Sylvía fór í magaermisaðgerð: „Komin á skurðarborðið þegar ég ætlaði að hætta við“ |

Sylvía fór í magaermisaðgerð: „Komin á skurðarborðið þegar ég ætlaði að hætta við“

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Sylvía Haukdal Brynjarsdóttir fór í svokallaða magaermisaðgerð fyrir tveimur árum sem hún segir að hafi gjörbreytt lífi sínu og bætt lífsgæðin til muna. Hún er menntaður pastry chef frá matreiðsluskólanum Le Cordon Bleu í London og skreytir tertur eins og sannkallaður listamaður. Hún segist alltaf hafa haft mikinn áhuga á bakstri og fundið að það höfðaði meira til sín að vinna eitthvað með höndunum og baka heldur en að læra eitthvert bóknám.

Fyrr á árinu stofnaði hún bakaríið og verslunina Bake Me a Wish í Garðabæ ásamt vinkonu sinni þar sem þær bjóða upp á dýrindis kökur og eitt og annað sem tengist bakstri og eru staðráðnar í því að gera það að einstakri upplifun fyrir fólk að koma til þeirra.

Var komin á skurðarborðið þegar hún ætlaði að hætta við

Fyrir tveimur árum fór Sylvía í svokallaða magaermi, aðgerð þar sem maginn er minnkaður umtalsvert. „Þótt ég hafi alltaf rokkað upp og niður á vigtinni hef ég alltaf verið þung og of þung stærri hluta ævi minnar heldur en hitt. Ég var orðin 112 kíló og fann að þetta var farið að há mér mjög mikið, bæði andlega og líkamlega. Það sem ýtti hvað mest við mér var þegar dóttir mín sagðist vilja vera stór eins og mamma. Þá fannst mér ég þurfa að taka mig á; ég væri hvorki góð fyrirmynd andlega né líkamlega. Mig langaði að geta leikið við dætur mínar, hlaupið um með þeim, skriðið eftir gólfinu og verið með í fimleikum og allt þetta en ég gat það bara ekki eins og staðan var þarna. Svo ég ákvað að ég yrði að gera eitthvað í málunum og fór að skoða möguleika sem voru í boði. Ég var búin að prófa alla megrunarkúra sem voru til undir sólinni án árangurs en ég þekkti nokkrar konur sem höfðu farið í magaermi og náð góðum árangri sem var svona kveikjan að því að ég ákvað að fara sjálf í þá aðgerð.“

Hún segir að þetta hafi verið stór ákvörðun og hún sé þar að auki mjög hrædd við allt læknastúss. „Ég var meira að segja komin á skurðarborðið þegar ég ætlaði að hætta við,“ segir hún og hlær, „en gerði það sem betur fer ekki. „Þetta hefur bætt mín lífsgæði heilmikið. Þetta snerist aldrei um að verða grönn eða líta betur út, þótt það sé auðvitað plús, en mér líður svo miklu betur og það er æðislegt að geta gert það sem mig langar. Ég er líka góð fyrirmynd fyrir börnin mín með því að hafa tekið upp heilbrigðari lífsstíl almennt.“

Sylvía er í forsíðuviðtali í nýjasta tölublaði Vikunnar sem fæst á næsta sölustað eða í áskrift.

Texti: Guðrún Óla Jónsdóttir
Myndir: Hákon Davíð Björnsson
Förðun: Elín Reynis
Hár: Linda Rós Haukdal
Föt: Vero Moda
Skór: Tamaris úr versluninni Steinari Waage

Deila

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Elsta tímarit landsins um daglegt líf, tísku, menningu, mat og lífsstíl.

Tryggðu þér árs áskrift og fáðu vikuleg tölublöð á 832 kr. stykkið eða kauptu stakt blað á 1.795 kr.

- Auglýsing -

Orðrómur

Helgarviðtalið

Lestu meira