„Mamma sagði mér að þetta hefði verið ein af erfiðustu ákvörðunum lífs síns“

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

„Ég held að mamma hafi aldrei jafnað sig á þessu, þetta var eitthvað sem hún lifði með en fór aldrei í gegnum af því að það var bara of sárt,“ segir Sigurður Karlsson, Siggi, sem var sendur í fóstur þegar hann var þriggja ára gamall og glímdi við afleiðingar tengslaröskunar. Siggi prýðir forsíðu nýjasta tölublaðs Vikunnar og hér birtum við örstutt brot úr viðtalinu.

„Ég fékk ofsalega fallegt og gott uppeldi hjá fósturforeldrum mínum en samt leið mér illa alla daga og gat ekki talað um það við neinn. Ég gat ekki sagt það við fósturforeldra mína, því þau voru svo yndisleg við mig, og ekki gat ég talað um það við blóðforeldra mína því þú veist hvað börn eru samviskusöm og vilja ekki gera neinn leiðan. Ég hugsaði að mamma og pabbi væru búin að láta frá sér öll börnin og ættu nógu erfitt þótt þau vissu ekki hvað mér liði illa í ofanálag.“

Siggi fæddist í Reykjavík árið 1961, yngstur fimm systkina. Foreldrar hans, Hafrún Kristín Ingvarsdóttir og Karl Sigurjónsson, skildu og Siggi segir að þröngt hafi verið í búi. „Á þessum tíma voru engar barnabætur eða neinir fjárhagslegir styrkir í boði fyrir einstæða foreldra eða þá sem höfðu lítið á milli handanna.“

Úr varð að systkinunum fimm var komið fyrir hvert á sínu fósturheimilinu. Siggi var sendur alla leið vestur í Ísafjarðardjúp til ömmusystur sinnar, Stefaníu Finnbogadóttur, og eiginmanns hennar, Hans Valdimarssonar, sem bjuggu þar á sveitabæ og áttu fimm dætur svo Siggi segir að hann hafi komið inn í líf þeirra sem draumasonurinn sem þau höfðu ekki eignast. Hans hélt að sögn Sigga dagbækur alla tíð og í færslu sem dagsett er 5. maí 1964 stendur fyrir aftan lýsingu á veðri þann dag: „Í dag kom Siggi minn.“

Upphaflega hafði staðið til að Siggi yrði bara hjá Hans og Stefaníu yfir sumarið en myndi svo fara aftur heim til móður sinnar. Þegar sumrinu lauk fór Stefanía með hann til móður hans. „Ég man að mamma var að baka vöfflur en hún hafði ekki átt fyrir nægri mjólk svo hún þynnti mjólkina sem hún átti út með vatni. Stefanía bað um að fá að fara með mig aftur vestur. Mamma sagði mér oft, eftir að við fórum að vera í góðu sambandi, að þetta hefði verið ein af erfiðustu ákvörðunum lífs síns; að þurfa að ákveða hvað væri best fyrir mig. Ekki fyrir sig. Og ég held að mamma hafi aldrei jafnað sig á þessu, þetta var eitthvað sem hún lifði með en fór aldrei í gegnum af því að það var bara of sárt.“

Viðtalið við Sigga má lesa í heild í nýjasta tölublaði Vikunnar.

Kaupa blað í vefverslun >

Myndir / Hallur Karlsson

- Auglýsing -

Athugasemdir

Orðrómur

Lestu meira