Stoltið hans pabba

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Mín fyrsta minning snýst um hávaða og öskur. Ég hef líklega verið þriggja ára þegar ég klifraði upp úr rimlarúminu og trítlaði niður stigann til að gá hvað gengi á. Í eldhúsinu stóð pabbi, öskraði á mömmu og tíndi diskana niður úr skápnum og mölbraut þá á gólfinu. Ég stóð líkt og negldur við gólfið og hræddur til að gráta. Hvað gerðist næst veit ég ekki en mamma hefur sagt mér að ég hafi verið hættur að pissa undir en byrjað aftur á þessum aldri og ekki hætt fyrr en ári síðar.

Hvort atburðir þessa kvölds hafi valdið því veit ég ekki en ég á fáar góðar minningar um föður minn. Um daginn voru fluttar fréttir af niðurstöðum rannsókna á hugarfari ofbeldismann og mér fannst ég vera að lesa lýsingu á skapgerð föður míns. Hann taldi sig ákaflega góðan heimilisföður og fyrsta klassa skaffara. Hann skipti sér þó sjaldan af okkur systkinunum nema til að skammast og tala niður til okkar. Við stóðumst aldrei væntingar hans en sjálfur kvaðst hann gera miklar kröfur til sjálfs sín. Hann var algerlega ómenntaður og hafði engan áhuga á bókum og fannst það algjör tímasóun þegar þrjú af okkur kusu að lesa af miklum krafti. Hann talaði alltaf um skólaganga væri tilgangslaus og kraftmikið fólk gæti unnið fyrir nægum tekjum án þess að hanga í skóla árum saman.

Pabbi var svo sem hörkuduglegur, það vantaði ekki. Hann var eftirsóttur í vinnu en staldraði jafnan stutt við á hverjum stað. Allt gekk vel til að byrja með og pabbi kom heim alsæll og glaður á kvöldin en fljótlega tók að súrna í honum hljóðið. Verkstjórinn var ómögulegur og lagði hann í einelti, sýndi honum stöðuga lítilsvirðingu og eigandinn var síst skárri. Eftir einhverjar vikur eða mánuði sagði pabbi upp eða var rekinn eftir að hafa rokið upp í reiði yfir einhverju. Eitt sinn slóst hann við yfirmann sinn. Mamma var alltaf jafnmiður sín þegar þetta gerðist en pabbi var kokhraustur og ánægður með sig. Hann sagði: „Ég læt sko ekki vaða yfir mig. Ég veit hvers virði ég er og á mitt stolt.“

Fátækt heimili

Stolt hans gerði það hins vegar að verkum að alltaf vantaði peninga á æskuheimili mínu. Við systkinin fengum að borða en stundum var lítið til og maturinn fábrotinn. Það var ekki keypt mikið af ávöxtum og kex var aldrei á borðum. Mamma var snillingur í að gera mikið úr litlu og varð að vera það. Ég veit líka að móðurafi minn sendi henni oft mat úr sveitinni og það hefur bjargað miklu. Þegar ég var níu ára var pabbi ekki í vinnu í heilt ár, enda voru atvinnurekendur í bæjarfélaginu farnir að þekkja skapsmuni hans og kusu að ráða hann ekki nema þeir væru í vandræðum með að fá menn.

 „Verkstjórinn var ómögulegur og lagði hann í einelti, sýndi honum stöðuga lítilsvirðingu og eigandinn var síst skárri. Eftir einhverjar vikur eða mánuði sagði pabbi upp eða var rekinn eftir að hafa rokið upp í reiði yfir einhverju.“

Við fluttum til höfuðborgarinnar þegar ég var tólf ára. Mamma fékk hér vinnu og sú staðreynd að hún hafði föst laun hjálpaði. Pabbi drakk sífellt meira og varð ofbeldisfyllri með hverjum deginum. Hann gekk í skrokk á mömmu í fyrsta sinn eftir að við settumst að í Breiðholti. Fram að því hafði hann haldið okkur í heljargreipum skapbræðinnar og vanstillingarinnar en við höfðum þó ekki þurft að óttast hnefa hans. Eftir að fyrst höggið féll var þróunin hröð niður á við og æ oftar urðum við vitni að grófu ofbeldi hans gagnvart mömmu.

Hún þoldi þetta lengi en loks kom að því að meira að segja hún gat ekki meira. Við snerum aftur heim í bæinn okkar en foreldrar mömmu bjuggu þar í nágrenninu og hjálpuðu henni. Ég var sextán þegar þetta var. Afi var fróður maður og fróðleiksfús. Hann hvatti mig til að halda áfram í skóla og mér þótti gott að fá hrós hans og viðurkenningu. Fram að því hafði ég ekki oft heyrt að ég væri einhvers virði. Ég var mjög ungur þegar ég ákvað að ég vildi ekki verða eins og pabbi en Stjáni, elsti bróðir minn, var eiginlega eins og tvífari karlsins í öllu. Hann var ævinlega upp á kant við einhvern, sífellt í slagsmálum í skólanum, reifst við kennarana og var rekinn úr vinnu fyrir dónaskap og kjafthátt. Nanna systir mín og Eiríkur yngsti bróðir voru líkari mér í skapi og við héldum vel utan um hvert annað.

Heimskur að vera í skóla

Ég flutti að heiman til að fara í menntaskóla og Nanna kom á eftir mér ári síðar. Þegar við systkinin vorum komin í háskóla bjó Eiríkur hjá okkur. Við unnum öll með náminu, enda enginn til að styrkja okkur. Við hittum pabba lítið eftir skilnaðinn. Hann hringdi sjaldan og oftast fullur. Ekkert okkar vildi tala við hann nema Stjáni. Ég hitti hann einu sinni á götu eftir að ég byrjaði í háskólanum og ég vissi ekki hvert hann ætlaði þegar hann frétti að ég byggi í bænum og væri í skóla. Hann tilkynnti mér að hann hefði nú alltaf vitað að ég væri vitlaus en að ég væri svona heimskur hefði honum ekki dottið í hug.

Ég lauk námi og fékk fljótlega góða vinnu.  Pabbi kom ekki í útskriftarveisluna mína, né heldur lét hann sjá sig þegar systkini mín náðu sama áfanga. Mér hefur gengið vel í lífinu en pabbi minn lést fyrir nokkru. Hann var enn á besta aldri, eins og sagt er, en hafði farið illa með sig. Yngri systkini mín eru einnig á góðu róli þótt Nanna systir hafi verið, „óheppin í karlamálum“. Hún virðist því miður hrífast af mönnum sem eru ótrúlega líkir pabba og það endar jafnan með ósköpum. Við fyrstu kynni eru þeir fullkomnir og góðir en áður en langt um líður sýna þeir sitt rétta eðli. Hún verður alltaf jafnhissa og sár. Ég og mamma höfum oft þurft að hjálpa henni að raða saman brotunum af lífi sínu.

 „Ég sá að þannig vildi ég vera svo ég lærði að stilla skapsmuni mína og ná valdi á reiðinni áður en hún tók völdin af mér. Af því er ég stoltur og mitt stolt á ekkert skylt við stoltið hans pabba.“

Stjáni aftur á móti virðist ætla að endurtaka algjörlega lífshlaup pabba. Hann gerðist sjómaður og þótti bæði laginn og duglegur. Honum tókst hins vegar mjög fljótt að komast út úr húsi hjá flestum og skipin sem hann var á urðu sífellt minni, útgerðirnar óáreiðanlegri og allt í kringum hann meiri ringulreið. Hann á fjögur börn með þremur konum, beitti þær allar ofbeldi og drakk illa þegar hann var í landi. Fyrir átta árum slasaðist hann illa á fylleríi og hefur átt erfitt með að vinna síðan. Nú lifir hann á örorkubótum og hefur verið heimilislaus af og til síðastliðið ár. Mamma tók við honum um tíma en varð að gefast upp og reka hann út.

Ég bauð þá Stjána hjálp en setti sem skilyrði að hann færi í meðferð. Bróðir minn tók ekki vel í það og sagðist ekki láta neina háskólamenntaða tindáta segja sér hvað hann ætti að gera. Hann ætti nú sitt stolt. Mér fannst ég hreinlega heyra röddina hans pabba koma úr hans munni og gafst upp. Kannski hefði ég átt að reyna betur og meira en ég nennti því ekki. Eftir því sem ég verð eldri því meira kemst ég á þá skoðun að við eigum öll val. Ég var sjálfur skapbráður krakki og fljótur upp en lærði fljótt þá lexíu að reiðin skilar engu. Hún lamar þig og eyðileggur hæfileikann til að rökstyðja sitt mál. Ég sá líka að ég kom engu fram með látunum en ef ég hélt ró minni tókst mér mun oftar að stýra hlutunum í höfn. Afi var mín stóra fyrirmynd í lífinu en ég heyrði þann mann aldrei hækka róminn. Þrátt fyrir það var hann mikilsvirtur í sveitinni sinni og gengdi þar trúnaðarstörfum. Menn leituðu oft ráða hjá honum og hann leitaðist ævinlega við að greiða götu manna ef hann var í aðstöðu til. Ég sá að þannig vildi ég vera svo ég lærði að stilla skapsmuni mína og ná valdi á reiðinni áður en hún tók völdin af mér. Af því er ég stoltur og mitt stolt á ekkert skylt við stoltið hans pabba.

 

- Auglýsing -

Athugasemdir

Lestu meira

Forstöðumaður SA kominn í samband

Davíð Þorláksson, forstöðumaður hjá Samtökum atvinnulífsins og Daniel Barrios Castilla eru nýtt par.Davíð fagnar fertugsafmæli í dag...

Ólöf Kristín stýrir Listasafni Reykjavíkur áfram

Ólöf Kristín Sigurðardóttir hefur verið endurráðin til fimm ára sem forstöðumaður Listasafns Reykjavíkur.„Undir hennar stjórn hefur tekist...