Litrík og sérstæð hausttíska

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Margt bendir til þess að þetta haust verði ólíkt öllum öðrum í tískuheiminum. Ekki aðeins vegna þess að kórónuveiran hefur haft áhrif á sýningar tískuhúsanna, gestafjölda og tískuvikur heldur einnig vegna nýrra áhrifa. Glys og hugsunarlaus sóun á verðmætum er ekki lengur leyfileg eða viðurkennd. Takturinn er hægari og sumir segja heilbrigðari og betri.

Krafan um sífelldar nýungar, meira, hraðar og oftar, hefur skyndilega snúist við. Nú vilja menn sjá endurnýtingu, aukna notkun á efnum úr nærumhverfinu og fallegan klassískan stíl sem endist. Í dag keppast menn við að skapa eigin stíl og leita leiða til að nýta það sem til er fyrir. Þrátt fyrir það endurspegla tískubloggin og færslur fólks á samfélagsmiðlum hvað föt geta skipt miklu máli. Mjög margir töluðu um að í samkomu- og útgöngubanni hafi munað þá miklu að klæða sig eins og þeir væru á leið til vinnu, hugsa um útlitið af natni. Það hafi hreinlega hjálpað þeim að halda sönsum meðan einangrunin var mest.

„Mjög margir töluðu um að í samkomu- og útgöngubanni hafi munað þá miklu að klæða sig eins og þeir væru á leið til vinnu, hugsa um útlitið af natni.“

Venjulega hefðu haust- og vetrarlínur stóru tískuhúsanna verið komnar fram mun fyrr en nú er. Allir þekkja að með haustinu koma vandaðri efni, dekkri litir og hlýlegri fatnaður. Í ár er það vissulega svo hjá mörgum merkjum en litagleði er samt áberandi meiri núna en oft áður á þessum árstíma. Þótt stórar veislur séu ekki fyrirhugaðar nokkurs staðar á næstunni eru glæsilegir kokteil- og kvöldkjólar engu að síður áberandi. Blússur með slaufur í hálsinn eru áfram gríðarlega vinsælar og engu líkara en að tískuhönnuðir hafi litið til Ölmu Möller landlæknis þegar þeir settust við teikniborðin.

Stórar ermar og fyrirferðarmikil pils

Mest áberandi er útlit sem eiginlega er best að lýsa með orðinu, útblásinn. Hvorki sérstaklega aðlaðandi orð né heldur hugrenningatengslin sem það skapar en engu að síður er það svo. Víð, stór pils, pífur, púffermar, síðar og miklar ermar, stórir treflar sem vafið er um háls og herðar og margt fleira í þessa áttina var að sjá hjá Chanel, Fendi, Carolina Herrera, Molly Goddard, Off White, Isabel Marant og fleiri leiðandi hönnuðum. Gylltur litur og gulur voru einnig áberandi mjög víða og það er óvenjulegt að hausti. Tom Ford sýndi glæsilegar flíkur í þessum lit meðal annars með hjálp Bellu Hadid.

Víða mátti einnig sjá merki þess að alvara þeirra tíma sem við nú lifum hafi síast inn. Alls konar prjónapeysur, treflar, slár og prjónakjólar eru meðal þess sem sannarlega er í tísku og konur ættu að teygja sig inn í skápana og sækja gömlu peysurnar sínar en þær má para við hvað sem er þessa dagana.

„Víð, stór pils, pífur, púffermar, síðar og miklar ermar, stórir treflar sem vafið er um háls og herðar og margt fleira í þessa áttina var að sjá hjá Chanel, Fendi, Carolina Herrera, Molly Goddard, Off White, Isabel Marant og fleiri leiðandi hönnuðum.“

Einhvern tíma var sagt að appelsínugult væri hið nýja svarta en nú er svart sannarlega svart og það er í tísku. Hárauður sömuleiðis. Núna borgar sig að fjárfesta í litlum rauðum kjól og hengja við hliðina á þessum litla svarta.

Glitrandi efni og köflur

Pallíettur og glitrandi efni verða áfram í allan vetur. Jil Sander er farin að búa sig undir breiðar axlir og axlapúða í sinni línu og jakkaföt fyrir konur halda velli eða buxnadragtir. Köflur eru rosalega vinsælar og tíglamynstur. Engu er líkara en skosku hálöndin og þeirra fatnaður hafi verið mörgum hönnuðum ofarlega í huga. Alexander McQueen og Brandon Maxwell nota sér þessa tísku óspart. Leðurfylgihlutir eru líka mjög vinsælir; stígvél, belti, skór og beisli. Leður-leggings, -jakkar, -kjólar og -kápur eru einnig mjög heit þetta árið. Frakkar eins og Neo klæddist í The Matrix eru toppurinn hvað þetta varðar.

„Engu er líkara en skosku hálöndin og þeirra fatnaður hafi verið mörgum hönnuðum ofarlega í huga.“

Allt sem sveiflast er líka algjörlega málið. Kögur, fjaðrir og pífur sem sveiflast þegar manneskjan gengur er meðal þess sem sjá má mjög víða. Miuccia Prada parar kögrið saman við klassíska, einfalda, næstum stranglega hefðbundnar flíkur. Þegar litið er yfir sviðið er þetta lifandi og skemmtileg tíska. Falleg og örvandi fyrir ímyndunaraflið og ef veiran heldur áfram að halda heiminum í heljargreipum er ekkert að því að klæða sig upp á heima og njóta þess að láta flíkurnar sveiflast.

Tryggðu þér áskrift að Vikunni í vefverslun >

- Auglýsing -

Athugasemdir

Orðrómur

Lestu meira

Stormfuglar hljóta alþjóðleg bókmenntaverðlaun

Einar Kárason og sænskur þýðandi hans, John Swedenmark, hljóta alþjóðleg bókmenntaverðlaun Menningarhúss og Borgarleikhúss Stokkhólms (Kulturhuset Stadsteatern)...