„Það var stöðugt verið að fylgjast með mér, ég var í raun bara undir eftirliti“

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Eftir að hafa áttað sig á að hún var í mjög óheilbrigðu sambandi þar sem var mikil stjórnun og andlegt ofbeldi, ákvað Linda Baldvinsdóttir að kynna sér árangursfræði og markþjálfun til að byggja sig upp og verða sterkari. Hún fór á námskeið í markþjálfun og hefur verið óstöðvandi síðan. Hún starfar nú sem markþjálfi og samskiptaráðgjafi auk þess að vera pistlahöfundur og segir ástríðu sína vera að hjálpa fólki að lifa til fulls og nýta þann stutta tíma sem við höfum á þessari jörð. Það sé spurning hvernig stykki fólk vilji sjá á því leiksviði sem lífið er.

„Ég er landsbyggðartútta,“ segir Linda og hlær létt, „alin upp austur á fjörðum. Ég fæddist á Norðfirði og flutti sjö ára gömul á Seyðisfjörð þar sem ég bjó til 25 ára aldurs. Mér þykir alltaf vænt um minn gamla heimabæ og leið að mörgu leyti afskaplega vel úti á landi, en væri alveg sama þótt ég sæi aldrei aftur snjó. Mér fannst aðþrengjandi að vera með þessi háu fjöll allt í kring og fullt af snjó alls staðar í marga mánuði. Ég bý núna í úthverfi í Reykjavík en draumurinn er að búa í miðbænum, þar sem lífið og fjörið er, svo ég sé ekki alveg fyrir mér að ég flytji út á land. En hvort ég á svo eftir að búa við einhverja strönd í Portúgal eða á Ítalíu og skrifa bækur, það gæti vel verið,“ segir hún kímin.

Linda giftist ung og eignaðist þrjú börn með manni sínum. Þau skildu þegar yngsta barnið var tíu ára. „Heimilislífið var gott, við hjónin vorum alltaf mjög góðir vinir og erum það enn í dag, en við tókum ákvörðun um að skilja vegna bresta í hjónabandinu. En þótt við séum góðir vinir í dag þá var skilnaðurinn okkar ekkert betri eða fallegri en gengur og gerist. Skilnaðir eru alltaf erfiðir en sem betur fer höfðum við þroska og kannski geðslag til að sameinast í vináttu, barnanna okkar vegna. Ég held því miður að það sé ekki svo algengt. En mér finnst ég hafa verið mjög heppin að hafa fengið að kynnast því að eiga svona heilbrigt samband eins og ég og fyrrverandi maðurinn minn áttum, því ég átti síðar eftir að vera í stormasömu sambandi sem var mjög óheilbrigt, með mikilli stjórnun og andlegu ofbeldi.“

Ætlaði fyrst að byggja sig upp
Linda hefur starfað lengi sem markþjálfi, eða frá árinu 2007. Á þeim tíma höfðu áreiðanlega ekki margir heyrt þetta orð, markþjálfun, sem maður heyrir svo víða í dag. Blaðamaður spyr því hvernig Linda hafi dottið niður á nám í markþjálfun.

„Ég var búin að öðlast ákveðna lífsreynslu og verða fyrir andlegu ofbeldi sem gerði það að verkum að ég fór að lesa mér til um árangursfræði,“ segir Linda. „Ég hef alltaf haft mjög mikinn áhuga á gamalli heimspeki og trúarbrögðum og þar koma árangursfræði mikið fyrir. Ég hef bæði kynnst heilbrigði og óheilbrigði með andlegu ofbeldi í samböndum svo ég hafði báðar hliðar en þurfti í raun að endurskoða málin og skoða hvað væru heilbrigð samskipti og hvað ekki. Ég hélt reyndar að ég þyrfti að fara til Bandaríkjanna til að læra þessi fræði en svo rakst ég á síðu ICF, International Coach Federation, þar sem upp kom flettigluggi með löndum heims og ég af einhverri rælni sló inn Ísland. Þá komu upp tveir íslenskir aðilar sem höfðu lært hjá ICF og ég var svo heppin að þeir voru akkúrat að byrja með námskeið í markþjálfun sem ég komst á og ég hef verið óstöðvandi síðan. Ég hef bætt við mig alls konar námi; meðal annars NLP-markþjálfun, samskiptaráðgjöf og TRM-áfallanámi sem ég nýti svo allt svolítið saman í þjálfuninni.“

Mynd / Hallur Karlsson

Linda segist því hafa byrjað að kynna sér árangursfræðin og markþjálfunina til að byggja sig upp og verða sterkari. „Ég þurfti svo sannarlega að breyta mínum skoðunum, hugsunum og viðhorfum og taka á minni meðvirkni, fyrst og fremst. Það var mikil vinna. En guð minn góður hvað sú vinna borgaði sig og hvað ég er stolt af sjálfri mér í dag og tel það vera árangur. Árangur er hægt að meta á ansi ólíka vegu,“ segir hún og brosir. „Mér fannst ég hafa fengið alveg nóg af verkefnum í lífinu að glíma við og ég man að ég sagði við vin minn að ég skildi ekki hvers vegna ég fengi svona mörg stór verkefni til að leysa. Hann sagðist nú ekki vita það, en sagðist halda að það yrði til þess að ég myndi hjálpa öðrum. Og ég fann þessa þörf að geta glætt líf annarra og hjálpað þeim við að bæta lífsgæði sín.“

Linda segir að í raun megi segja að hún sé einn af frumkvöðlum í markþjálfun á Íslandi. Um tíma var hún formaður Félags markþjálfunar og hugarfóstur hennar, Markþjálfunardagurinn, varð til í hennar formannstíð. „Ég hefði þó ekki getað það án þess að gott fólk kæmi að því verkefni. Ég er mjög stolt af því að hafa verið í þessu frumkvöðlastarfi og mér finnst mega nýta tæki markþjálfunar í öllu sem við tökumst á við í lífinu. Við erum öll mennsk, sama hvar við störfum og hversu langt við höfum náð. Við eigum að fá að lifa sem við sjálf og lifa lífinu á okkar eigin forsendum. Við fæðumst öll einstök. Hver einstaklingur fæðist með öðruvísi fingrafar en allir aðrir, það hlýtur að segja okkur að við eigum að vera við.“

Þurfum að gæta okkar eins og lítils barns
Talið berst aftur að andlegu ofbeldi en Linda segir marga viðskiptavini sína vera að glíma við afleiðingar þess og brotna sjálfsmynd. Hún segir andlegt ofbeldi geta haft áhrif á líkamlegt ástand og geta valdið svima, hjartsláttartruflunum, kvíða og endurteknum sýkingum, streitu, öndunarfæraerfiðleikum, svefnleysi og fleiru.

„Ég held að fólk átti sig ekki alltaf á því hvað andlegt ofbeldi er alvarlegt,“ segir Linda dálítið alvarleg á svip. „Við erum svo vön að skilgreina ofbeldi sem kynferðislegt eða hreinlega sem heimilisofbeldi og barsmíðar. Það sem fólk þarf að átta sig á er að ekkert ofbeldi á sér stað öðruvísi en svo að búið hafi verið að beita andlegu ofbeldi áður. Andlegt ofbeldi er oft falið og er á þann hátt að maður áttar sig ekki á því hvað það er alvarlegt. Það byrjar mjög hægt og rólega, með einhverju smotteríi; hæðni, stríðni, kannski einhverjum orðum sem maður hristir bara hausinn yfir og er ekki viss um að hafa heyrt rétt. Eftir dálítinn tíma hefst svo næsti hluti, sem gæti verið svokallað gaslighting. Þá heyrir maður eitthvað, sér eitthvað, upplifir eitthvað en ofbeldisaðilinn segir alltaf að þetta sé ekki rétt. Maður hafi upplifað þetta skakkt, ekki heyrt rétt eða séð eitthvað sem ekki var. Síðan, ef þetta fær að ganga óátalið, þá eykst ofbeldið stig af stigi og það er auðvitað mismunandi hvernig það er. Það getur falist í því að maður er útilokaður frá fjölskyldu sinni, vinir manns eru asnar og fávitar, og auðvitað fjölskyldan líka, og maður sjálfur ekki nógu góður ásamt því að allt sem talist getur til gleðistunda hjá fórnarlambinu er eyðilagt með einhverjum hætti. Þetta verður það alvarlegt að maður fer að hugsa um að koma sér út úr þessu en þá byrjar hveitibrauðstímabilið (e. honeymoon) sem er ofboðslega sætt; þá er engin manneskja betri og það er dekrað við mann á allan hátt. Í sambandi er það þannig að maður er ausinn gjöfum, er boðið í rómantískar ferðir og það hefur bara aldrei fæðst önnur eins dásemdarmannvera á jörðinni.“

„Það sem fólk þarf að átta sig á er að ekkert ofbeldi á sér stað öðruvísi en svo að búið hafi verið að beita andlegu ofbeldi áður.“

Linda segir að þetta svokallaða hveitibrauðstímabil myndi mikið af góðum boðefnum í heilanum og líklega upplifi maður þessa spennu hvergi nema í svona samskiptum og því virðist eðlilegt, venjulegt hjónaband frekar óspennandi í samanburðinum. „En er það samt ekki, auðvitað, vegna þess að þetta er gervikikk. Um leið og aðilinn veit að hann er kominn með mann á réttan stað þá hefst þetta allt aftur, þetta fer bara í hring; byrjar hægt, svo kemur ofbeldið, svo kemur hveitibrauðstímabilið aftur. Og svona gengur þetta hring eftir hring, síendurtekið.“

Mynd / Hallur Karlsson

Hún segir að persónuleg mörk séu ekki virt og það sé auðvitað fáránlegt að einhver ætli að ákveða hvernig manni líði eða hvernig maður upplifir hlutina. „Heilbrigð samskipti ættu aldrei að fylla mann skömm og óreiðu eða láta manni finnast ekki hlustað á sig. Vertu einungis þar sem þér líður vel og hvergi annars staðar.“

Fyrir þá sem eru í þessum aðstæðum segir hún að sé gott að setja lítið barn sem þeim þyki vænt um í aðstæðurnar. „Og spyrja sig hvort maður myndi vilja láta þetta ganga yfir barnið? Það er nefnilega oft svo auðvelt að sjá þetta utan frá og gagnvart einhverjum sem okkur þykir vænt um, ég tala nú ekki um lítið barn. En málið er að við þurfum að gæta okkar á nákvæmlega sama hátt og við þurfum að gæta þessa barns.“

Þumalputtareglan að vont fólk meiðir og breytist ekki
Linda segir andlegt ofbeldi vera mjög lúmskt og það felist ekki endilega í orðum. „Mig minnir að orðin sem eru sögð séu um það bil sjö prósent en restin er líkamstjáningin og tóntegundin. Og það er svipan sem fólk beitir; það setur upp steinveggi í kringum sig, talar ekki við hinn aðilann, maður er settur út í horn og hunsaður algjörlega. Ef þér finnst þú þurfa að tipla í kringum fólk þá er eitthvað óeðlilegt mynstur í gangi. Maður á kannski erfitt með að útskýra hvað það er því það er ekki beinlínis neitt sem viðkomandi sagði, heldur bara hvernig hann leit á mann. En það er einmitt þetta augnatillit, og jafnvel tóntegund í röddinni, sem er stjórnunartæki; svipan sem er notuð.“

„Ef þú ert í sambandi þar sem þér eru sýndir ofbeldistaktar, farðu þá út úr því.“

Linda segir að þeir sem beiti andlegu ofbeldi virðist oft eiga það sameiginlegt að vera með tvö andlit. „Þess vegna er svo erfitt að átta sig á þessu því út á við virðast þeir vera mjög sjarmerandi, vel gefnir, þeir ná fólki á sitt band og sýna manni yfirleitt mjög mikla virðingu út á við. Nema í þröngum hópi; þar geta þeir farið að skjóta á mann og sýna hegðun sem fólki finnst kannski ekki alveg allt í lagi. En í stórum hópi myndu þeir líklega ekki gera það. Oft eru þessir aðilar haldnir siðblindu, mikilli eigingirni og eiga erfitt með samkennd og hafa litla sektarkennd yfir því sem þeir gera eða segja.“

Er hægt að bjarga þeim sem beita aðra andlegu ofbeldi? Gera þá betri?
„Það er afar sjaldgæft og fer eftir eðli málsins. Konur, og sérstaklega þær sem eru meðvirkar, hugsa svo oft að það verði hægt að laga ástandið. Og hugsa: Auðvitað mun hann lagast þegar hann kynnist mér og sér hvað ég er ótrúlega frábær. Mín kenning er sú að þetta komi úr Rauðu ástarsögunum og einhverjum bíómyndum þar sem konunni tekst yfirleitt að breyta einhverjum skúrki í draumamanninn. En í raunveruleikanum er það ekki þannig. Gott fólk vandar sig í samskiptum sínum og gerir sitt allra besta til að hafa þau falleg. Stjórnsamir einstaklingar sýna það í öllum sínum samböndum. Ef þú ert í sambandi þar sem þér eru sýndir ofbeldistaktar, farðu þá út úr því. Þeir sem elska þig sýna þér góða og virðingarverða framkomu en þeir sem þurfa að stjórna og meiða sýna þér þá takta mjög fljótlega. Þumalputtareglan er sú að vont fólk meiðir og mun ekki breytast en gott fólk vandar sig öllu jafna í samskiptum sínum.“

Linda segir að með andlegu ofbeldi sé oft búið að brjóta fólk niður en það sé hægt að byggja sig upp aftur, meðal annars með markþjálfun. „Þá er skoðað hvernig maður brást við, hvernig maður hefði getað brugðist við ef maður hefði staðið með sjálfum sér og verið maður sjálfur. Það þarf að setja mörk vegna þess að ef það er eitthvað sem svona sjálfsdýrkendum (e. narcissist) líkar alls ekki, þá eru það mörk. Maður fær alveg að finna fyrir því og þegar maður setur þeim mörk finnst þeim maður bara vera virkilega vondur og vera að særa þá. Oft fara þeir nú bara frekar frá manni en sætta sig við að það sé búið að setja þeim mörk. Sem er vissulega af hinu góða,“ segir Linda kímin.

Að telja sig hafa hitt draumaprinsinn getur reynst varhugavert
Sjálf hefur Linda reynslu af að búa við andlegt ofbeldi og hún segist hafa verið komin á þann stað í sínum meðvirkniveikindum að hún hafi orðið að leita aðstoðar hjá ýmsum aðilum. Hún hafi fundið að hún væri hreinlega að missa tökin á lífi sínu. „Ég var á breytingaskeiðinu á þessum tíma og það var auðvitað ekki til að bæta það,“ segir hún og brosir en þagnar stutta stund.

„Í mínu tilfelli var andlega ofbeldið þannig að fjölskylda mín var útilokuð,“ heldur hún áfram. „Börnin mín voru ekki velkomin og það átti að slíta tengslin við allt og alla sem tengdist mér. Það var stöðugt verið að fylgjast með mér, ég var í raun bara undir eftirliti. Ef ég fór eitthvað ein, til dæmis í vinnustaðateiti, var stöðugt verið að hringja til að tékka á mér. Það var gramsað í skúffunum hjá dóttur minni og í skápum og ég var í raun bara ekki frjáls manneskja. Ég man að ég fór eitt sinn í litla aðgerð og í bílnum á leiðinni á spítalann var búið til rifrildi. Ég var að stela athyglinni. Ég ákvað að fara heim til foreldra minna og jafna mig eftir svæfinguna frekar en að fara heim til mín. Þetta er svo grimmileg framkoma og maður verður svo ofboðslega sár og reiður. Svo hamast maður eins og hamstur í hjóli við að láta allt líta svo vel út á yfirborðinu en undir niðri og innra með manni er allt í molum. Í annað skipti fór ég í stóra aðgerð og þá varð hann fúll og brjálaður vegna þess að ég var ekki tilbúin til að fara út að fá mér ís daginn sem ég kom heim af spítalanum, þótt ég gæti ekki gengið. Ég man hvað þeir sem urðu vitni að þessu urðu skrýtnir á svipinn og ég dauðskammaðist mín fyrir þessar aðstæður í lífi mínu. Ég er afar þakklát fyrrverandi eiginmanni mínum sem hafði sýnt mér hvernig heilbrigt heimilislíf, virðing og væntumþykja er. Annars hefði ég kannski aldrei náð að koma mér út úr þessu. En ég gerði það.“

Linda segir að allir eigi sína sögu og hafi lífsreynslu á bakinu sem þeir hafi margir hverjir ef til vill ekki unnið úr og sitji uppi með skilgreiningar sem hefti þá í lífinu. „Það sem við erum yfirleitt að eiga við eru hugsanamynstrin okkar og skilgreiningarnar sem við setjum á bak við þau. Í rauninni mótast þetta svo snemma á lífsleiðinni að við erum ekkert endilega að átta okkur á því að við séum með þessi mynstur. Ég hef unnið talsvert með viðskiptavinum sem hafa mátt þola andlegt ofbeldi og ég hef séð að við aðlögumst mynstrum og að þau kalla á mynstur sem við þekkjum í undirmeðvitundinni. Þar kemur heilinn okkar til, hann kallar á eitthvað sem er kunnuglegt eða sem hann þekkir. Þannig að manneskja sem er meðvirk mun að öllum líkindum draga til sín aðila sem stjórnar öðrum og/eða er sjálfsdýrkandi vegna þess að slíkur aðili leitar eftir einhverjum sem er meðvirkur. Þessi meðvirki aðili og stjórnsami aðilinn dragast hvor að öðrum eins og segull. Svo heyrum við um þessar konur sem enda alltaf með sömu mönnunum, í sömu aðstæðunum. Það er vegna þess að þær hafa ekki unnið úr skilgreiningum sínum sem koma líklega úr æsku, eins og öll meðvirkni gerir, og þar verður þetta til. Heilinn leitar alltaf að því sem hann þekkir; við þekkjum þessi mynstur án þess að gera okkur grein fyrir því.“

Linda segir að meðvirkar konur geti haft ákveðið atriði í huga sem bendi til að þær ættu að gæta sín þegar þær telja sig hafa hitt draumaprinsinn. „Ef þú hugsar: Vá! Hvað við erum fljót að kynnast. Vá! Hvað við eigum vel saman, og svo framvegis, þá er það hættumerki fyrir meðvirka manneskju eða manneskju sem hefur þurft að tipla á tánum einhvers staðar.“

Vantar jafnvægi
Blaðamaður spyr hvort Linda hafi séð breytingar á þeim hópum sem hafa verið að koma til hennar, frá því hún byrjaði að starfa sem samskiptaráðgjafi og markþjálfi árið 2007 og Linda kinkar kolli. „Já, það er til dæmis oft mikil spenna í hjónaböndum og ég held að það sé vegna þess að við höfum allt of mikið að gera, það vantar jafnvægi. Í dag er mikið um kulnun, sem maður sá ekki áður. Og fólki finnst skömm að því að viðurkenna að það sé að bugast. Það bara heldur áfram í hamstrahjólinu þangað til líkaminn segir hingað og ekki lengra. Það þarf að komast á jafnvægi. Allir græða á því, bæði einstaklingar og fyrirtæki, og þjóðfélagið allt. En fólk er svo fljótt að venjast og aðlaga sig aðstæðunum. Það er þó ekki þar með sagt að við þolum það vel. Fangarnir í fangabúðum Hitlers aðlöguðust aðstæðunum þar en það er ekki þar með sagt að þeir hafi ekki skemmst og orðið veikir.“

Linda segist líka sjá marga sem láta hugsunina og skilgreiningar sínar stoppa sig. „Það er margt sem gerist ekki í lífi fólks af því að það telur sig ekki eiga það skilið en maður fer aldrei lengra en maður leyfir sér að fara og það er innri röddin sem stjórnar því. Ég held líka að það sé verið að meta árangur svolítið skakkt. Eftir háskólagráðum, einkunnum, íþróttaverðlaunum og hversu mörg fjöll er búið að klífa. En hvað er árangur? Er hann ekki að manneskja sem hefur upplifað hræðilega hluti í sínu lífi nái yfirleitt að fara á fætur á morgnana? Að sinna sínu? Að halda fjölskylduheildinni saman og jafnvel stunda sína vinnu? Fyrir mér er það árangur. Það er líka árangur að ala upp virka þjóðfélagsmeðlimi og árangur að eiga góð samskipti, eiga góðan vinahóp. Ég held að við gætum séð breytingar á þessum kulnunaratriðum ef við færum meira að huga að mannlega þættinum.“

„Fangarnir í fangabúðum Hitlers aðlöguðust aðstæðunum þar en það er ekki þar með sagt að þeir hafi ekki skemmst og orðið veikir.“

Hún segist nú búin að missa báða foreldra sína og það sem bæði faðir hennar og móðir hafi viljað var ekki að ná árangri á einhverjum sviðum, öðrum en þeim að fá að umgangast fjölskylduna sem best og vera sem næst henni. Það voru einu kröfurnar. „Ekki að það sé ekki í lagi að hafa metnað og sækja fram en það virðist vera að þegar að endalokum okkar kemur eru það samskiptin okkar sem við hugsum mest út í og hafa skipt okkur mestu máli. Í tilfelli foreldra minna voru það ekki peningar, titlar eða bikarar sem þau sóttust eftir. Það var bara það að fá að umgangast fjölskyldu sína. Ég vil koma þessum mannlega þætti að. Ég held að ef við myndum ná að snúa stefnunni svolítið við núna þá væri það afturkræft sem er að gerast og ég held að við myndum þá sjá ákveðna þætti minnka og jafnvel hverfa, sem eru að kosta okkur hellings peninga. Eins og þessi kvíði barna og alls konar raskanir, þær eru til en ég held að við gætum séð breytingu þar á ef við næðum jafnvægi og settum mannlegheitin meira inn.

Tenging móður og barns nær yfir líf og dauða
Móðir Lindu lést í september í fyrra eftir að hafa greinst með lungnakrabba aðeins fimm mánuðum áður. Linda segist nú hafa misst trúna á heilbrigðiskerfið þar sem átti að senda móður hennar heim fárveika, blinda, með snúinn fót og dauðhrædda, vitandi það að hún væri að nálgast endalokin. „Mér fannst ég upplifa að það vantaði öll mannlegheit. Hvernig þjóðfélag er þetta orðið ef ekki er hugsað um fólkið sem sá til þess að við eigum þetta þjóðfélag sem við eigum. Ef þetta er það sem bíður okkar þegar við erum orðin veik og hætt að geta skaffað þjóðfélaginu þá vil ég ekki verða gömul,“ segir Linda ákveðin. „Ég vil hiklaust að svissneska aðferðin verði tekin upp ef engin breyting verður á þessu. Ég myndi frekar vilja fá sprautuna heldur en að líða eins og ég sé fyrir öllu og öllum og eiga hvergi neinn samastað.“

Linda var hjá móður sinni þegar hún kvaddi og hún segir að það hafi verið ótrúleg upplifun að finna þessa nánu tengingu milli móður og barns, sem hún sé sannfærð um að nái yfir líf og dauða. „Það sem ég upplifði við dánarbeð mömmu var sérstakt. Hún gat sagt mér að pabbi og amma væru komin að sækja hana og ég fann hvernig þetta var, fólk heldur kannski að ég sé kolvitlaus að segja þetta,“ segir hún og hlær létt, „en ég fann hvernig skilin á milli heima voru bara eins og tíbrá. Það voru bara engin skil. Ég hef verið við dánarbeð annarra áður en hef aldrei upplifað þetta áður, ekki einu sinni hjá pabba. Og þarna skildi ég hvað átt er við með því að gefa upp andann því ég fann hvernig mamma gaf eftir anda sinn. Þetta er magnaðasta lífsreynsla sem ég hef orðið fyrir og hún sýndi mér svart á hvítu að það eru engin skil á milli. Ég græt enn og sakna mömmu, stundum koma upp aðstæður þar sem mín fyrsta hugsun er að hringja í mömmu og segja henni frá einhverju … Þannig að hún er í rauninni ekki farin neitt frá mér, hún mun alltaf vera hjá mér.“

„Það sem ég upplifði við dánarbeð mömmu var sérstakt. Hún gat sagt mér að pabbi og amma væru komin að sækja hana.“

Við Linda erum sammála um að við gætum setið langt fram á kvöld að spjalla en bæði förðunardaman og ljósmyndarinn eru mætt á svæðið til að fara að undirbúa myndatöku með Lindu svo það er kominn tími til að slá botninn í viðtalið. Linda segist vilja brýna fyrir fólki að reyna að slaka aðeins á kröfunum sem það geri til sjálfs sín og gæta þess að dvelja ekki í fortíðinni. Tíminn sem við höfum hér á jörð er svo stuttur. „Ástríða mín er að hjálpa fólki að lifa til fulls og geta nýtt þennan stutta tíma sem við höfum á þessari jörð. Tíminn er afstætt hugtak en hann er fljótur að líða. Ég lít svolítið á lífið eins og leiksvið. Það er engin generalprufa; þetta er eina sýningin og það er spurning hvernig stykki maður vill sjá á þessu leiksviði. Er það gamanleikrit? Er það eitthvað dramatískt? Eða eitthvert stórkostlegt verk sem mun lifa endalaust?“

Myndir / Hallur Karlsson
Förðun / Sigurlín Ósk Hrafnsdóttir, förðunarfræðingur hjá Urban Decay

Deila

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 
- Auglýsing -

Orðrómur

Helgarviðtalið

Lestu meira

Nýtt í dag

Harpa og Júlíus selja glæsieignina á Kársnesi

Harpa Þórunn Pétursdóttir, lögfræðingur hjá Orkustofnun, og Júlíus Kemp, kvikmyndagerðarmaður, hafa sett einbýlishús sitt við Kársnesbraut á...

Í fréttum er þetta helst...

Mest lesið í vikunni

- Auglýsing -