Ógeðfelld makaleit

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Ég skildi við manninn minn fyrir bráðum níu árum.  Ég var afskaplega ósátt þegar hann kvaddi mig að því er virtist gersamlega kalt og tilfinningalaust og fór að búa með konu sem er fjórtán árum yngri en ég. Það tók mig talsverðan tíma að jafna mig á svikunum en þegar ég var tilbúin að reyna á ný komst ég að því að makaleit er fremur ógeðfelld.

Ég vinn hjá stóru fyrirtæki og félagslíf þar er fjörugt og skemmtilegt. Ég varð oft fyrir því eftir að ég varð einhleyp að vinnufélagar nálguðust mig með alls konar ósmekklegt tilboð. Sumir þessara manna voru kvæntir og ef ég spurði hvernig konunni þeirra myndi lítast á ef ég yrði að beiðni þeirra urðu þeir fúlir og reiðir. Mér var gjarnan sagt, án neinnar yfirborðsmennsku eða kurteisi, að ég væri greinilega kynköld og frekar heft persóna. Ég nennti ekki að gera mér rellu út af þessu en varð hálfhissa þegar í ljós kom að þessir vinnufélagar mínir báru höfuðið hátt næst þegar þeir hittu mig og virtust ekki skammast sín fyrir neitt. Það var eiginlega frekar eins og þeim fyndist að ég ætti að hafa sektarkennd.

Ég komst líka að því að ýmsir vinir mannsins míns voru svo trygglyndir honum að þeim fannst sjálfsagt að bjóða mér að taka við hlutverki hans í svefnherberginu hvenær sem ég vildi. Þegar ég sagði einum hans besta vini að mér yrði óglatt svo andstyggileg þætti mér framkoma hans svaraði hann öskureiður og hann vissi svo sem hvers vegna vinur hans hefði gefist upp á mér. Ég væri stíf og leiðinleg og óspennandi í rúminu. Ég spurði hvort fórnfýsi og manngæska hans væri þá svona einstök fyrst hann byðist til að fórna sér til verka sem væru aulgjóslega hálfgerð skítverk. Það varð fátt um svör og ég hef ekki heyrt í honum síðan.

Maðurinn sem hvarf

Sorgin yfir skilnaðinum, særindin yfir höfnuninni og söknuðurinn eftir manninum linuðust smátt og smátt. Ég fann fljótlega að ég hafði meiri orku en áður, enda breyttist mataræði mitt mikið til hins betra eftir að hann fór. Ég fór að ganga á fjöll og var þar í góðum og glöðum hópi. Þar kynntist ég Svenna. Manni á svipuðum aldri og ég var og okkur varð vel til vina. Við fórum að fara út saman og úr varð ástarsamband. Ég get ekki sagt að ég hafi verið ástfangin af Svenna en mér líkaði vel við hann. Eftir nokkurra vikna samband hætti hann skyndilega að hringja og svaraði ekki tölvupóstum frá mér. Ég reyndi að hringja í hann en fékk ekki svar. Ég hringdi í vinnuna til hans og var gefið samband.

 „Þegar ég lét í ljós lítinn áhuga á því benti hann mér á að mikið framboð væri af konum á mínum aldri en mun minni eftirspurn.“

Honum brá greinilega þegar hann heyrði að þetta var ég og þegar ég spurði hvers vegna hann hefði horfið svo skyndilega tilkynnti hann að hann hefði kynnst annarri konu og vildi gefa sig allan í þeirra samband. Ég varð steinhissa og spurði hvort hann hefði átt í sambandi við hana um leið og mig en hann neitaði. Sagðist einfaldlega hafa heillast af þessari konu. Ég var eiginlega frekar reið en leið þegar ég kvaddi og áttaði mig fljótt á að ég hafði sloppið vel að komast svona fljótt að því hvern mann Svenni hafði að geyma. Tveimur mánuðum seinna hringdi hann í mig og vildi taka upp samband okkar aftur því sú nýja hafði ekki reynst eins spennandi og hann hélt í fyrstu.

Þegar ég lét í ljós lítinn áhuga á því benti hann mér á að mikið framboð væri af konum á mínum aldri en mun minni eftirspurn. Ég svaraði því til að ég kynni mína viðskiptafræði og stundum væri markaðssetning málið. Almennt væri lítill áhugi á vöru sem allir gætu fengið frítt. Við kvöddumst með litlum kærleikum.

Maðurinn sem sat sem fastast

Nokkru seinna komst ég kynni við indælan mann í gegnum vinkonu mína. Sá var fremur hlédrægur og feiminn en virkaði traustur og ljúflyndur. Hann hafði gengið í gegnum mikla fjárhagsörðugleika og var ekki vel staddur. Ég hjálpaði honum að koma reglu á ýmsa þætti en þegar hann missti húsnæðið fór hann fram á að flytja inn til mín. Ég vildi alls ekki taka við honum og sagði strax að það kæmi ekki til greina. Hann gafst ekki upp, flutti inn á systur sína en nauðaði stöðugt í mér að hefja sambúð. Þetta var svo hvimleitt að ég sleit sambandi okkar með það sama en þessi vildi ekki hverfa.

Hann plagaði mig með skilaboðum, tölvupóstum, símhringingum, blómasendingum og öllum því smjaðri sem körlum hefur verið kennt að gangi í konur. Ég varð á endanum að tala hreint út og segja honum að ég hefði ekki áhuga á að taka að mér fullorðinn ósjálfstæðan einstakling sem væri háður mér eins og barn. Mikið var mér létt þegar ég losnaði loks við þennan mann sem ætlaði sér síst af öllu að sleppa.

Maðurinn sem var guðs gjöf til kvenna

Tíminn leið og ég hélt áfram að skapa mér innihaldsríkt líf og uppgötvaði nýja hæfileika og áhugamál hjá sjálfri mér. Í gegnum slíka viðleitni kynntist ég Bigga. Hann var myndarlegur maður og í einstaklega góðu formi. Ég hef alltaf hreyft mig mikið en ég gat alls ekki fylgt Bigga eftir. Hann hjólaði, synti, gekk á fjöll, fór á skíði og spilaði fótbolta. Helst held ég að hann hefði viljað vera að frá morgni til kvölds. Ég hafði ekki þá orku en um tíma fór vel á með okkur.

Ég sá fljótt að Biggi naut mikillar kvenhylli og hvert sem við fórum gáfu þær honum auga og margar döðruðu opinskátt við hann. Ég sá að honum þótti aðdáunin notaleg en velti því ekkert sérstaklega fyrir mér. Ég hef alltaf gert ráð fyrir að fullorðið fólk viti hvað það vilji í þessum málum og ef það kjósi að vera með einhverri manneskju sé það af heilum hug.

 „Hann játaði strax að allt sem um hann væri sagt væri rétt og gaf í skyn að ég gæti varla ætlast til að annað eins gull af manni héldi sig við eina konu og neitaði öðrum um að bragða á góðmetinu.“

Sennilega hefur þetta sakleysi mitt eða einfeldni gert það að verkum að ég áttaði mig ekki á neinu fyrr en samband okkar Bigga hafði staðið í átján mánuði. Þá sagði vinkona mín mér að hann ætti einnig í sambandi við aðra konu sem við könnuðumst báðar við og orðrómur væri um að hann hefði fleiri í takinu. Ég gekk hreint til verks og spurði Bigga um þetta. Hann játaði strax að allt sem um hann væri sagt væri rétt og gaf í skyn að ég gæti varla ætlast til að annað eins gull af manni héldi sig við eina konu og neitaði öðrum um að bragða á góðmetinu. Ég bað hann þá að strika mig út af lista yfir þær konur sem hann þyrfti að sinna,  enda kysi frekar að sjá um mig sjálf en að þiggja greiða af manni sem væri svona upptekinn. Hann fór og ég sá ekki betur en að hann væri pirraður á þessar kvensu sem dirfðist að kvarta.

Vil frekar vera ein

Nú hef ég verið ein í langan tíma og leita ekki eftir félagsskap karlmanna. Ég viðurkenni að oft er ég einmana. Ég á góðar vinkonur sem gera mikið en óneitanlega freistar það mín oft að eignast maka. Mér finnst hins vegar lítið til um úrvalið sem býðst og held því fram að meiri lífsfylling fáist ef maður sparar sér það að standa í þessari ógeðfelldu makaleit. Ég þekki margar konur sem eins er ástatt fyrir og hafa reynt svipaða hluti og ég. Sumar líta orðið eins á þetta og ég en aðrar eru ekki búnar að gefast upp, halda í vonina um að þarna úti leynist hugsandi og almennilegur maður. Ég óska þeim af öllu hjarta góðs gengis í sinni leit en ætla sjálf frekar að verja kvöldunum við lestur góðra bóka.

 

 

 

- Auglýsing -

Athugasemdir

Lestu meira