Saddam Hussein eyðilagði fríið

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Blaðamaðurinn og ljósmyndarinn Ásdís Ásgeirsdóttir er ein af þessum manneskjum sem virðast alltaf vera að gera eitthvað spennandi og skemmtilegt. Hún hætti að drekka árið 2014 eftir að hafa beðið skipbrot eftir skilnað og segist sjá lífið í nýju ljósi síðan þá. Hún er staðráðin í að lifa lífinu til fulls og láta draumana rætast.

 

„Ég ætlaði nú alltaf að verða leikkona og skáld,“ segir Ásdís þar sem hún situr gegnt blaðamanni á veitingastað í Kópavogi. Það er ys og þys allt í kringum okkur enda einungis nokkrir dagar til jóla þegar við hittumst, en við látum það ekki á okkur fá. „Ég bjó í Bandaríkjunum um fimm ára skeið þegar ég var barn og horfði mikið á kvikmyndir með barnastjörnunni Shirley Temple og langaði að verða eins og hún. Mig dreymdi eiginlega um að verða barnastjarna en það rættist nú ekki. Ég er eiginlega bara fegin því í dag, því barnastjörnurnar virðast alltaf lenda í einhverjum vandræðum og ég væri örugglega bara í ræsinu,“ segir Ásdís og skellir upp úr.

„Ég hef alltaf verið skapandi og teiknaði mikið sem barn. En svo leiddist ég út í ljósmyndunina fyrir hálfgerða tilviljun. Eftir að ég lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík fór ég að vinna á samyrkjubúi í Ísrael en ég ætlaði alltaf að fara heim og taka inntökuprófið í Leiklistarskóla Íslands, en þá voru nemendur bara teknir inn annað hvert ár. Síðan var svo ótrúlega gaman á samyrkjubúinu og ég þorði hvort eð er eiginlega ekkert í þetta inntökupróf þannig að ég slaufaði því bara. En þá voru auðvitað góð ráð dýr þegar ég kom heim. Ég skellti mér þá í inntökuprófið í Myndlista- og handíðaskóla Íslands og komst þar inn. Ég kláraði fornámið en ákvað að leggja ekki myndlist fyrir mig. Hildur systir, sem hefur búið lengi í Cleveland í Bandaríkjunum, spurði mig af einhverri rælni af hverju ég færi ekki að læra blaðaljósmyndun sem væri kennd í Kent State-háskólanum í Ohio. Ég vissi ekki einu sinni að það nám væri til en mér fannst það strax hljóma vel og sló til.“

Að vinna á Morgunblaðinu var markmiðið
Ásdís segir námið í háskólanum í Bandaríkjunum hafa verið mjög skemmtilegt og fjölbreytt. „Það var bæði verið að kenna ljósmyndun og blaðaskrif og svo unnum við á dagblaði skólans sem var gefið út alla virka daga. Auk þess var gefið út tímarit í skólanum og ég var ritstjóri þess á síðasta árinu mínu sem var mjög skemmtilegt. Þetta var allt mikil og góð reynsla.“

Hún segist hafa átt sér eitt markmið þegar hún fór í háskólanámið í Bandaríkjunum. „Það var að fá vinnu á Morgunblaðinu. Mér fannst það flottasta dagblaðið og með flotta ljósmyndadeild. Og ég var svo heppin að þegar ég kom heim úr náminu árið 1995 fékk ég sumarvinnu í framkölluninni á Mogganum, þar sem ég framkallaði filmur fyrir ljósmyndarana. Þegar sumarráðningunni lauk var ég ráðin inn sem ljósmyndari og starfaði sem slíkur á Mogganum í tólf ár, eða til 2007.“

„Mig dreymdi eiginlega um að verða barnastjarna en það rættist nú ekki. Ég er eiginlega bara fegin því í dag, því barnastjörnurnar virðast alltaf lenda í einhverjum vandræðum.“

Ásdís segir árin tólf í ljósmyndadeild Morgunblaðsins hafa verið ákaflega skemmtilegan tíma og hún hafi fengið tækifæri til að gera ótrúlega skemmtilega og skapandi hluti. „Til dæmis fór ég á varðskip í nokkra daga og flaug með einhverjum rellum hingað og þangað til að taka myndir. Við ljósmyndararnir vorum sendir oft á ári til útlanda, annaðhvort til að elta forseta eða ráðamenn, eða að fara á íþróttamót. Ein ferðin var til Albaníu þar sem við Guðrún Hálfdánardóttir blaðamaður hittum flóttamenn úr Kosovo-stríðinu. Sú ferð var afar eftirminnileg. Svo fékk ég þá hugmynd að fara með Selmu Björns og íslenska hópnum sem keppti í Eurovision í Ísrael 1999 og það var rosalega gaman. Svo ævintýrin voru mörg.“

„Bökkum aðeins … Samyrkjubú í Ísrael? Hvernig kom það til?“
„Ég hafði heyrt um konu sem hafði farið að vinna á samyrkjubúi þarna úti og mér fannst það spennandi. Þannig að haustið 1988 fór ég til Ísraels ásamt vinkonu minni og tveimur vinum mínum og vann þar fram á árið 1989. Þetta var lítið samfélag og eins og lítið þorp með skólum, barnaheimilum og litlu elliheimili. Á samyrkjubúinu voru unnin alls konar störf; við þrif, í eldhúsi, á barnaheimilum, við að tína appelsínur, á elliheimili og ýmislegt fleira. Ég vann lengi við að passa nokkurra mánaða gamla þríbura og endaði svo á að stjórna þrifum í borðstofu. En aðallega vorum við nú bara að djamma,“ segir Ásdís og hlær.

„Þarna voru um þrjátíu, fjörutíu sjálfboðaliðar alls staðar að úr heiminum á aldrinum nítján til tuttugu og fimm ára svo það var virkilega mikið fjör. Við unnum fimm til sjö tíma á dag og svo var bara farið niður á strönd eða í sundlaugina, þetta var engin erfiðisvinna þannig lagað. Þetta var svo gaman að við Ása vinkona fórum aftur sumarið 1990 og vorum þá aðra tvo mánuði. Það var jafngaman og jafnvel skemmtilegra en í fyrra skiptið því þá var sumar og sól, en Saddam Hussein eyðilagði fríið okkar með því að ráðast inn í Kuwait og Persaflóastríðið fór af stað. Þeir fóru að hóta því að sprengja í Tel-Aviv og samyrkjubúið var ekki ýkja langt frá. Mamma og pabbi voru ekkert sérlega ánægð að vita af mér þarna úti og til að kóróna allt var systir mín komin út í heimsókn. Hún hafði bókstaflega komið út daginn áður en innrásin var gerð í Kuwait.“

„Ég stóð þarna með gúmmíhanska á höndunum, að setja óhreint leirtau í uppþvottavélina, og dæsti bara þegar var kallað á mig.“

Ásdís segist hafa verið að vinna í eldhúsinu þegar einhver hinna sjálfboðaliðanna kallaði á hana í símann og sagði henni að pabbi hennar væri á línunni. „Ég stóð þarna með gúmmíhanska á höndunum, að setja óhreint leirtau í uppþvottavélina, og dæsti bara þegar var kallað á mig. Mér hafði alveg fundist það óþarfa taugaveiklun að ætlast til þess að við færum að fara heim út af þessu en þegar ég talaði við pabba í símann hræddi hann mig það mikið að ég fór bara beint í að pakka niður. Svo fórum við beinustu leið út á flugvöll en þurftum að bíða þar í sólarhring eftir því að fá eitthvert flug. Það var svo sem ekkert panikk á fólki en margir útlendinganna voru smeykir og vildu fara til síns heima. Og það var heilmikið mál að komast úr landi enda ekki sömu tímar þá og nú. Við náðum að lokum að troða okkur í eitthvert leiguflug sem fór til Þýskalands og ég man ekki einu sinni hvert við fórum. En ég get ímyndað mér í dag hvernig foreldrum mínum hefur liðið að vita af tveimur dætrum sínum þarna úti, án nokkurs sambands við þær því á þessum tíma voru auðvitað engir farsímar, og við bara að koma okkur einhvern veginn heim. En þetta hafðist nú allt.“

Skilnaður alltaf skipbrot
Árið 2007 hætti Ásdís á Morgunblaðinu. Hún hafði kynnst þáverandi manni sínum árið 2000 og gifst honum árið 2001. Synir þeirra fæddust 2002 og 2004. Hún segir að sig hafi langað að breyta til og hún hafi því ákveðið að fara í listfræði í Háskólanum. „Það er greinilegt að Hildur systir mín hefur mikil áhrif á líf mitt og ég gegni öllu sem hún segir því það var hún sem stakk upp á listfræðinni. Mér fannst það mjög skemmtilegt nám en hins vegar vissi ég ekkert hvað ég ætti að gera við það þegar ég útskrifaðist,“ segir Ásdís og hlær. Eftir dálitla umhugsun ákvað hún að fara i meistaranám í blaða- og fréttamennsku við Háskóla Íslands haustið 2012. Þá kom sprengjan.

Mynd/Hallur Karlsson

Eiginmaður hennar vildi skilnað. Þau höfðu þá verið gift í tólf ár, áttu tvo unga syni og höfðu komið sér vel fyrir á fallegu heimili í Hafnarfirðinum. „Þetta kom mér algjörlega í opna skjöldu og var algjört áfall,“ segir Ásdís. „Skilnaður er náttúrlega alltaf skipbrot og ég held að það skipti örugglega ekki máli hvor aðilinn taki ákvörðunina. Þetta er erfitt fyrir alla, það er verið að leysa upp fjölskylduna, það eru börn í spilinu og þótt maður reyni að gera þetta eins vel og hægt er, er þetta alveg gríðarlega erfitt. Ég hef heyrt mjög marga segja að fyrsta árið eftir skilnað sé algjört helvíti, annað árið sé aðeins skárra og svo liggi leiðin smám saman upp á við. Og ég held að ég geti alveg kvittað upp á það.“

Ásdís bjó áfram í húsinu með drengina en eiginmaðurinn flutti út. Hún segist hafa haldið áfram í meistaranáminu eins og best hún gat en hún hafi verið í áfalli og það hafi tekið á, bæði andlega og líkamlega. „Sem dæmi um hvað þetta tók á get ég nefnt að ég missti um tíu kíló á sex vikum, sem er auðvitað ekkert eðlilegt. Ég gat ekkert borðað. En ég gat drukkið svo ég hallaði mér að flöskunni eins og sumir gera gjarnan.“

Hún segist hafa fengið sumarstarf á Sunnudagsblaði Morgunblaðsins sumarið 2013 og það hafi hjálpað sér að hafa fastan punkt í tilverunni en ástandið hafi farið versnandi þegar sumarvinnan tók enda og haustið rann upp. „Þá einhvern veginn var ég orðin alveg týnd og fór bara að gefa í í drykkjunni. Fólk leitar í ýmislegt þegar það er sorgmætt og í mínu tilfelli var það áfengið. Ég hallaði mér að flöskunni til að deyfa sársaukann eftir skilnaðinn en ég varð samt ekki alkóhólisti á þessum tímapunkti. Ég hafði auðvitað verið það alla tíð en þarna þróaðist sjúkdómurinn mjög hratt þangað til ég var komin á minn botn.“

Sá lífið í öðru ljósi
Í janúar 2014 segist Ásdís loks hafa verið tilbúin til að viðurkenna vanmátt sinn og biðja um hjálp. „Ég var svo heppin að ég komst inn á Vog tveimur, þremur dögum eftir að ég lagði inn beiðni þar um að komast í meðferð og fór svo í framhaldsmeðferð á Vík. Ég er mjög þakklát fyrir hjálpina sem ég fékk og verð að segja að meðferðin sem Vogur býður upp á er frábær. Satt best að segja veit ég ekki hvar ég væri í dag ef ég hefði ekki tekið þessa ákvörðun að fara í meðferð en ég væri alveg örugglega ekki á þeim góða stað sem ég er á í dag. Þetta var besta gjöfin sem ég gat gefið sjálfri mér og ekki síður drengjunum mínum, sem voru þá níu og ellefu ára og hafa í sex ár ekki alist upp við einn dropa af áfengi á þessu heimili.“

Hún segir þó fyrsta árið í edrúmennskunni ekki endilega hafa verið auðvelt. „Áfengið var svo stór partur af lífinu. Ég þurfti að kveðja það sem ég leit á sem vin minn en var auðvitað bara minn versti óvinur.“

Byrjaðir þú snemma að drekka?
„Ég var þessi týpíski unglingur sem fannst gaman að djamma en þegar ég komst á fullorðinsárin var það orðið norm að drekka um helgar. Ég vissi varla að það væri til fólk sem drykki ekki um helgar því ég þekkti ekki annað. Ég hafði ekki hugmynd um að það væri til fullt af fólki sem væri mætt í ræktina klukkan níu á laugardagsmorgnum. Það fólk var náttúrlega bara eitthvað skrýtið. Nú veit ég fátt betra en að vakna snemma um helgar og skella mér í laugina,“ segir Ásdís og brosir.

„Satt best að segja veit ég ekki hvar ég væri í dag ef ég hefði ekki tekið þessa ákvörðun að fara í meðferð en ég væri alveg örugglega ekki á þeim góða stað sem ég er á í dag.“

Hún segist hafa farið að upplifa lífið á allt annan hátt og sjá það frá öðru sjónarhorni. „Það er svo skrítið, og ég hef heyrt aðra tala um það, að ég fór að sjá allt lífið miklu skýrara. Þar að auki hef ég dýpkað öll mín sambönd, bæði við vini og fjölskyldu. Ég áttaði mig líka á því að það væri bara hægt að gera ofboðslega margt skemmtilegt án áfengis. Og frá því ég hætti að drekka árið 2014 hef ég gert ótal margt sem ég veit að ég hefði ekki gert annars og hef náð að láta marga drauma rætast.“

Lærði hjá meistaranum
Eftir meðferðina og framhaldsmeðferðina ákvað Ásdís að setja andlega og líkamlega heilsu í forgang og fresta meistaranáminu um eitt ár. „Mér fannst ég þurfa tíma til að byggja mig aftur upp. Og finna sjálfa mig svolítið aftur. Ég áttaði mig til dæmis á því að ég hafði varla snert á myndavélinni í sjö ár. Ég vissi ekki hvað hafði orðið um ljósmyndarann í mér eða þessa skapandi manneskju sem ég hafði verið allt frá því ég var krakki. Eitt af því sem mig hafði lengi dreymt um að gera var að fara á námskeið hjá hinum heimsþekkta ljósmyndara Mary Ellen Mark og sumarið 2014 lét ég verða af því. Ég fór svo aftur á námskeið hjá henni í febrúar 2015 sem var haldið í Mexíkó. Og ég var ofboðslega þakklát fyrir að hafa náð því að láta þennan draum minn rætast því þessi tvö námskeið voru tvö síðustu námskeiðin sem Mary Ellen hélt en hún lést í maí 2015.“

Það er greinilegt að þér hefur þótt mikið til hennar koma?
„Já, hún hafði mikil áhrif á mig og ég var búin að dást að henni í meira en tuttugu ár. Hún var bæði flottur ljósmyndari og mikill karakter. Hún var goðið mitt; svo allt í einu varð goðið lærimeistarinn minn og það var mögnuð upplifun að fá að læra hjá henni. Ég bar óttablendna virðingu fyrir henni því hún gat verið hvöss, en á sama tíma svo hlý og gefandi. Mér þótti mjög vænt um að fá frá henni hrós og trúði varla að hún væri að hrósa mér. Rétt áður en hún dó kom út bók þar sem Mary Ellen hafði safnað saman myndum frá nemendum sínum. Og í þessari bók birti hún mynd eftir mig og skrifaði ótrúlega fallegan texta með sem mér fannst mikill heiður,“ segir Ásdís en hún notaði einmitt myndir úr Mexíkóferðinni í sýningu sem var hluti af meistaraverkefni hennar úr HÍ.

Clinton og Bowie
Á þessum tímapunkti segist Ásdís hafa verið staðráðin í að reyna að lifa lífinu til fulls og ferðast eins mikið og hún gæti. Hún hafi því drifið sig aftur í Háskólann þar sem hún kláraði meistaranámið í blaða- og fréttamennsku árið 2015 og fékk aftur sumarstarf sem blaðamaður á Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. Hún fékk fastráðningu eftir sumarið og hefur starfað þar síðan. Myndavélin er þó aldrei langt undan þegar Ásdís hittir viðmælendur sína, þar sem hún tekur myndirnar af þeim sjálf sé þess kostur.

Hver er frægasti einstaklingur sem þú hefur myndað?
„Ég myndi segja að það væru fyrrverandi forsetahjón Bandaríkjanna, Bill og Hillary Clinton. Ég hef myndað Hillary bæði á Íslandi og í Hvíta húsinu þar sem ég myndaði hana og Bill, sem þá var forseti Bandaríkjanna. Það var ótrúleg upplifun að koma í Hvíta húsið og fá að fara í þetta margfræga blaðamannaherbergi sem maður hefur svo oft séð í bíómyndum. Í þessari ferð minni til Washington D.C. náði ég líka að mynda John Travolta sem var reyndar bara óvænt ánægja. Ég rakst á auglýsingu um að hann væri að árita bók í einhverri bókabúð svo ég ákvað að skella mér þangað með myndavélina mína og blaðamannapassann. Þegar ég kom svo í bókabúðina var auðvitað óendanlega löng röð sem ég nennti ómögulega í en ég prófaði að sýna passann minn og var þá bara hleypt beint í gegn. Svo myndaði ég David Bowie þegar hann kom hingað til lands árið 1996. Það var mjög skemmtilegt því ég hef alltaf verið mikill aðdáandi hans. Svo fór ég auðvitað á tónleikana hans um kvöldið.“

Með nautshöfuð á bakinu
Óhætt er að segja að Ásdís hafi staðið við það loforð sem hún gaf sjálfri sér þegar hún hætti að drekka, að lifa lífinu til fulls og reyna að ferðast sem mest því hún er stöðugt á faraldsfæti. Hún segist óhrædd við að ferðast ein og sér þyki það eiginlega best ef ætlunin sé að nota ferðina til að taka myndir. Það sé gott að vera óháð öðrum og geta stjórnað sér sjálfur. „Ég er líka alveg búin að sjá það að ég get ekki ætlast til að vinkonur mínar bíði við búðarglugga á meðan ég stekk frá og mynda götulífið,“ segir hún og hlær. „Svo ég fer bara í sérferðir með vinkonum mínum og fjölskyldunni. Mér finnst ekkert mál að ferðast ein. Og fólk er alveg hætt að kippa sér upp við það þegar ég segist vera að fara að þvælast eitthvert ein. Kannski var fólk mest hissa þegar ég ákvað að fara ein norður í land og vera þar í viku. Ég ákvað að fara út í Grímsey en þangað hafði ég aldrei komið, og dvaldi þar í þrjá daga enda ekkert hægt að fara fyrr því báturinn kom ekki aftur fyrr en þá,“ segir Ásdís og hlær létt.

„Kannski var fólk mest hissa þegar ég ákvað að fara ein norður í land og vera þar í viku.“

„Það var dálítið sérstakt, því eyjan er nú ekki stór staður svo maður var fljótlega búinn að sjá allt og gera allt sem hægt var. En mér fannst þetta mjög notalegt. Þetta var þegar ég var tiltölulega nýhætt að drekka og mér fannst þetta eiginlega bara hluti af því að vinna í sjálfri mér. Ég las góðar bækur, fór í göngutúra og kynntist fólki á eyjunni. Var meira að segja boðið í sunnudagslæri heim til fólks þarna. Ég á margar vinkonur og vini og er mikil félagsvera en mér finnst samt gott að vera ein líka. Mér finnst ég kunna það núna. Auðvitað koma alveg augnablik sem eru pínu skrýtin þegar maður er einn að þvælast en þau líða yfirleitt fljótt hjá.“

Nokkru síðar fór Ásdís svo ein til Kúbu og seinna sama ár til Víetnam þar sem hún dvaldi í viku og tók myndir. „Ég byrjaði ferðina reyndar á dálítið sérstöku ljósmyndanámskeiði í Bangkok sem tveir nokkuð þekktir blaðaljósmyndarar stóðu fyrir. Eftir tveggja daga námskeið áttu svo allir þátttakendur að fara eitthvað einir í viku til að taka myndir. Svo ég flaug frá Bangkok til Víetnams og tók næturlest lengst upp í fjöllin, alveg við landamæri Kína. Þessi lestarferð var dálítið skrautleg og alls enginn lúxus. Ég svaf í pínulítilli efri koju, með skítuga sæng og í lest sem skrölti áfram í tíu klukkutíma. Maður er nú orðinn fimmtugur, skilurðu,“ segir Ásdís hlæjandi. „En það var þess virði. Ég fékk leiðsögumann sem fór með mig um dal þar sem náttúrufegurðin var ótrúleg. Og það var gaman að fá að fara inn á heimili fólks þarna í dalnum sem bjó í kofum við frumlegar aðstæður.“

Eitt það eftirminnilegasta við ferðina segir Ásdís að hafi verið þegar hún sá hóp fólks sitja úti í sólinni einn daginn. Konur og karlar hafi verið prúðbúin og reykur stigið upp frá jörðu. Á túninu stóð svo líkkista. „Þetta var þá tveggja daga jarðarför. Það var líka nýbúið að slátra nauti og það var verið að verka það þarna svo innyflin lágu á víð og dreif og það var líka byrjað að steikja kjötið. Ég fékk leyfi til að mynda við þessar ótrúlegu aðstæður og rétt náði að smella af unglingsdreng sem kom skokkandi á móti mér með risastórt nautshöfuðið sem búið var að binda við bakið á honum og blóðið úr nautshöfðinu lak niður eftir bakinu og fótleggjunum á drengnum. Þetta var auðvitað mjög furðuleg sjón,“ segir Ásdís og hlær létt.

Lífið í stórborginni
Fyrir rúmu ári síðan ákvað Ásdís svo að taka sér þriggja mánaða leyfi frá vinnunni á Morgunblaðinu og láta gamlan draum rætast. Að flytja til New York. „Ég tók íbúð með húsgögnum á leigu í Harlem-hverfinu. Ég skráði mig á námskeið í leiklist, myndlist og handritaskrifum. Svo fékk ég líka marga í heimsókn og var dugleg að fara á alls konar myndlistarsýningar, tónleika og og Broadway-sýningar. Ég sá til dæmis leikritið Network sem á að fara að sýna í Þjóðleikhúsinu, þar sem stórleikarinn Bryan Cranston fór með aðalhlutverkið. Þannig að mér leiddist ekki eina mínútu. Svo var auðvitað ekki leiðinlegt að fara á alla heimsins veitingastaði, en matur er mikið áhugamál hjá mér.“

Mynd/Hallur Karlsson

Hún segist þó hafa byrjað á því að kaupa sér aðild að líkamsræktarstöð í Harlem og þar æfði hún undir handleiðslu einkaþjálfara tvisvar til þrisvar í viku og sá varð Harlem-vinur hennar eins og hún orðar það sjálf. „Hann var alveg frábær náungi, fæddur og uppalinn í Harlem og sagði mér margar sögur frá uppeldisárunum sínum þar. Harlem er auðvitað búið að taka gríðarlegum breytingum; einu sinni var það mesta slömmið í New York en er í dag mjög vinsælt hverfi. Ég lærði svo margt af þessum karli; ekki bara að lyfta lóðum og boxa. Hann ólst til dæmis upp við að það hlupu rottur í gegnum íbúðina sem hann bjó í, hann þurfti að klofa yfir dópistana til að komast í skólann og maður var skotinn í höfuðið fyrir framan hann þegar hann var krakki. Hann sagði alvörusögur sem var mjög spennandi fyrir mig sem blaðamann,“ segir Ásdís og brosir.

 

„Þótt gamli leikkonudraumurinn rætist kannski ekki gæti ég skrifað mig inn í eitthvert lítið hlutverk ef ég skrifa handrit að einhverri stórmynd.“

Þú hefur greinilega verið dugleg að láta draumana rætast. Eru einhverjir draumar eftir?
„Já, það er nú alltaf nóg eftir. Það er alltaf gaman að ferðast um heiminn og þótt ég sé búin að ferðast mjög víða er fullt af stöðum sem ég á eftir að skoða og fara á. Af nógu er að taka. Ég á til dæmis Ástralíu og Suður-Ameríku eftir auk þess sem ég er bara búin að skoða brotabrot af Asíu. Um páskana er ég að fara með strákana mína til Kenía, ég hef reyndar komið þangað áður en langar að fara með strákana. En ef ég ætti kannski að pæla í einhverjum markmiðum fyrir framtíðina þá verð ég að viðurkenna að það leynist í mér löngun til að skrifa einhvers konar handrit, að leikriti eða jafnvel sjónvarpsþáttum eða bíómynd.“

„Þá komum við aftur að leikkonudraumnum sem er greinilega aldrei langt undan“ skýtur blaðamaður inn. „Já, hann blundar alltaf í mér,“ segir Ásdís. „Ég hef reyndar fengið smávegis útrás fyrir þann draum á námskeiðum hjá Improv Ísland en ég er búin að fara á tvö námskeið hjá þeim og er búin að skrá mig á það þriðja í janúar. Það er alveg brjálæðislega skemmtilegt. En þótt gamli leikkonudraumurinn rætist kannski ekki gæti ég skrifað mig inn í eitthvert lítið hlutverk ef ég skrifa handrit að einhverri stórmynd,“ segir Ásdís hlæjandi. „Auðvitað geri ég það bara.“

Myndir// Hallur Karlsson
Förðun: Hildur Emils, förðunarfræðingur Urban Decay á Íslandi

- Auglýsing -

Athugasemdir

Lestu meira