Skart sem segir sögu

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Hin smekklega og glæsilega Cate Blanchett mætti á rauða dregilinn þegar nýjasta mynd hennar, The Joker, var frumsýnd. Það vakti athygli að í eyrum hennar héngu stórir lokkar skreyttir cameo-mynd. Þetta telja tískuspekúlantar að sé til marks um að þessi gamaldags aðferð í skartgripagerð sé að komast í tísku aftur.

Cameo-skartgripir eru mjög gamlir og nokkrar útgáfur af slíku skarti hafa fundist við fornleifauppgröft víða um heim. Á endurreisnartímanum voru þeir einnig áberandi meðal dýrgripa nýríkra kaupmanna og fjölskyldna þeirra. Þeir voru mjög vinsælir á Viktoríutímanum. Þetta eru myndir útskornar í skrautsteina og steinmyndin límd ofan á annan fagran stein. Síðan er þeim komið fyrir í umgjörð og búin til men, nælur og eyrnalokkar. Á nítjándu öld var mjög vinsælt að hafa vangamyndir af ungum konum eða mönnum í þessum skartgripum. Lokkar Cate voru hins vegar skreyttir með sjálfsmynd bandarísku listakonunnar Cindy Sherman og þeir voru keyptir hjá LizWorks, skartgripafyrirtæki sem sérhæfir sig í að bjóða upp á gripi framleidda í takmörkuðu upplagi en þeir eru hannaðir af nokkrum færustu listamönnum nútímans. Cindy Sherman hannaði lokka Cate í samvinnu við listakonuna Catherine Opie.

„Á endurreisnartímanum voru þeir einnig áberandi meðal dýrgripa nýríkra kaupmanna og fjölskyldna þeirra.“

En þessir lokkar eru aðeins hluti af cameo-línu LizWorks. „Ég elska að taka hefðbundna hluti og gera þá nútímalegri en jafnframt gefa þeim aðra vídd og nýjan tón,“ segir Liz Swig, stofnandi fyrirtækisins, um hana. En þessi nútímaútgáfa af þessari gömlu aðferð er ekki það eina sem nýtur vinsælda. Antíksalar í Bretlandi segja að eftirspurn eftir gömlu gripum af þessu tagi hafi aukist gríðarlega undanfarin ár og menn hafi vart undan að leita þá uppi og útvega viðskiptavinum sínum. Mjög marga fallega cameo-gripi er að finna á Victoria and Albert-safninu í London.

En líkt og oft gerist kom bakslag með auknu frjálslyndi og þegar tuttugasta öldin gekk í garð þótti cameo kerlingalegt og ekki neitt fyrir nútímakonur sem farnar voru að huga að því að berjast fyrir kosningarétti. En nú virðast menn vera farnir að gera sér grein fyrir að umtalsverða tækni og hæfni þarf til að búa til þessa skemmtilegu skartgripi. Því frumlegri sem þeir eru því betra að sjálfsögðu. Þeir eru mjög táknrænir og myndin var oft notuð til að koma skilaboðum á framfæri. Yfir þeim er líka einhver dulúð og gamaldags blær sem er sérlega heillandi.

 

 

- Auglýsing -

Athugasemdir

Lestu meira