Segir neyðarúrræðið hafa bjargað lífi sínu – „Á götunni er geðveikin svo mikil“

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Facebook-pistill sem Inga Hrönn birti á dögunum hefur vakið mikla athygli en í henni lýsir hún sinni reynslu af því að vera á götunni og bendir á mikilvægi þess að neyðarúrræði fyrir heimilislausar konur sem Reykjavíkurborg setti á laggirnar í apríl verði rekið áfram.

Umrætt neyðarúrræði var sett á vegna útbreiðslu COVID-19 en fyrir skemmstu var greint frá því að fyrirhugað væri að loka neyðarskýlinu. Hópur kvenna sem hefur nýtt sér úrræðið sendi frá sér yfirlýsingu og í kjölfarið var ákveðið að framlengja það. Inga Hrönn segir neyðarskýlið hafa bjargað lífi sínu. Hún lauk nýverið meðferð og þarf ekki að nýta sér úrræðið lengur. Hún hefur þó áhyggjur af konunum sem þurfa það áfram.

„Ég bjó á götunni í eitt og hálft ár. Lengst af hef ég dvalið í Konukoti en þegar þetta úrræði var opnað þá fannst mér ég loksins vera komin með öryggi. Geðheilsan batnaði til muna, bæði hjá mér og hjá konunum sem dvelja þarna. Þannig að mér finnst virkilega sorglegt að það þurfi að loka þessu húsnæði,“ segir Inga Hrönn. Hún tekur fram að hún sé þakklát fyrir Konukot og það starf sem þar sé unnið en það er lokað frá 10.00 á morgnanna til 17.00 á daginn.

„Þegar maður lendir í því að vera á götunni þá sér maður hvað heimurinn getur verið ljótur.“

„Á meðan það er lokað er maður í hræðilegum aðstæðum, oft í hættulegum aðstæðum eða að frjósa úr kulda úti. Heimilislausar konur eru svo oft vanmáttugar gagnvart þeim hættum sem blasa við heimilislausum,“ segir Inga Hrönn. „Þegar maður lendir í því að vera á götunni þá sér maður hvað heimurinn getur verið ljótur.“

Hún segir tilfinninguna hafa verið ólýsanlega að fá aðgang að eigin rými þegar neyðarúrræðið var sett á fót. „Þetta er eitthvað sem fólk sem hefur ekki verið í þessum aðstæðum getur ekki ímyndað sér. Að þurfa ekki að fara út í óvissuna, að geta fengið sér að borða þegar maður er svangur, fara á klósettið og í sturtu er ótrúlegur munur,“ tekur Inga Hrönn sem dæmi. Hún bendir einnig á að þarna sé einblínt á skaðaminnkandi þjónustu. „Þá fá konurnar hreinar nálar og það er fylgst með þeim. Þetta hefur eflaust bjargað einhverjum lífum og svo á bara að loka þessu.“

Inga Hrönn segir sorglegt að loka eigi neyðarúrræðinu sem Reykjavíkurborg setti á laggirnar í kórónuveirufaraldrinum. Mynd / Hákon Davíð

 

Þurfa að láta ótrúlegustu hluti yfir sig ganga

Spurð út í eigin reynslu segir Inga Hrönn: „Ég var búin að vera edrú í tvö og hálft ár þegar ég féll í byrjun 2019. Eftir að hafa verið á götunni í tvær vikur byrjaði ég að nota vímuefni í æð. Veröld mín breyttist algjörlega, ég fór frá því að vera mamma í fullu námi yfir í að vera á götunni og í Konukoti. Á götunni er geðveikin svo mikil og fólk gerir allt til að fá næsta skammt. Maður þarf að gera hluti sem maður er ekki sáttur við, bara til að framfleyta sér. Konum er misþyrmt og þær misnotaðar kynferðislega aftur og aftur, þær eru í svo miklum minnihluta á götunni og þurfa að láta ótrúlegustu hluti yfir sig ganga til að lifa af,“ útskýrir hún.

„Á götunni er geðveikin svo mikil og fólk gerir allt til að fá næsta skammt.“

Hún segir það svo bæta gráu ofan á svart að vera móðir í þessari stöðu. „Þá er maður með samviskubit stanslaust. Maður fær ekki að hitta barnið sitt og veit að maður ætti að vera heima að hugsa um það en það er svo erfitt að komast út úr þessum aðstæðum. Það er svo erfitt að taka skrefið og hætta. Þannig að það að hafa þetta neyðarúrræði og Konukot sömuleiðis er ómissandi, starfsfólkið þar sýnir manni að það er ekki öllum sama.“

Inga Hrönn segist ekki vera feimin við að segja frá sinni reynslu. „Það eru ekki allir sem treysta sér að tala um þessa hluti en ég hef ekki verið feimin við það. Þess vegna finnst mér mikilvægt að opna mig um þetta. Það þarf að verða einhver vitundarvakning. Oftar en ekki er það fólk sem veit ekkert hvernig er að vera á götunni sem er að tjá sig um þessi mál,“ segir Inga Hrönn.

„Enginn tilbúinn til að hafa þetta fólk nálægt sér“

Inga Hrönn segir umræðu um úrræði fyrir heimilislausa oft koma og fara í bylgjum. „Fólk er þá að tala um að það þurfi að fjölga til dæmis gámum fyrir heimilislausa en svo er enginn tilbúinn að hafa þetta fólk nálægt sér. Fólk virðist vera sammála um að þetta sé hræðilegt og að það þurfi að hjálpa heimilislausu fólki en svo lokar fólk augunum um leið og það á að gera eitthvað og finna þessu fólki samastað,“ útskýrir Inga Hrönn.

Fordómar gegn heimilislausum eru áberandi í íslensku samfélagi að sögn Ingu. Mynd / Hákon Davíð

Hún segir mikla fordóma ríkja í íslensku samfélagi gagnvart heimilislausum. „Margt fólk skilur þetta ekki og við eigum ótrúlega langt í land. Mér hefur til dæmis verið bannað að fara inn í verslanir og starfsfólk í búðum vill ekki leyfa manni að nota salernið. Fólk vill bara ekki hafa mann nálægt sér ef maður er fíkill á götunni. Það er ótrúlega sorglegt að finna það, ég og aðrir sem hafa verið í þessari stöðu erum bara einstaklingar með tilfinningar eins og aðrir en það er búið að stimpla mann sem einhvern aumingja. Margir halda að það sé svo auðvelt að hætta þessu bara, að maður þurfi bara að hætta þessu væli og skella sér í meðferð,“ útskýrir Inga Hrönn og bætir við að það sé ekki hlaupið að því að komast í meðferð því þar sé langur biðlisti. „Oft margra mánaða.“

Inga Hrönn segir tilveruna sem fíkill á götunni vera erfiða en segir það líka hægara sagt en gert að klára meðferð og ætla að hefja eðlilegt líf aftur. „Það er líka erfitt að koma úr meðferð þegar tilvera manns áður snerist eingöngu um að finna næsta skammt. Maður þarf að loka á fólk sem maður umgekkst og byrja alveg á núlli. Svo er einhvern veginn allt sem minnir mann á fíkniefni, ég get til dæmis ekki farið nálægt miðbænum,“ útskýrir Inga Hrönn. Hún segir miðbæinn vekja upp of margar vondar minningar um þegar hún átti ekki í nein hús að venda og hafði fátt annað að gera en að ráfa upp og niður Laugaveginn. „Það er ótrúlega erfitt að koma sér á lappir aftur. Þetta er algjör klisja en maður tekur bara einn dag í einu.“

Inga Hrönn tekur fram að það vilji enginn búa á götunni til lengdar. „Undantekningarlaust, allir þeir sem ég þekki sem hafa verið í neyslu og á götunni hafa lent í einhverjum áföllum. Það er eitthvað sem býr að baki sem veldur því að fólk þarf að deyfa sig. Svo þegar fólk er orðið líkamlega háð fíkniefnum getur maður ekkert annað gert en að halda áfram, þegar maður er kominn á þennan stað þá er þetta löngu komið út fyrir að vera eitthvert val.“

Miklir fordómar innan kerfisins

Inga Hrönn vill biðla til fólks að sýna þeim sem eru í þeirri erfiðu stöðu að hafa ekki í nein hús að venda samkennd. „Fordómar eru bara fáfræði. Ég vil að fólk átti sig á að þeir sem eru með fíknisjúkdóma og á götunni eru einstaklingar eins og ég og þú. Þetta gæti orðið systir þín eftir nokkur ár og mamma þín gæti fengið þennan sjúkdóm sem dæmi. Það getur hver sem er lent í þessu. Þetta er fólk sem á fjölskyldu og hefur tilfinningar. Fólk má ekki bara sjá fíkilinn, við verðum að sjá manneskjuna sem er þarna á bak við.“

Inga Hrönn segir líka mikla fordóma leynast innan kerfisins. „Það er rosalega erfitt að vera fíkill og reyna að fá almenna þjónustu. En ég hef verið heppin með félagsráðgjafa og fengið þjónustu hjá VoR-teyminu, það er teymi sem aðstoðar heimilislaust fólk við að leita sér þeirrar þjónustu sem það þarf. Ég er móðir með fíkniefnavanda og get til dæmis sagt að það eru rosalegir fordómar innan Barnaverndar. Mín reynsla er sú að það er ekkert hlustað á mann. Ég hef orðið vör við það að margt fólk álítur allar hugmyndir þeirra sem eru með fíknisjúkdóm vera brenglaðar. Þó að ég sé í neyslu þá veit ég hvað er mínu barni fyrir bestu,“ útskýrir Inga Hrönn sem á átta ára gamla dóttur.

Mynd / Hákon Davíð

„Löggan gerir lítið og fólki með fíknisjúkdóma…“

Hún hefur sömu sögu að segja um lögregluna. „Það er mjög erfitt að eiga við lögregluna ef þú ert fíkill. Einu sinni var ég handtekin vegna þess að ég var að rífast við kærasta minn fyrir utan Konukot og það voru læti í okkur. Varðstjórinn spjallaði við mig þegar ég kom upp á löggustöð og ég sagði honum að mér liði illa. Hann sagði mér að hætta bara að vera sprautufíkill og bætti svo við að fólk ætti að kveljast í hljóði. Í þau skipti sem lögreglan hefur komið þangað sem ég er hef ég verið meðhöndluð sem glæpamaður, jafnvel þótt ég hafi ekkert gert af mér. Löggan gerir lítið og fólki með fíknisjúkdóma, hún sýnir hroka og yfirgang. Ég hef verið handtekin í geðrofi og lokuð inni í klefa þegar ég þurfti á læknishjálp að halda,“ segir Inga Hrönn. Hún segir greinilegt að lögreglan komi öðruvísi fram við fólk með fíknisjúkdóma en aðra. „Það er mín upplifun. Áður en ég fór að nota vímuefni í æð kom lögreglan allt öðruvísi fram við mig. Lögreglan lítur á fíkla sem glæpamenn en sér ekki hvað fólk er veikt.“

Hefur áhyggjur af vetrinum

Inga Hrönn þarf ekki lengur að nýta sér neyðarúrræðið sem Reykjavíkurborg setti upp í kórónuveirufaraldrinum en hún hefur áhyggjur af konunum sem eru þar áfram. „Nú er veturinn að koma og það er alveg ömurlegt að vera á götunni á veturna. Mér finnst alveg ótrúlega sorglegt að það eigi að loka þessu á einhverjum tímapunkti, það er ekki verið að hugsa um hag þessara kvenna. Það er eins og fólki sé sama. Loksins eru þær komnar með eitthvert öryggi, kannski í fyrsta sinn í mörg ár, og svo er verið að tala um að loka á þær. Það er sorglegt. Mér þykir svo vænt um þessar konur sem búa þarna, þær eru veikar en þetta eru góðar konur,“ segir Inga Hrönn. „Við verðum að koma fram við þær eins og fólk.“

Ég hef verið þungt hugsi síðustu daga. Umfjöllunin um neyðarúrræði í Reykjavík hefur farið hátt að undanförnu og allir…

Posted by Inga Hrönn on Laugardagur, 5. september 2020

Myndir / Hákon Davíð

- Auglýsing -

Athugasemdir

Lestu meira