Samkomulag í höfn við Fjarðabyggð eftir 3 ára baráttu: „Stend uppi sem sigurvegari“

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Andrea Björk Sigurvinsdóttir er sátt við samkomulag sem náðist milli hennar og Fjarðabyggðar vegna máls sem hún höfðaði gegn sveitarfélaginu. Andrea Björk steig fram í viðtali í vor og sagði þar frá einelti sem hún upplifði af hálfu samstarfsmanna sinna í slökkviliði Fjarðabyggðar. Eftir að hafa ítrekað kvartað til yfirmanna sinna án þess að brugðist væri við réði Andrea Björk sér lögmann og leitaði réttar síns.

„Mér líður svona svipað, ég er bara á svipuðum stað og ég var í apríl. Ég er farin að þiggja stuðning utan frá, það var mjög erfitt skref að stíga, að samþykkja hreinlega að ég þurfi í endurhæfingu eftir þetta mál,“ segir Andrea Björk, aðspurð um líðan hennar í dag. Hún segir kórónuveirufaraldurinn ekki hafa hjálpað til. „Vegna COVID tekur allt lengri tíma í dag, ég byrjaði í ferlinu í sumar að fara til læknis og óska eftir endurhæfingu og er semsagt að byrja hana núna, ég þarf í áfallameðferð og allt sem því fylgir.“

Sjá einnig: Flúði slökkviliðið vegna áreitis

Líkt og kom fram í viðtalinu við Andreu Björk í apríl þá var hún eina konan í slökkviliði Fjarðabyggðar þegar hún hóf störf þar sumarið 2017. Hún hafði reynslu af sjúkraflutningum og brennandi áhuga á starfinu, sótti sér aukna menntun í því og lagði sig alla fram. Andrea Björk sagði að fljótlega hafi farið að bera á því að ýmsir samstarfsmenn hennar voru ekki hrifnir af því að fá konu sem samstarfsfélaga og sagðist hún hafa upplifað síendurtekið áreiti innan slökkviliðsins sem endaði með því að hún brotnaði saman og hætti samkvæmt læknisráði. Andrea Björk lagði fram formlega kvörtun vegna kynbundins áreitis og eineltis eftir að hafa ítrekað verið hunsuð af yfirmönnum slökkviliðsins þegar hún kvartaði. Í lok október 2018 leitaði Andrea Björk til læknis, sem sendi hana umsvifalaust í veikindaleyfi. Andrea Björk var óvinnufær og treysti sér ekki ein út í búð, hvað þá meira, svo djúpstæð áhrif hafði áreitið á hana.

„Ég hef alltaf verið manneskja sem er pínu blátt áfram, ég læt ekkert buga mig, en ég gekk bara á vegg eftir þetta“

Og núna rúmum tveimur árum seinna er staðan lítið breytt hvað heilsu Andreu Bjarkar varðar. Hún er hins vegar ánægð með að samkomulag hafi náðst og segir að núna þegar þessu verkefni sé lokið geti hún einbeitt sér að fullum krafti að því að ná bata.

„Ég hélt í rauninni að ég gæti farið þetta á hnefanum og haldið áfram, en eins og ég sagði í viðtalinu í vor þá er ég brotin. Ég hef alltaf verið manneskja sem er pínu blátt áfram, ég læt ekkert buga mig, en ég gekk bara á vegg eftir þetta,“ segir Andrea Björk. „Eftir þetta allt saman er ég greind með kvíðaröskun, áfallastreituröskun og mikla forðunarhegðun, ég í rauninni forðast allt utan veggja heimilisins, mér finnst heimurinn svolítið stór eins og staðan er núna. En ég er að taka verkefni og verkefni sjálf og setja áskoranir á sjálfa mig. Ég finn stuðning alls staðar frá, það er sama hvert ég fer, en ég þarf svolítið að samþykkja stuðninginn.“

„Ég finn stuðning alls staðar frá, það er sama hvert ég fer, en ég þarf svolítið að samþykkja stuðninginn.“ Mynd /Auðunn Níelsson

„Stjórnenda að grípa inn í með áætlanir“

Andrea Björk hafði fullan hug á að verða atvinnuslökkviliðsmaður, hún var nýkomin úr háskólanámi sem þroskaþjálfi og með menntun og reynslu sem sjúkraflutningamaður. Eftir að hún hóf vinnu í slökkviliðinu, hóf hún nám í atvinnunámi slökkviliðsmanna. Þegar hún hætti  störfum hjá slökkviliðinu, byrjaði hún að vinna á leikskólanum á Reyðarfirði, það var hins vegar skammgóður vermir, því Andrea Björk hitti þar áfram fyrrum samstarfsmenn sína,  sem henni fannst óþægilegt.

„Ég var bara konan sem var með vesen“

„Bæjarfélagið er lítið og því ekkert hægt að forðast að hitta vinnufélaga utan vinnunnar, eða fyrrum vinnufélaga. Mér fannst bara óþægilegt að rekast á þá í rauninni. Og ég gat ekki sinnt starfi mínu sem þroskaþjálfi með mína líðan, það var bara ekki boðlegt, hvorki fyrir börnin né sjálfa mig,“ segir Andrea Björk. Illa gekk að finna nýtt starf hjá sveitarfélaginu og sagði Andrea Björk í viðtalinu í vor að hún hefði ekki einu sinni verið boðuð í viðtöl vegna þeirra starfa sem hún sótti um, þrátt fyrir menntun og reynslu.

„Ég sótti um störf þar sem ég hefði getað fengið viðtal, en bæjarfélagið er lítið og allir þekkja alla og mitt mál spurðist út og ég fékk ekki einu sinni viðtöl. Ég var bara konan sem var með vesen,“ segir Andrea Björk.

Telurðu að það hefði verið hægt að stöðva áreitið í þinn garð ef stjórnendur hefðu tekið strax á málinu?

„Þetta voru aðilar innan liðsins og svo tóku stjórnendur ekki á þessu, það hefði mögulega verið hægt að stoppa þetta, en eineltið fékk bara að vinda upp á sig,“ segir Andrea Björk, og bendir á að eftir að viðtalið við hana kom út þá stigu aðrir fram í kjölfarið og höfðu samskonar eða svipaðar sögur að segja. „Samskiptaörðugleikar eru ríkjandi þarna. Ég reyndi allar leiðir, ég fór í yfirmann minn og yfirmann hans, Vinnueftirlitið, Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna og ég náði ekki að gera neitt. Það gerðist ekkert fyrr en ég leitaði til Sævars,“ segir Andrea Björk, og vísar þar til lögmanns síns, Sævars Þórs Jónssonar.

„Það er stjórnenda að grípa inn í og vera með áætlanir og verkferla sem fara í gang þegar svona mál koma upp á vinnustað. Ég fékk aðstoð við að skilja að þetta væri ekki í lagi. Systir mín pikkaði í mig og sagði „þessi hegðun er ekki í lagi.“ Svo labbar þú bara einn daginn á vegg en þá eru afleiðingarnar líka mjög slæmar. Eins og með mig, ég kem örugglega alltaf til að vera með kvíðaröskun og ég er líka með hjartsláttartruflanir út frá kvíðanum og þær eru komnar til að vera.“

„Ég ákvað, þrátt fyrir minn kvíða og að ég þorði ekki ein út, að berjast áfram, að fá þessa viðurkenningu, mér fannst hún svo mikilvæg, af því ég var brotin, það var búið að brjóta mig“

En af hverju leitaðir þú til lögmanns, af hverju ekki að hætta bara í starfinu og láta þar við sitja?

„Ég ákvað, þrátt fyrir minn kvíða og að ég þorði ekki ein út, að berjast áfram, að fá þessa viðurkenningu, mér fannst hún svo mikilvæg, af því ég var brotin, það var búið að brjóta mig. Mig langaði til að það yrði viðurkennt að það hefði verið brotið á mér. Ég vildi bara að það yrði pínu vakning. Að það myndu allir taka höndum saman og vakna, þetta er slökkvilið, við erum að sinna sjúkraflutningum og við erum að mæta inn til fólks í mjög erfiðum aðstæðum og að hafa svona erfiðleika á bakinu er ekki skemmtilegt,“ segir Andrea Björk og leggur áherslu á að í starfi líkt og starfi slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna þá sé enn mikilvægara að starfsmenn vinni saman sem ein heild, en í mörgum öðrum störfum.

„Þrátt fyrir að okkur sé skipt í vaktir sem vinna náið saman þá geta komið útköll þar sem fleiri vaktir blandast. Þó þú sért ekki á vakt þá kemur útkall og þú ferð í símann þinn og stekkur af stað. Þá ertu að mæta með vaktinni sem er á vakt og á vettvangi og þið þurfið að þekkja hvort annað og vinna saman, en það var ekki alveg raunin þarna,“ segir Andrea Björk og segist frekar hafa dregið sig til hlés og látið lítið fyrir sér fara. „Annars var bara verið að finna eitthvað á mann. Mér finnst ennþá ríkt í samfélaginu, þó að við séum komin vel á leið með að konur og karlar geti unnið hvaða starf sem er, þetta karlasamfélag sem er sums staðar rótgróið, sem í rauninni á bara alls ekki að vera.“

Andrea Björk segist þakklát samstarfsmönnum sínum, sem voru með henni á vakt, af þeim hafi hún lært margt. „Ég er rosalega þakklát fyrir að ég fann ekki fyrir gagnrýni á minni vakt, en fyrir vikið voru þeir að lenda í einhverjum leiðindum með mér. Þannig náði ég að læra og ég stóð mig vel og gerði það sem ég gat, en það var bara ekki nóg. En ég er rosalega þakklát í dag fyrir að hafa fengið að læra þetta allt, ég veit meira í dag um slökkviliðsstarf og sjúkraflutninga en ég gerði og þann lærdóm tek ég með mér út í lífið.“

„Ég kem örugglega alltaf til að vera með kvíðaröskun og ég er líka með hjartsláttartruflanir út frá kvíðanum og þær eru komnar til að vera.“ Mynd /Auðunn Níelsson

Gekk ekki til lengdar að láta eiginmanninn sjá um allt

Fjölskyldan flutti að lokum frá Reyðarfirði til Dalvíkur, ákvörðun sem Andrea Björk segir að hafi verið erfið og reynt á fjölskylduna, en þegar litið er til baka hafi flutningurinn aðeins gert þeim gott.

„Ég hafði einu sinni komið til Dalvíkur áður en við fluttum. Maðurinn minn sótti um vinnu hér á Dalvík og fékk hana, og við ákváðum að við ætluðum ekki að bíða lengur á Reyðarfirði þrátt fyrir að við værum búin að koma okkur vel fyrir þar. Maðurinn minn er frá Reyðarfirði og við eigum fjölskyldu þar, og við vorum í húsnæði tengdaforeldra minna sem maðurinn minn ólst upp í. Samfélagið hérna hefur tekið á móti okkur með opnum örmum og það líður öllum vel hér, ég er þó ekki mikið úti í samfélaginu, ég held mig mest heima.“

Varð fjölskylda þín fyrir aðkasti á Reyðarfirði?

„Nei alls ekki, en þetta er lítið bæjarfélag, barnið mitt er í sama skóla og bekk og börn sumra aðilanna sem lögðu mig í einelti. Ég mætti ekki á sýningar eða annað í skólanum, eða sat ein einhvers staðar til hliðar. Þannig að maðurinn minn sá alfarið um lífið utan heimilisins á Reyðarfirði. Það gekk bara ekki til lengdar að leggja það á hann að sjá alfarið um nákvæmlega allt. Ég held að sonur minn fagni því að mamma hans fari að vinna í að finna sig aftur, ég er félagslynd og opin týpa, en er svolítið lokuð í dag. Ég hef leyft honum að vera inni í öllu og hann veit alveg hvað var að gerast.“

„Maður var alltaf að hrærast í þessu máli, núna get ég bara byrjað aftur frá byrjun og stefnt upp á við. Ég get farið að finna sjálfa mig aftur og fundið minn metnað og haldið áfram“

Af hverju telur þú að Fjarðabyggð hafi viljað semja?

„Ég lét Sævar alfarið um mín mál og ég hef verið frekar til baka og haldin miklum kvíða, þannig að hann í raun talar fyrir mig og það náðist samkomulag þar sem allir held ég ganga sáttir frá borði og fyrir mig þá er þetta bara viðurkenning á að það var brotið á mér og ekki brugðist við því,“ segir Andrea Björk.

Aðspurð um hvort hún hefði farið með málið alla leið í dómskerfinu ef ekki hefði náðst samkomulag segir hún: „Ég var búin að ræða það hér heima að fara alla leið, en maður veit að dómskerfið er erfitt og getur tekið langan tíma, en með minni elju þá hefði ég farið alla leið. Rétt skal bara vera rétt, svo ég geti sjálf gengið sátt frá borði. Ég fékk þessa viðurkenningu sem mér fannst svo mikilvægt,“ segir Andrea Björk.

„Rétt skal bara vera rétt, svo ég geti sjálf gengið sátt frá borði. Ég fékk þessa viðurkenningu sem mér fannst svo mikilvægt“

„Þetta er búið að vera risastórt fjall sem ég er búin að vera að komast upp, en ég er með gott stuðningsnet, fólk sem peppar mig áfram og klappar mér á öxlina og segir að ég sé að standa mig vel. Þetta er bara góð niðurstaða finnst mér. Samkomulagið þýðir það að ég fæ viðurkenninguna og ég get byrjað í mínum bata. Maður var alltaf að hrærast í þessu máli, núna get ég bara byrjað aftur frá byrjun og stefnt upp á við. Ég get farið að finna sjálfa mig aftur og fundið minn metnað og haldið áfram.“

Andrea Björk er þakklát þeim sem hafa veitt henni stuðning og staðið við bakið á henni Mynd /Auðunn Níelsson

Einelti falið meðal fullorðinna

Einelti meðal barna og ungmenna ratar sífellt í umræðuna og skapast oft mikil umræða um slíkt, ábyrgð foreldra, forráðamanna og skóla. Hvernig eigi að bregðast við, hvernig er hægt að koma í veg fyrir einelti og hvort og þá hvernig eigi að refsa gerendum. En telur Andrea Björk að við áttum okkur almennt á því að einelti viðgengst líka meðal fullorðinna einstaklinga?

„Ég held að það fari rosalega leynt. Eftir að viðtalið við mig kom út í vor þá fékk ég ótal skilaboð og símhringingar frá aðilum sem þökkuðu mér fyrir að koma fram af því að það eru svo fáir sem treysta sér í að leita sér aðstoðar og viðurkenningar. Þannig að ég held að einelti meðal fullorðinna sé í meiri mæli en við höldum, en ekki viðurkennt að fullorðnir aðilar stundi slíka hegðun. Og ekki að fullorðinn einstaklingur viðurkenni að hann hafi orðið fyrir einelti og sé andlega veikur eftir það. Það er þungt skref að viðurkenna að þú sért orðinn andlega veikur eftir slíkt, að það var eitthvað sem braut þig. Þetta er mikið í umræðunni með einelti í grunnskóla, en maður heyrir þetta ekki mikið um einelti inni á vinnustöðum,“ segir Andrea Björk.

„Ég held að einelti meðal fullorðinna sé í meiri mæli en við höldum, en ekki viðurkennt að fullorðnir aðilar stundi slíka hegðun“

„Það er ekkert sjálfgefið að öllum líki við alla inni á vinnustaðnum og það er alveg allt í lagi. Þér má alveg finnast „Gunni“ leiðinlegur en þú þarft samt ekki að níðast á honum eða láta hann finna fyrir því. Við erum öll misjöfn, sem betur fer erum við öll misjöfn, en við þurfum samt að bera virðingu fyrir náunganum.“

Í mars á næsta ári, á afmælisdegi Andreu Bjarkar, eru komin nákvæmlega þrjú ár síðan hún settist á fyrsta fundinn með yfirmanni sínum, ferli sem Andrea Björk stóð í þar til í lok október 2018, þegar hún leitaði til læknis.

Sérðu fyrir þér að fara aftur í slökkviliðsstarfið þegar þú ert búin að ná bata?

„Nei,“ svarar Andrea Björk ákveðin, „ég bara mun aldrei treysta mér til þess að fara nokkurntíma, ekki einu sinni í sjúkraflutninga held ég.“

Og það er þá tilkomið vegna þessarar reynslu?

„Já þú þarft náttúrulega að vera viss í þínu starfi og þessu starfi sérstaklega, þú ert oft bara með lífið í höndunum og eins og staðan er í dag þá tel ég mig ekki vera manneskju til að fara og sinna því starfi aftur. Ef ég færi í það starf myndi ég alltaf vera að líta um öxl hvort það sé einhver að fylgjast með mér. Ég myndi alltaf efast um sjálfa mig,“ segir Andrea Björk.

Í dag er hún að taka námskeið í jafnréttisfræði við Háskóla Íslands, sem er hluti af endurhæfingu hennar. „Ég er með diplóma í opinberri stjórnsýslu og stefni svo á að klára MPA nám í opinberri stjórnsýslu sem ég byrjaði í í fyrra, en vegna kvíðans gat ég ekki haldið áfram, þannig að ég pásaði það bara og er í einu námskeiði, það er það eina sem ég ræð við í dag. Ég ætla bara að leggja áherslu á það sem ég er búin að læra og ætla að fara að læra meira.“

„Ég kem sterk tilbaka, ég hef engar áhyggjur af því. Nú er bara að fagna sigrinum og klára endurhæfingu og verða sterkari manneskja. Núna tekur maður bara næsta verkefni sem lífið býður manni upp á“

Hvað myndir þú ráðleggja einstaklingum að gera sem eru í sömu eða svipaðri stöðu og þú varst í?

„Bara fyrst og fremst að leita sér hjálpar og berjast áfram. Maður er ekki að gera neitt rangt og það er það sem maður þarf að vita, að þú ert ekki að gera neitt rangt, það er einhver að brjóta á þér og fá viðurkenninguna að það sé verið að brjóta á þér. Ég léttist alveg um nokkur kíló við að heyra það að þessu máli væri að ljúka og ég stend að mínu mati uppi sem sigurvegari, ég veit að það var brotið á mér. Það gerir batann sem eftir er aðeins auðveldari. Það er bara númer 1, 2 og 3 að leita sér hjálpar,“ segir Andrea Björk.

„Ég kem sterk tilbaka, ég hef engar áhyggjur af því. Nú er bara að fagna sigrinum og klára endurhæfingu og verða sterkari manneskja. Núna tekur maður bara næsta verkefni sem lífið býður manni upp á.“

Andrea Björk segir það vera númer 1, 2 og 3 að leita sér hjálpar. Mynd /Auðunn Níelsson

- Auglýsing -
- Auglýsing -

Athugasemdir

Orðrómur

Lestu meira