Fordómar í heilbrigðiskerfinu drepa konur og börn

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Nýlega birti Stundin viðtal við unga konu, Írisi Elnu Harðardóttur, þar sem hún lýsti þrautagöngu sinni innan íslenska heilbrigðiskerfisins. Hún þjáðist af endómetríósu og PCOS. Læknar og annað heilbrigðisstarfsfólk hér á landi hafði lítinn skilning á líðan hennar og hún endaði á að fara til Þýskalands í legnám. 

Tilfelli Írisar Elnu var vissulega óvenjulega illvígt en fjölblöðrumyndun á eggjastokkunum eða PCOS bættist við legslímuflakkið og hafði veruleg áhrif á lífsgæði hennar. Hún naut hjálpar þýskra tengdaforeldra sinna vegna þess, að af einhverjum orsökum, ýmist hlustuðu íslenskir læknar ekki á hana eða buðu nákvæmlega engin úrræði.

Ein af ástæðum þess að hún mætti svo lítlum skilningi má meðal annars rekja til mýtunnar um hysteríu kvenna en hún nær ansi langt aftur í tímann. Í papýrusskjölum Forn-Egypta má finna færslu um hysteríu í kvenlíkamanum og allar götur síðan hafa ýmsir karlkynsspekingar haldið því við að til þessa megi rekja margt af þeim kvillum er hrjá konur. Enn eimir eftir af þessari trú innan heilbrigðisstétta og hefur hún kostað bæði konur og börn þeirra lífið.

„Þótt öld sé liðin síðan farið var að greina endómetríósu sem sérstakan sjúkdóm hefur  lækning ekki fundist, ekki einu sinni viðunandi meðferð.“

Þótt öld sé liðin síðan farið var að greina endómetríósu sem sérstakan sjúkdóm hefur engin  lækning fundist, ekki einu sinni viðunandi meðferð. Femínistar hafa bent á að væri þetta kvilli sem hrjáði karlmenn hefði eflaust verið lögð meiri áhersla á að finna úrræði en vafalaust telja sumir það öfga að túlka þetta svo.

Freud vissi allt um konur

Freud var fyrstur til að skilgreina hysteríu, flokka sem sérstakan sjúkdóm og nefna orsakir hennar. Hún stafaði jú af kynferðislegri bælingu eða frústrasjónum á „góðri“ íslensku. Hún gat líka stafað af legflakki sem tengir þetta sannarlega við legslímuflakk. Endómetríósa var sum sé ímyndun kvenna vegna þess að þær fundu ekki kynhvöt sinni eðlilega útrás. Misjafnt var hvernig þetta var meðhöndlað. Freud gerði það með því fá konurnar til að nota frumstæðan víbrator. Aðrir læknar mæltu með útreiðum, reglulegu kynlífi með eiginmanninum eða grasalækningum. Ef allt brást var alltaf það úrræði opið að loka konuna inni á geðveikrahæli sem ekki voru neinir sælustaðir á fyrri hluta síðustu aldar.

En er hvað með femínistana sem telja þetta kyndbundna fordóma, hafa þeir eitthvað til síns máls? Fjölmargar rannsóknir hafa verið gerðar á viðhorfi lækna og annars heilbrigðisstarfsfólks til kvenna. Allar hafa sýnt að umkvartanir karla eru teknar mun alvarlegar en kvenna. Sjúkdómseinkenni sem þeir lýsa eru betur skráð og frekar við þeim brugðist. Mjög oft eru konur taldar taugaveiklaðar eða ímyndunarveikar og sendar heim. Einkum og sér í lagi ef þær sýna tilfinningaleg viðbrögð eða eru í uppnámi.

Fljótari að telja vandann af andlegum toga

Enn í dag er greinileg tilhneiging innan heilbrigðiskerfisins til að telja konur ýkja líkamleg einkenni sem þær finna. Læknar eru einnig mun fljótari að leita skýringa í andlegum kvillum eða sjúkdómum leiti konur sér hjálpar við einhverju sem ekki er auðvelt að sjúkdómsgreina. Þetta á einkum við um ýmis taugafræðileg einkenni og eru þau oft skrifuð á þunglyndi, kvíða eða aðra andlega sjúkdóma. Ef læknum tekst ekki í fyrstu rannsóknum að finna einhverja augljósa orsök eru konur tíu sinnum líklegri en karlmenn til að fá þá greiningu að um sálvefrænan sjúkdóm sé að ræða eða veikindi sem eiga sér rætur í andlegri vanlíðan.

Konur ekki í rannsóknarhópum

Það er líka áhugavert að fram til ársins 1990 voru konur og stúlkur ekki teknar með í rannsóknarhópa í læknavísindum í Bandaríkjunum og víðar. Mörg lyf voru því aðeins prófuð á körlum og aukaverkanir þeirra þegar konur eiga í hlut óþekktar. Þar sem konur voru taldar oftast léttari og minni útgáfa af körlum var þeim líka skömmtuð þessi lyf í samræmi við það sem hentaði karlmanni af sömu hæð og þyngd. Skammtur sem iðulega reyndist kolrangur og beinlínis hættulegur.

„Það er líka áhugavert að fram til ársins 1990 voru konur og stúlkur ekki teknar með í rannsóknarhópa í læknavísindum í Bandaríkjunum og víðar.“

Mikilvægasta tæki hvers læknis eru eyrun. Hann þarf að hlusta af eftirtekt á sjúklinginn og leggja mat á upplýsingarnar af hlutleysi. Í bók sinni Doing Harm: The Truth About How Bad Medicine and Lazy Science Leave Women Dismissed, Misdiagnosed, and Sick, segir Maya Dusenberry að ekki sé nóg með að siðferðilega sé óafsakanlegt að virða að vettugi sjúklinga, heldur leiði vísindaleg vanræksla af þessu tagi til skertrar þekkingar á heilsu helmings mannkynsins. Bergmál mýtunnar um hysteríu kvenna má heyra víða og við getum gert betur í að brúa bilið milli þess sem enn er óútskýrt og óþekkt og þess sem við þó vitum um heilsu og líkama kvenna.

Ýtarlega úttekt á fordómum heilbrigðiskerfisins gagnvart konum er að finna í nýjasta tölublaði Vikunnar. Tryggðu þér eintak.
Tryggðu þér áskrift að Vikunni í vefverslun >

- Auglýsing -

Athugasemdir

Orðrómur

Lestu meira