn um að læra ljósmyndun verða að veruleika. Lokaverkefni hennar í ljósmyndaskólanum vakti mikla athygli og nú safnar hún á Karolina Fund fyrir nýrri sýningu, Dimm Reykjavík. „Ég verð með einstaklingssýninguna mína Nocturne í Skotinu í Ljósmyndasafni Reykjavíkur í vetur (nóvember). Þetta verður fyrsta sýningin mín síðan ég útskrifaðist frá Ljósmyndaskólanum seinasta janúar. Það væri einföldun að segja að ég sé spennt fyrir þessari sýningu. Ég ætla að gera hana sem besta og sýna hvernig Reykjavík er um nótt, ævintýrin og dulúðina undir niðri.“

Eitthvað nýtt

„Ég er í rauninni að feta nýjar slóðir með verkefni eins og þessu. Þó næturmyndir séu hluti af ljósmyndun bæði hér og erlendis, þá snúast myndir hér að mestu um norðurljósin og fegurð íslenskrar náttúru.

Borgarlandslag um nótt hefur lítið sem ekkert verið skrásett hér á landi. Þetta er óplægður akur sem ég er núna að vinna í. Síðastliðin tvö ár hefur þetta verk þróast og þroskast úr lítilli hugmynd minni í það sem gerir Nocturne svona áhugavert. Leikmunir, prentun og innrömmun eru kostnaður sem ég þarf að standa undir, og mun þessi söfnun hjálpa mér svo mikið,“ segir hún um verkefnið. Þeir sem vilja styrkja geta farið inn á https://www.karolinafund.com/project/view/3047

Lestu viðtalið í nýjustu Vikunni.

Viðtal / Melkorka Mjöll Kristinsdóttir
Myndir / Hákon Davíð Björnsson

Tryggðu þér áskrift að Vikunni í vefverslun >

- Auglýsing -

Athugasemdir

Orðrómur

Lestu meira