Neysla bróður Huldu reyndi á fjölskylduna: „Beið svo oft eftir símtalinu um að hann væri látinn“

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Hulda Bjarnadóttir er landsmönnum góðkunn úr fjölmiðlaheiminum. Auk þess hefur hún verið framkvæmdastjóri Félags kvenna í atvinnulífinu, FKA og Krafts, stuðningsfélags fyrir ungt fólk með krabbamein og aðstandendur, og unnið við ráðgjöf og kennslu í almannatengslum, mörkun og viðburðastjórnun fyrir innlend og erlend fyrirtæki. Í dag starfar Hulda á mannauðssviði Marels þar sem hún leiðir alþjóðleg verkefni af ýmsu tagi. Hulda vill létta fordómum af málefnum fanga og aðstandenda þeirra og henni er annt um að aðstandendur hljóti viðeigandi stuðning. Bróðir Huldu, Sveinn, afplánaði fimm ára fangelsdóm fyrir fíkniefnainnflutning sem hún segir hafa reynt mjög á fjölskylduna en þau hafi komið sterkari og nánari út úr þeirri reynslu.

„Maður beið svo oft eftir símtalinu um að hann væri látinn,“ segir Hulda. „Það gátu liðið margar vikur án þess að við heyrðum í honum eða sáum hann og við vissum ekki hvort hann væri lífs eða liðinn. Svo birtist hann kannski allt í einu, í bullandi vímu, og bað mann um að lána sér fyrir sígarettum. Auðvitað tjúllaðist maður, enda var tilfinningarússíbaninn mikill í þessum aðstæðum. En ég er þakklát fyrir það að hafa ekki gefist upp á honum þrátt fyrir allt og saga bróður míns er sigursaga.“

Reiði og tilfinningaumbrot

Sveinn er sjö árum yngri en Hulda. Hún segir hann snemma hafa byrjað að drekka áfengi og reykja kannabis sem þróaðist svo út í sterkari efni. „Þetta litaði líka allt fjölskyldulífið og okkar samskipti. Það komst ekkert annað að en það hvort Sveinn væri búinn að láta heyra í sér, láta sjá sig, hvort maður vissi hvort hann væri í neyslu og hvar hann væri niðurkominn. Ég var oft rosalega reið út í hann og mömmu og pabba fyrir að loka ekki bara á hann en ég var líka hrædd um hann.“ Hulda þagnar um stund.

„Lífið snerist allt um þetta,“ heldur hún áfram. „Samskiptin voru ferlega súr, eins og þau verða gjarnan í svona fjölskyldum; það er svo mikil reiði og alls konar tilfinningar að brjótast um í manni. Það er auðvelt að segja að fólk eigi bara að loka á fíkilinn en þegar þetta er barnið þitt, ætlarðu þá að taka sénsinn á því að loka á hann fyrir fullt og allt sem verður kannski í síðasta sinn sem þú sérð hann? Auðvitað getur vel verið að slíkt sé það sem fólk þurfi til að spyrna í botninn og koma sér á beinu brautina en það mun maður aldrei vita svo ég hef aldrei áfellst mömmu og pabba fyrir að hafa tekið svona á málunum. Aldrei.“

Lestu viðtalið við Huldu í Vikunni sem komin er út.

- Auglýsing -

Elsta tímarit landsins um daglegt líf, tísku, menningu, mat og lífsstíl.

Tryggðu þér árs áskrift og fáðu vikuleg tölublöð á 832 kr. stykkið eða kauptu stakt blað á 1.795 kr.

- Auglýsing -

Athugasemdir

Orðrómur

Forsíðuviðtal Mannlífs

Lestu meira