„Þá fyrst fara litlu þorpin að tæmast“

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Þeir sem keyra í gegnum Hellissand fara sjálfkrafa í gegnum heila listsýningu en þar eru tæplega fimmtíu vegglistaverk sem prýða hina ýmsu húsveggi bæjarins. Vegglistaverkin eru mikil bæjarprýði og hafa veruleg áhrif á upplifun þess sem heimsækir svæðið. Blaðamaður Vikunnar rölti um bæinn með myndavélina og smellti myndum af nokkrum verkum sem fönguðu augað og ræddi við manninn á bak við hugmyndina að þessum listaverkum, Kára Viðarsson.

Mynd / Saga Sig

Kári býr á Hellissandi og segist vera Sandari í húð og hár, enda fæddur þar og uppalinn og Sandarar kallast þeir sem eru þaðan. „Ég bý á Hellissandi vegna þess að hér líður mér best og hér hefur mér alltaf liðið best. Hellissandur er bara dásamlegur staður að vera á. Íbúarnir eru góðviljaðir og hér er góð stemning. Krakkarnir leika sér úti frá morgni til kvölds, félagsstarf er gott hér, allir heilsast úti á götu og sumir oft á dag. Listinn yfir kosti þess að búa á Hellissandi er mjög langur. Hér er stutt í sjóinn og náttúruna, frábært fólk þar sem allir þekkja alla og vilja hjálpa hver öðrum, góð þjónusta, frábærir skólar og það er geggjað að vera barn hérna. Hér eru engar umferðarteppur, við náum ekki útvarpsstöðvum með plathressu og yfirgengilega peppuðu útvarpsfólki. Það er mjög gamaldags pæling að finnast listamenn eiga að halda sig í hundraðogeinum Reykjavík. Í mínum huga er jafnsjálfsagt að þeir búi á minnstu krummaskuðum því með skapandi listamönnum kemur menning og án menningar, þá fyrst fara litlu þorpin að tæmast.“

Mynd / Guðrún Óla Jónsdóttir

Vegglistaverkin á Hellissandi fara ekki fram hjá þeim sem þangað koma og eru mikil bæjarprýði. Hugmyndina að verkunum á Kári. „Vegglistaverkaverkefnið er ein af þessum hugmyndum sem bara skaut upp í kollinum á mér einn daginn þegar ég var í göngutúr,“ segir hann brosandi. „Ég var að pæla í þessu gamla frystihúsi á Hellissandi sem var ekkert í allt of góðu standi og eiginlega fannst mér heimamenn farnir að hunsa að það væri þarna. En mér fundust veggirnir flottir og strúktúrinn og umhverfið í kring skemmtilegt og fór þá að velta fyrir mér hvort þetta gæti ekki orðið einhvers konar útigallerí. Svo einn daginn hafði listakona frá Kína samband við mig og bað mig að koma í samstarf. Hún hafði heyrt af Frystiklefanum og starfi mínu þar og vildi koma í gang alþjóðlegu samstarfi um stór vegglistaverkefni. Þannig fór þetta í gang og mánuði síðar var ég kominn með tíu listamenn frá öllum heimshornum hingað vestur að gera 40 vegglistaverk.“

Mynd / Guðrún Óla Jónsdóttir

Listakonurnar Lacy og Layla frá Kanada gerðu þessa mynd og segist Kári hafa verið með sérstaka samkeppni fyrir þennan vegg. „Mér bárust 70 tillögur og til stóð að fara með þrjár bestu í bæjarkosningu,“ segir Kári, „en þessi mynd var bara svo tengd inn í kjarnann okkar hér á Hellissandi, og svo yfirgengilega flott, að ég sleppti kosningunni og bauð þeim stöllum bara að koma og mála. Verkið er það langstærsta í bænum og stendur á gafli gamla íþróttahússins. Þegar ferðamenn fá að ferðast til Íslands er stanslaus straumur af þeim þarna að taka myndir og alveg klárt að þetta er mikill segull. Til stendur að fá þessar listakonur aftur hingað til að gera annað verk en það er allt í hægagangi.“

Greinina má lesa í heild í nýjasta tölublaði Vikunnar.

Kaupa blað í vefverslun >

- Auglýsing -

Athugasemdir

Orðrómur

Lestu meira

Stormfuglar hljóta alþjóðleg bókmenntaverðlaun

Einar Kárason og sænskur þýðandi hans, John Swedenmark, hljóta alþjóðleg bókmenntaverðlaun Menningarhúss og Borgarleikhúss Stokkhólms (Kulturhuset Stadsteatern)...