Segir aðdráttarafl skjásins gríðarmikið – „Foreldrar þurfa markvisst að halda bókunum að börnunum“ |

Segir aðdráttarafl skjásins gríðarmikið – „Foreldrar þurfa markvisst að halda bókunum að börnunum“

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Mikilvægi barnabóka er gríðarlegt og það er ánægjulegt að sjá að á undanförnum hafa þær fengið meira pláss í menningarumfjöllun hér á landi. Þetta segir rithöfundurinn Arndís Þórarinsdóttir. Hún segir aðdráttarafl skjásins vera yfirþyrmandi og að foreldrar þurfi markvisst að halda bókum að börnunum sínum. Á tímum COVID sést svo bersýnilega hvað verðmæti menningarsköpunar er mikið. „Barnabækur hafa verið út undan í gegnum tíðina en ég er bjartsýn,“ segir Arndís.

Arndís Þórarinsdóttir var að senda frá sér barnabókina Nærbuxnavélmennið, þriðju og síðustu bókina í seríunni um Nærbuxnaverksmiðjuna. Arndís hefur haft í nógu að snúast á þessu ári enda gaf hún út tvær bækur til viðbótar við Nærbuxnavélmennið, það eru ljóðabókin Innræti og barnabókin Blokkin á heimsenda sem hún skrifaði ásamt Huldu Bjarnadóttur.

Arndís segir ljóðabækur og barnabækur fara vel saman. „Þetta blandast vel saman, betur en ýmsar aðrar bókmenntagreinar, vegna þess að í barnabókum þarf að vera svo mikill leikur í tungumálinu. Maður þarf að hafa svolítið skrítna sýn á heiminn og nálgast tungumálið á annan hátt. Það sama á við um ljóð, ég nota svipuð verkfæri þegar ég skrifa barnabækur og þegar ég skrifa ljóð,“ segir Arndís þegar hún er spurð út í hvernig sé að vera höfundur sem skrifar ljóð annars vegar og barnabækur hins vegar.

„Það er gaman að hafa leyft sér að prófa annað form og finna að það er ekkert sem segir að maður þurfi bara að halda sig við eina tegund skáldskapar. Þetta snýst allt um að nota tungumálið til að segja sögur.“

Var lengi hrædd við ljóð

Ljóðabókin Innræti kom út í mars á þessu ári og er fyrsta bókin sem Arndís skrifar fyrir fullorðna. Arndís var í sóttkví og þurfti að halda rafrænt útgáfuboð. „Ég vissi ekki að þetta yrði COVID-bók,“ segir Arndís og hlær.

Þegar Arndís er spurð nánar út í ljóðaformið og hvort það sé hennar upplifun að fólki stafi gjarnan ógn af ljóðum segir hún hiklaust já.

„Fólk er skíthrætt við ljóð. Ég var það sjálf lengi vel. Ég vissi að ég gat skilið Þorraþræl út Skólaljóðum en annars fannst mér alltaf eins og ljóð væru einhver greindarpróf sem ég væri að falla á. Að ljóð væru alltaf að reyna að góma mig við að skilja þau ekki. Mér leið stundum eins og textinn væri að ulla á mig og maður sækir ekkert í þá tilfinningu,“ útskýrir Arndís.

„Fólk er skíthrætt við ljóð.“

Það var ekki fyrr en hún fór kúrs í Háskóla Íslands tileinkaðan ljóðum sem hún þorði að takast á við þau.

„Ég var svo heppin að læra að lesa ljóð í hóp, það er leið sem ég mæli með. Þetta breytti því hvernig ég nálgaðist skáldskap.“

Hún mælir með að fólk „taki ljóðin ofan af stallinum“ og leyfi sér að nálgast þau af léttúð.

„Það er í lagi að fjarlægja pressuna. Ég mæli svo eindregið með að lesa ljóð í hóp, það sýnir manni hvernig aðrir lesa þau og sýnir að það er allt í lagi þó að það lesi ekki allir eins. Það er líka hægt að finnast textinn flottur án þess að skilja nákvæmlega hvert skáldið var að fara,“ segir Arndís.

Mynd / Hallur Karlsson

Hún segir ljóð annars vera það vítt hugtak að allir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi þegar kemur að ljóðum. „Ljóð geta verið fjölbreytt alveg eins og skáldsögur, það eru ákveðnir undirflokkar í þeim og fólk þarf bara að finna út hvað höfðar til þess.“

Spurð nánar út í hennar eigin ljóð segir Arndís: „Ljóðin mín eru frekar aðgengileg, held ég. Þau eru ekki mjög óræð eða myndræn heldur ganga frekar út á að fagna einhverja stemningu eða tilfinningu. Svo reyni ég stundum að vera fyndin, eitthvað aðeins. Mér finnst þetta þurfa að vera svolítið skemmtilegt án þess að vera einhver brandari. Viðfangsefnið er oft nálægt mér, ég fjalla mikið um þau hlutverk sem við gegnum, sérstaklega hlutverk kvenna. Ljóðmælandinn er alltaf kona. Hún á kannski mann, hún á kannski barn og hún er að reyna að finna sinn stað í heiminum með öllum þeim komplexum og vandræðagangi sem því fylgir. Æi, annars er svo erfitt að tala um eigin ljóð án þess að vera tilgerðarlegur,“ segir hún og skellir upp úr.

Menning spilar stórt hlutverk á tímum COVID

Arndís segir undanfarna mánuði, þar sem veiran hefur hrist verulega upp í daglegu lífi flestra, hafa varpað ljósi á mikilvægi menningarsköpunar. Hún stakk nýlega upp á því í færslu á Facebook að stjórnvöld gæfu landsmönnum menningargjöf í sömu útfærslu og ferðagjöfin sem við fengum í sumar.

„Menning hefur verið svo miðlæg í því að koma þjóðinni í gegnum þetta ástand. Fólk leitar í tónlist, bækur, sjónvarpsefni, hljóðbækur og annað. Það er svo skemmtilegt að sjá fólk tala um menningu og skiptast á skoðunum um tónlist, bækur og sjónvarpsþætti og maður finnur hvað þetta skiptir allt miklu máli,“ segir Arndís.

„Tengingin við annað fólk er tættari núna, við hittum færri og náum ekki þessari djúpu mannlegu tengingu, saumaklúbbur á Zoom verður aldrei eins og að hitta vinkonurnar augliti til auglitis. Þá kemur líka á daginn hvað menningin er mikilvæg. Hún gerir okkur kleift að tengjast öðru fólki á merkingarbæran hátt án þess að það sé hjá manni.“

„…saumaklúbbur á Zoom verður aldrei eins og að hitta vinkonurnar augliti til auglitis.“

Arndís segir verðmæti menningar og listar vera augljóst, sérstaklega á tímum sem þessum. Hún segir því sorglegt að sjá ákveðinn hóp listamanna verða fyrir miklu tekjutapi í COVID. „Sjálfstætt starfandi listamenn sem koma fram og skemmta fólki, til dæmis tónlistarmenn og sviðslistafólk eru til dæmis mjög illa settir. Það er sláandi að þurfa að sjá hvað sjálfstætt starfandi listamenn með samsettar tekjur úr öllum áttum passa illa inn í kerfið. Við lifum kannski öll við meira óöryggi en við höfðum fyllilega gert okkur grein fyrir.“

Fólk farið að átta sig á mikilvægi barnabóka

Talandi um mikilvægi menningar víkjum við okkur að barnabókunum. Arndís segir barnabækur vera í mikilli sókn á Íslandi. Hún segir það þó hendingu háð hvernig barnabækur komi út hverju sinni. „Við erum það lítill markaður að það er alltaf einhver gloppa til staðar, alltaf ójafnvægi í útgáfunni hverju sinni. Það er bara tilviljun hvað kemur út fyrir börn.“

Arndís er bjartsýn og segir ástandið alltaf vera að batna. „Barnabækur eru teknar alvarlega og fólk er að átta sig á mikilvægi þeirra. Þær skipta miklu máli að svo mörgu leyti, bæði hvað læsi varðar en þær kenna líka samkennd og fjörga ímyndunaraflið,“ útskýrir Arndís.

Nýverið kom Nærbuxnavélmennið út, bókin er sjálfstætt framhald af bókunum Nærbuxnanjósnararnir og Nærbuxnaverksmiðjan.

Hún segir ánægjulegt að á síðustu áratugum sé farið að fjalla um barnabækur í auknum mæli í bókadómum og menningarumfjöllunum almennt. Hún tekur bókmenntaþáttinn Kiljuna sem dæmi. „Barnabækur hafa verið út undan í gegnum tíðina en ég er bjartsýn. Mér finnst eins og skilningurinn á að það sé ekki hægt að hunsa barnabækur og fjalla bara um fullorðinsbækur sé að aukast. Ef við hunsum barnabækur mun enginn lesa fullorðinsbækur eftir 20 ár, þá myndum við missa út heila kynslóð sem les.“

Arndís leggur áherslu á mikilvægi þess að hvetja börn til að lesa bækur, sérstaklega í ljósi þess að börn hafa aðgang að gríðarlega miklu afþreyingarefni nú til dags og áreitið er mikið.

„Það er dálítið óhugnanlegt að sjá valdið sem tæknin hefur yfir þessum krílum.“

„Ég held að allir sem eigi börn hafi séð það hvað aðdráttarafl skjásins er yfirþyrmandi. Foreldrar þurfa markvisst að halda bókunum að börnunum, það gerist ekkert sjálfkrafa. Ef þau hafa aðgengi að dáleiðsluvélinni í símanum eða tölvunni þá velja þau hana. Það er dálítið óhugnanlegt að sjá valdið sem tæknin hefur yfir þessum krílum. Þess vegna er mikilvægt að skrifa, þýða og gefa út góðar barnabækur. Þetta tungumál okkar stendur alltaf á bjargbrún og við verðum að veita viðspyrnu, það getum við gert í gegnum bækur,“ segir Arndís.

Deila

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 
- Auglýsing -

Orðrómur

Helgarviðtalið

Lestu meira