Ræktaðu gáfur barnsins þíns

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Lengi hefur staðið styrr um það milli vísindamanna hvort gáfur séu meðfæddar eða þróist með barni í uppfóstri. Allir eru þó sammála um að sannarlega sé hægt að efla það sem börnin fá í vöggugjöf og gæða alla góðum gáfum. Hér eru nokkrar leiðir til að efla greind barna.

  1. Brjóstamjólkin best. Rannsóknir sýna að börn sem njóta brjóstamjólkur fyrstu mánuði lífs síns eru almennt fljótari til þroska en jafnaldrar þeirra. Því lengur sem þau eru á brjósti fyrsta æviárið því betur gengur þeim flestum að læra þegar skólaaldri er náð. Svo virðist sem þau grípi fljótar námsefnið og hreyfiþroskinn er sömuleiðis umtalsvert meiri meðal barna sem voru á brjósti sex mánuði eða lengur.
  2. Leyfðu barninu að leika sér í einrúmi. Ef barnið fær aldrei frið til að leika sér á eigin spýtur, hjala, skoða fingur og tær eða skríða heldur er stöðugt haldið leikföngum að því eða verið að leiða athygli þess annað kynnist það sjálfu sér og líkama sínum síðar og verr. Barnið þarf ekki stöðuga örvun frá öðrum, það er fullfært um að hafa ofan af fyrir sér sjálft. Rannsóknir hafa einnig sýnt að ef alltaf er verið að trufla barnið eru líkur á að það hætti að geta haldið athygli og einbeitingu lengur en örskotsstund.
  3. Talaðu við barnið. Það eru bein tengsl milli hversu mikið er talað við börn og hversu mikinn orðaforða þau fá og hve næman málskilning þau öðlast. Heili barna er að mótast fyrstu æviárin og aldrei er jafnauðvelt að hafa áhrif og þá. Málvísindamenn segja að allt frá frumbernsku nemi barnið tal og ekkert að því að tala við barn í vöggu, segja því sögur og syngja fyrir það. Allt skili það sér. Um leið og barnið fer að mynda orð má fara að spyrja það spurninga og bíða eftir svari. Því meira sem eftir svörum þess er hlustað því líklegra er barnið til að ná skjótum málþroska.
  4. Notaðu fingurna til að kenna þeim. Maðurinn hefur frá ómunatíð notað hendurnar til að tjá sig og koma ýmsu til skila. Kenndu barninu að telja með hjálp fingranna, bentu á ýmislegt, veifaðu og búðu til ykkar tákn fyrir einfaldar daglegar athafnir eins og að borða, sofa, vakna og hlæja. Vísindarannsóknir sýna að tákn og táknmál nýtast öllum börnum vel og örva tjáskipti þeirra. Tákn með tali hefur reynst ómetanlegt tæki til að hjálpa börnum sem þurfa á sérstakri málörvun að halda. Með aðstoð tákna má einnig ná fyrr til barnsins en ella og eiga samskipti við það áður en það hefur náð tökum á tungumálinu.
  5. Lagst í lestur. Að lesa fyrir barn er einstaklega þroskandi. Orðaforðinn eykst með hverri sögu, bókstafir og orð verða kunnugleg og barnið tengir myndir og texta. Þetta leggur grunn að mál- og lesskilningi og leggur grunninn að bókmenntaþekkingu sem barnið getur bætt við alla ævi. Í bókum komast þau einnig gjarnan í kynni við framandi heima. Hvar ættu íslensk börn annars að sjá tígrisdýr, birni og fleira sem þekkist ekki í náttúru Íslands? Endurtekningin er einnig góð fyrir barnið. Flest taka þau ástfóstri við eina sögu sem lesin er aftur og aftur og fljótlega kunna þau hana utanbókar. Það örvar minnið. Lestu líka vísur og kvæði. Flest börn hafa einstaklega gaman af rími og hrynjanda ljóða og það hjálpar þeim til að muna og læra. Þegar þau fara að ríma sjálf hafa þau náð stórum áfanga í málþroska.
  6. Kúrðu hjá krökkunum þínum. Börn þurfa öryggi og um leið og þau skynja að þú ert og verður alltaf til staðar hefur það góð áhrif á sjálfstraust þeirra og löngun til að kynnast heiminum upp á eigin spýtur. Návist foreldrar og nánd skipta öllu fyrstu þrjú árin notaðu því hvert tækifæri til að láta barnið finna að þú ert til staðar. Horfðu í augu barnsins, brostu og sýndu jákvæð viðbrögð við öllu sem það gerir vel. Börn hafa ríka þörf fyrir að tengjast og mannleg snerting er eitt öflugasta tæki sem til er til þess.
  7. Fagrar listir örva greind. Rannsóknir hafa sýnt að falleg klassísk tónlist bæði róar og örvar ákveðnar heilastöðvar sem tengjast sköpun. Sumir foreldrar byrja á að leika tónlist fyrir börnin strax í móðurkviði en fóstrið heyrir bæði raddir og hljóð. Myndlist ýtir sömuleiðis undir sköpunarkraftinn og þeir sem ekki hafa efni á að kosta börn sín í listnám ættu að nota sér söfnin því sýnt hefur verið fram á að það sem augun nema skilar sér til handanna.
- Auglýsing -

Athugasemdir

Lestu meira