Margir minnast Guðrúnar með hjartað í för – „Takk fyrir þig elsku Gunna“

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Guðrún Ögmundsdóttir, baráttukona og fyrrverandi Alþingismaður og borgarfulltrúi, hefði orðið 70 ára í dag, en hún lést 31. desember 2019. Banamein hennar var krabbamein.

Gunna eins og hún var ávallt kölluð var rík af vinum, samstarfsmönnum og samferðafólki, og er almennt álit allra þeirra sem henni kynntust að kynnin hafi verið góð. Gunna þótti auk baráttuandans búa yfir miklum mannkostum, samkennd, tilfinningagreind, hlýju, húmor og heiðarleika. Hennar er sárt saknað af þeim sem henni kynntust.

Sjá einnig: Guðrún Ögmundsdóttir látin

Margir vina hennar hafa í dag deilt myndböndum á samfélagsmiðla undir myllumerkinu Gunnusögur. Á meðal þeirra eru Diljá Ámundadóttir Zöega, varaborgarfulltrúi Viðreisnar, Heiða Björg Hilmisdóttir, varaformaður Samfylkingarinnar, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, og Ögmundur Jónasson, fyrrverandi ráðherrar, Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar.

Guðrún var í forsíðuviðtali Mannlífs í fyrra: „Það lýgur enginn á sig harmi“

„Hún Gunna kemur með mér í vinnuna á hverjum einasta degi, ég ráðfæri mig við hana á hverjum einasta degi. Það mikilvægasta sem hún gefur mér inn í mín störf er að kerfi eru fyrir fólk, en ekki fólk fyrir kerfi. Og þegar kerfi virka ekki eigum við sem erum við stjórnvölinn að breyta þeim, af því við getum það. Takk fyrir þig elsku Gunna, ég sakna þín,“ segir Diljá Ámundadóttir Zöega, varaborgarfulltrúi Viðreisnar.

„Það sem ég lærði af henni er að það er ekkert ómögulegt ef það er rétt og ef það er þess virði að berjast fyrir. Hún kenndi mér líka að mér liggur ekki svona mikið á. Hlutirnir þurfa ekki endilega að gerast hratt, maður má bara ekki gefast upp. Mér finnst að trú hennar á mennskuna og kærleikann ætti að vera okkur öllum leiðarljós sem störfum að velferðarmálum. Að hlusta á fólk, taka sögurnar þeirra, vinna að lausnum með þeim, fyrir þau og að við erum öll í þessu saman,” segir Heiða Björg Hilmisdóttir, varaformaður Samfylkingarinnar.

Í dag hefði mín kæra Guðrún Ögmundsdóttir orðið 70 ára. Gunna hugsaði með hjartanu, var óhrædd við að segja sína skoðun og trúði á fólk og trúði fólki. “Það lýgur enginn upp á sig harmi” sagði hún í viðtali talandi um verkefnið sem hún sinnti svo vel, að tala við fólk sem vistað hafði verið sem börn á vistheimilum. Hún er mér fyrirmynd og um leið reyndist hún mér persónulega dýrmætur mentor og ég sakna hennar á hverjum degi og veit svo er um mörg okkar. En í dag ræðum við um hvað Gunna skildi eftir sig. Var beðin um þetta myndband og þetta er það sem kom fyrst í hugann. #gunnusogur Ingibjörg Helga Gísladóttir

Posted by Heiða Björg Hilmisdóttir on Mánudagur, 19. október 2020

„Hún var alltaf til staðar. Og það sem hún kenndi mér í öllu okkar samstarfi var að þora að hlusta á innsæið, á tilfinningarnar, og víkja stundum heilanum aðeins til hliðar og gefa hjartanu meira rými. Hún kenndi mér líka mikilvægi þess að horfa alltaf á fólkið. Fólkið sem við erum að þjóna, vinna fyrir, fólkið sem við vinnum með og fólkið sem við erum kannski að takast á við. Því á bak við þetta allt saman er fólk, manneskjur, og það var það sem var alltaf í fyrirrúmi hjá Gunnu,” segir Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrverandi ráðherra.

Hún elsku Gunna mín hefði orðið 70 ára í dag ef hún hefði lifað. Af því tilefni settu vinir og vandamenn saman myndband þar sem fólk úr ýmsum áttum segir frá þeim áhrifum sem samstarfið við Gunnu hafði á þau. Hér er mitt innlegg. Gunna er alltaf til staðar – hún er í hjartastað. #gunnusogur

Posted by Ingibjörg Sólrún Gísladóttir on Mánudagur, 19. október 2020

„Hún nálgaðist sín verkefni, hver sem þau voru, alltaf með væntumþykju og manngæsku í fyrirrúmi. Ég held að það sé nálgun sem við getum öll lært mikið af og geti gagnast okkur öllum við að ná fram mikilvægum framfaramálum,” segir Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra.

Guðrún Ögmundsdóttir hefði orðið sjötug í dag. Hún var okkur öllum innblástur.

Posted by Katrín Jakobsdóttir on Mánudagur, 19. október 2020

„Við vitum öll að Gunna var réttsýn baráttukona en hvernig hún náði að virkja þingið og umhverfið til betri vegar var aðdáunarvert. Ekki með látum heldur sjarma og óbilandi eldmóði í þágu réttlætis. Hún hélt fólki við efnið. Talaði við þá sem þurfti að tala við í margs konar réttindabaráttu hennar fyrir þá hópa sem samfélagið hafði ekki tekið nægilega utan um. Hún missti aldrei sjónar á því að rétta af ranglætið. Hún var andleg fyrirmynd, glaðsinna og einlæg hugsjónakona,” segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar.

Gunna Ögmunds hefði orðið 70 ára í dag. Okkar einstaka, hlýja, litríka, mennska Gunna. Hópur samferðafólks hennar undir #gunnusogur bað um stutt svar við spurningunni um hverju Gunna breytti á mínu málasviði og hvernig nálgun hennar væri hvatning til að takast á við verkefni dagsins í dag.Læt myndbandið fylgja hér (fór einhverra hluta vegna ekki áfram) sem og minningargreinina er svarar þessum spurningum líka. Nálgun Gunnu og hugarfar hennar til fólks og samfélags er til eftirbreytni. Ekki síst á þeim tímum sem við nú lifum. “Hönd var lögð á öxl mér, svo tekið utan um mig og sagt rámri röddu – nú verður sko gaman hjá okkur, Þorgerður! Ég leit á glaðlegt andlit Gunnu sem blikkaði mig og faðmaði hlýlega. Þetta var byrjunin á þingsetu okkar árið 1999 og við báðar komnar í allsherjarnefnd þingsins. Þetta var upphafið að óteljandi samtölum, bollaleggingum, samverustundum. En ekki síst vináttu.Eitt af því sem veitir stjórnmálum ómótstæðilegt aðdráttarafl er tækifærið til að kynnast fólki. Alls konar fólki. Fyrir mig var Gunna aðdráttaraflið og drifkrafturinn. Fyrirmyndin. Hvernig hún umgekkst fólk og nálgaðist mál. Gunna var holdgervingur alls þess sem gerir samfélag raunverulega mennskt. Samtöl við Gunnu voru stefnumót við mennskuna.Í allsherjarnefndinni urðum við Gunna nánar samstarfskonur. Henni fannst ekki mikill tilgangur í hlutverkaskiptingu í stjórn og stjórnarandstöðu, ekki síst þegar málefnin snertu réttindi hinna ýmsu minnihlutahópa. Við vitum öll að Gunna var réttsýn baráttukona en hvernig hún náði að virkja þingið og umhverfið til betri vegar var aðdáunarvert. Ekki með látum heldur sjarma og óbilandi eldmóði í þágu réttlætis. Hún hélt fólki við efnið. Talaði við þá sem þurfti að tala við í margs konar réttindabaráttu hennar fyrir þá hópa sem samfélagið hafði ekki tekið nægilega utan um. Hún missti aldrei sjónar á því að rétta af ranglætið. Hún var andleg fyrirmynd, glaðsinna og einlæg hugsjónakona.Þegar Gunna hætti á þingi árið 2007 kom hún í menntamálaráðuneytið með sína sérþekkingu til að sinna hópum sem áttu við erfiðleika að etja innan skólakerfisins. Þar, eins og annars staðar, varð hún þessi mannlegi segull á allt og alla. Ráða- og raungóð. Með henni varð allt betra. Hvar sem hún bar niður.Hvernig hún fann síðan allan þann tíma sem hún gaf fyrir vini og vandamenn er lýsandi fyrir Gunnu. Alltaf til staðar með sín góðu ráð og mikla kærleika. Í stóru sem smáu. Þessi klettur með rámu röddina. Sem í yfir 20 ár hefur alltaf minnt mig á gleðina og bent mér á vonina. Hvað sem á hefur bjátað. Þannig var Gunna. Einlæg, örlát, falleg, styðjandi, hvetjandi, umvefjandi. Allt til hins síðasta. Rúmum sólarhring áður en hún kvaddi áttum við einstaka stund saman og henni lýsandi. Ræddum fólkið okkar, hún spurði um úrræði fyrir barnið mitt og svo var töluð pólitík. Skilaboð Gunnu voru skýr. Fyrst kæmi hjartað, síðan myndi hitt fylgja. Láta hjartað ráða för.Megi hið eilífa ljós lýsa Guðrúnu Ögmundsdóttur.”

Posted by Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir on Mánudagur, 19. október 2020

„Jafnvel best skipulagða og best hannaða velferðarkerfi er ónýtt ef það hefur enga sál og ekkert hjarta. Þetta skildi Guðrún Ögmundsdóttir vel og það sem meira er að hún tók að sér að sjálf að vera sálin og hjartað í öllum þeim velferðarúrræðum sem hún kom að. Þeir sem slík úrræði áttu að gagnast, þau sem leituðu skjóls í velferðarþjónustunni fundu að hjartað í Guðrúnu Ögmundsdóttur sló með þeim. Þess vegna naut hún trausts þeirra sem stóðu höllum fæti í samfélaginu,” segir Ögmundur Jónasson, fyrrverandi ráðherra.

- Auglýsing -
- Auglýsing -

Athugasemdir

Orðrómur

Lestu meira

Svala og Kristján fengu sér paraflúr

Kærustuparið Svala Björgvins, söngkona, og Kristján Einar Sigurbjörnsson, sjómaður, innsigluðu ástina með húðflúri í gær.Svala fékk...