Nammidagur; nauðsyn eða slæm mistök?

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Þegar fólk ákveður að taka sig á og borða hollari fæðu er algengt að það úthluti sér einum nammidegi í viku. Þá megi leyfa sér að smakka á sætum bitum, feitum mat eða snakki, allt eftir smekk hvers og eins. Sumir segja að nammidagar séu nauðsynlegir, annars þreytist fólk fljótt á meinlætalífinu en aðrir telja þá slæm mistök því þeir haldi við gömlum venjum.

Ein leið til að draga úr sælgætisáti barna er að takmarka það við einn dag í viku. Stundum taka foreldrar þátt í þessu með þeim en hjá mörgum fer þessi eini dagur reglulega úr böndunum. Næringarfræðingar og íþróttaþjálfarar hafa bent á að auðvelt er að borða á einum degi sem svarar þeim kaloríufjölda sem menn hafa brennt umfram daglega orkuþörf á heilli viku. Ef þetta er sett í samhengi við peninga er það eins og þú sparir fimm krónur á hverjum virkum degi til þess eins að eyða fimmtán krónum á laugardegi. Lítill varanlegur árangur verður af slíku.

Sú hætta er einnig fyrir hendi að nammidagarnir taki að lengjast og teygja sig yfir alla helgina. Það er nefnilega mjög algengt að menn renni inn í sama gamla farið þegar þeir taka að leyfa sér sömu óhollustu og áður. Ef nammidagar eiga að virka verður að gæta mikils hófs varðandi hvað er leyfilegt og vera strangur við sjálfan sig. Það er auðvitað góð æfing í sjálfsaga. Sumir kjósa líka að æfa mun meira á nammidögum en venjulega og það hjálpar einnig. Geti fólk lært að umgangast sælgæti, snakk, gos og slíkt af skynsemi og í hófi er mikið unnið. Þegar það tekst segja menn að sykurlöngunin hverfi mjög fljótt og þeir læra að meta aðra og hollari matartegundir umfram sælgætið sem var svo gott áður.

Læra að meta aðrar bragðtegundir

Bragðlaukar okkar eru líkt og við sjálf ákaflega vanafastir. Margir tala um að þegar þeir sleppi sykrinum hafi þeir farið að meta meira súrt og rammt bragð. Vesturlandabúar nota sykur óspart til að draga úr og fela þessar bragðtegundir en þær eru stór hluti af matarupplifun víða um heim. Margir ávextir eru súrir og sumt grænmeti rammt. Með því að skipta þeim út fyrir mjög sæta ávexti eða mildara grænmeti er hugsanlegt að hægt sé að yfirvinna sykurlöngunina fyrr.

En kjósi menn að halda í nammidagana er hægt að draga smátt og smátt úr neyslu þessa daga. Byrja á að leyfa sér stærri skammta en minnka þá hratt. Þá ætti flestum að takast að halda sig við einn dag og minna magn. Það er líka til í dæminu að fólk kjósi að hafa hálfa nammidaga tvisvar í viku og það er líka allt í lagi svo lengi sem neyslan er í þokkalegu hófi. Til að tryggja að svo sé er mikilvægt að muna að borða líka hollan og næringarríkan mat ekki bara skyndibita, sælgæti, snakk og gos.

 „Margir tala um að þegar þeir sleppi sykrinum hafi þeir farið að meta meira súrt og rammt bragð. Vesturlandabúar nota sykur óspart til að draga úr og fela þessar bragðtegundir en þær eru stór hluti af matarupplifun víða um heim.“

Grundvallaratriði í að draga úr snakk- og sykurþörf er að borða vel og borða reglulega. Mikilvægt er að borða góðan og vel útilátinn morgunmat. Ekki sleppa millibitum ef venjan er að fá sér slíka yfir daginn þótt það sé nammidagur. Líkaminn þarf sömu næringarefni þann dag og aðra daga. Þeir sem ekki eru fyrir sælgæti geta haft nammiadaginn með öðru sniði og eldað fínni og orkuríkari mat. Annað gott ráð er að muna að þótt búið sé að ákveða einn tiltekinn nammidag er enginn vandi að færa hann ef manni berst boð í veislu eða saumaklúbb. Með því að færa nammidaginn er hægt að njóta þess að vera með öðrum og borða vitandi að ekki er verið að svíkjast um, aðeins að hliðra til.

 

- Auglýsing -

Athugasemdir

Orðrómur

Lestu meira