„Ekki eðlilegt að 17-18 ára stelpa hugsi um að vilja deyja á hverjum einasta degi“

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Silja Björk Björnsdóttir lifði af sjálfsvígstilraun 21 árs að aldri og hefur valið að nota reynslu sína, áföllin í lífinu og sjúkdóminn sem er hluti af henni til að opna umræðuna um geðrænan vanda og geðheilbrigði. Hún segir fordóma og skömm fylgifiska andlegra veikinda, þó umræðan í dag sé mun opnari og ríkari af samkennd, en þegar hún veiktist fyrir 11 árum. Silja Björk situr í stjórn Geðhjálpar, þar sem hennar baráttumál er að opna umræðuna um sjálfsvíg, svipta skömminni af þeim og efla forvarnir, og segir hún að mikilvægt sé að ræða andlegt heilbrigði jafnt og líkamlegt heilbrigði.

Hér fyrir neðan er brot út viðtalinu sem lesa má í fullri lengd hér:
„Við geðsjúklingarnir erum langflest bara Jón og Gunna, venjulegt fólk sem á erfitt andlega séð

„Þetta var hræðilegt slys og mildi að við skulum hafa sloppið á lífi og í heilu lagi. Slysið varð mikið á milli tannanna á fólki eins og er í litlum bæ þegar eitthvað gerist og það komu upp alls konar sögusagnir um eiturlyfjanotkun, nauðgun og ég veit ekki hvað, sem var enginn fótur fyrir. Og fyrir 17 ára ungling er rosalega erfitt að takast á við þetta. Ekki nóg með að þurfa að takast á við það að hafa sýnt þann dómgreindarbrest að fara upp í bíl með drukknum ökumanni, áttað mig á því að þeir voru drukknir og ekki stoppað það, heldur líka að þurfa að sætta sig við áfallastreituröskun, bakverki og bólgur í andliti. Þurfa svo að fara í skólann eins og ég var útlits, þar sem hálft andlitið á mér var tvöfalt og ekkert hægt að fela það.“

Slysið var vendipunkturinn í lífi Silju Bjarkar, og segir hún slysið hafa hrint af stað tilfinningum sem hún kunni ekkert á og sjúkdóminum sem var byrjaður að gera vart við sig í kolli hennar.

„Ég trúi því að þegar kemur að geðsjúkdómum þá erum við fædd inn í ákveðna áhættuhópa, ákveðna tendensa, ákveðin gen, bara eins og með alla aðra sjúkdóma. Í minni fjölskyldu er saga um geðsjúkdóma og geðveiki þannig að ég trúi því að ef það hefði ekki verið slysið þá hefði það verið eitthvað annað sem hefði komið sjúkdóminum upp á yfirborðið,“ segir Silja Björk, og bætir við að eftir nokkrar vikur hafi fólk hætt að slúðra um slysið og farið að tala um annað, en henni leið sífellt verr.

Sjá einnig: „Fyrir mér er sjálfsvíg ekki ákvörðun eða ákall á hjálp, athyglissýki eða sjálfselska“

„Hlutirnir urðu bara erfiðari og flóknari og þyngri fyrir mig og þá fór ég að skammast mín fyrir að geta ekki krafsað mig upp úr þessu sjálf. „Hvað meinarðu ertu þunglynd, þú ert alltaf brosandi, þú ert alltaf hlæjandi, þú ert með þak yfir höfuðið, ert í vinnu, ert í skóla, býrð hjá foreldrum þínum,“ fékk ég að heyra frá fólki. Það var eins og slysið hefði ekki gefið mér næga inneign til að líða illa, þar sem enginn dó og ég braut engin bein, en það er bara ekki þannig sem þunglyndi og geðsjúkdómar virka.“

Silja Björk Björnsdóttir
Mynd / Hallur Karlsson

Það er ekki eðlilegt að 17-18 ára stelpa hugsi um að vilja deyja á hverjum einasta degi, það er ekki partur af gelgjuskeiðinu, það er ekki partur af því að vaxa úr grasi, það er sjúkdómur

Geðlæknirinn sagði allt verða gott

Silja Björk er gagnrýnin á að engin áfallahjálp var í boði, henni var ekki boðið að ræða við sálfræðing, eða á neinn hátt hugsað um að hlúa að andlegu hliðinni, líkt og hlúð var að sárum hennar á slysadeildinni. „Þú þarft yfirleitt að sækjast eftir slíkri hjálp sjálfur ef lögreglan hefur ekki vit á því að hringja og óska eftir áfallahjálp eins og til dæmis í tilvikum þar sem fólk kemur að slysstað,“ segir Silja Björk, sem ári eftir slysið leið ekkert betur og fór til geðlæknis í fylgd móður sinnar.

„Þetta var gamall kall af gamla skólanum, sem talaði við mig í svona 20 mínútur og sagði svo: „Heyrðu þú ert nú bara 17 ára flott og gáfuð stelpa og þú veist nú betur og þú bara ferð ekki aftur upp í bíl með drukknum manni og þetta verður bara allt í lagi,“ en hlutirnir urðu alls ekki í lagi,“ segir Silja Björk.

„Það er ekki eðlilegt að 17-18 ára stelpa hugsi um að vilja deyja á hverjum einasta degi, það er ekki partur af gelgjuskeiðinu, það er ekki partur af því að vaxa úr grasi, það er sjúkdómur,“ segir hún og bætir við að oft sé erfiðara fyrir stelpur að fá greiningar um þunglyndi, ADHD eða annað, vegna fordóma og misréttis.

„Það er einnig erfitt þegar aðrir eru alltaf að segja við þig: „Þetta jafnar sig, þetta verður allt í lagi, þú verður bara að vera dugleg að fara út að labba, þú verður bara að vera dugleg að hitta vini þína, og annað í sama dúr. Svo bara lagast ekkert, þó ég geri allt þetta, því sjúkdómurinn bara tekur yfir, því það er það sem þetta er, þetta er sjúkdómur!“

Sjá einnig: „Fyrir mér er sjálfsvíg ekki ákvörðun eða ákall á hjálp, athyglissýki eða sjálfselska“

Á www.39.is getur þú skrifað undir áskorun þess efnis að setja geðheilsu í forgang í samfélaginu.

Fólk með sjálfsvígshugsanir er minnt á Hjálparsíma Rauða krossins, 1717, og netspjallið. Einnig er hægt að leita til Píeta samtakanna, þar síminn 552-2218 opinn allan sólarhringinn og vefsíðan www.pieta.is.

- Auglýsing -

Athugasemdir

Orðrómur

Lestu meira