Þeim var ekki skapað nema að skilja

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Ástin er ólíkindatól og ýmist höndla menn hana eða hún gengur þeim úr greipum. Allir eiga það þó sameiginlegt að þrá að vera elskaðir og ástfangið fólk geislar venjulega af hamingju þannig að enginn verður ósnortinn. Margar hetjudáðir hafa verið drýgðar í nafni ástarinnar og stórkostlegar ástarsögur reynast ævinlega lífseigari en aðrar frásagnir.

Þótt allir þrái heitast af öllu að hitta stóru ástina í lífi sínu og eyða síðan ævinni með henni bregður svo undarlega við að þær ástarsögur sem flestum eru minnisstæðastar fjalla um ást í meinum eða elskendur sem ekki er skapað annað en að skilja. Rómeó og Júlía láta bæði lífið vegna ættardeilu og Tristan og Ísold fengu ekki notist í lifanda lífi en sagt var að eikur tvær sem uxu á leiðum þeirra sínum hvor megin við kirkjuna hefðu vafið saman greinunum uppi yfir kirkjuþakinu. Þannig náði ást þeirra út yfir gröf og dauða.

Scarlett O’Hara mátti kveðja Rhett Butler en hvort von hennar um að geta fundið ráð til að ná honum aftur var byggð á veikum eða sterkum grunni er lesandanum látið eftir að dæma um. Rick Blaine og Ilsa Lund Laszlo kveðjast á flugvellinum í lok kvikmyndarinnar Casablanca og enn þann dag í dag vöknar áhorfendum um augu þegar göfugmennið sendir konuna sem hann elskar í arma eiginmanns síns því þörf andspyrnuhetjunnar fyrir konuást er meiri er kráareigandans.

Íslenskar ástir

Íslendingar eiga einnig sínar ódauðlegu ástarsögur. Þegar Jón Trausti lýsti því hvernig húsfreyjan mikilláta, Anna á Stóruborg, tekur smalann Hjalta upp í rúm til sín tóku hjörtu margra ungmeyja að slá hraðar. Saga Önnu Vigfúsdóttur og átaka hennar við lögmanninn, bróður sinn, styðst við sannsögulega atburði. Páll hafði vald til að velja eiginmann handa systur sinni vegna þess að faðir þeirra var dáinn. Hann meinaði henni að giftast Hjalta vegna þess að hann var af lágum stigum og meðan þau systkinin tókust á var Hjalti í felum í Paradísarhelli en laumaðist heim á Stóruborg þegar Anna taldi óhætt að taka við honum og hélt áfram að geta börn með húsfreyju. Að lokum gaf Páll sig en þá var Anna orðin roskin og Hjalti beygður og þreyttur af áralangri útlegð.

Ragnheiður Brynjólfsdóttir varð að gjalda ást sína dýru verði. Sonur hennar og Daða var tekinn af henni nýfæddur og hún lifði það ekki að sjá hann aftur. Biskupinn, faðir hennar, hafði neytt hana til að sverja þess eið að hún hefði aldrei verið við karlmann kennd og þegar barnið fæddist níu mánuðum seinna vissi enginn hvort hún hefði svarið rangan eið eða ekki. Saga Ragnheiðar hefur verið Íslendingum hugleikin síðan og Guðmundur Kamban kýs að trúa að hún hafi ekki logið með hönd á helgri bók. Hann lætur hana laumast til Daða nóttina eftir að hún sór eiðinn. Reykvískur miðill var ekki sammála því. Sú kona skrifaði bók um það hvernig Ragnheiður biskupsdóttir hefði sagt henni sannleikann um líf sitt með því að stýra penna sem hún hafði í hönd. Slík ósjálfráð skrift er vel þekkt aðferð látinna til að koma skilaboðum á framfæri.

Hver dáð sem maðurinn drýgði

Stefán frá Hvítadal orti um það í kvæði að hver dáð sem maðurinn drýgði væri draumur um konuást. Víst er að Shah Jahan Mughal hefði ekki byggt hið undurfagra grafhýsi Taj Mahal ef hann hefði ekki elskað konu sína Mumtaz svo heitt. Evrópskir konungar byggðu hallir til að hýsa hjákonur sínar og iðulega voru þær hallir fallegri en þær sem þeir bjuggu í sjálfir. Napóleon byggði höll handa Jósefínu sinni sem henni var fengin til að búa í þegar hann varð að yfirgefa hana og kvænast annarri til að tryggja að hann eignaðist erfingja. Þrátt fyrir skilnað þeirra er sagt að í orrustunni um Pétursborg hafi Napóleon leitt herinn með herópinu: „Fyrir Frakkland, herinn og Jósefínu.“

Ólíklegt er einnig að Ódysseifskviða hefði nokkru sinni orðið til ef París hefði ekki heillast af Helenu fögru og Spörtukonungur ekki elskað hana of heitt til að vilja sleppa henni og því krafist þess að vinir hans og bandamenn sönnuðu tryggð sína með því að aðstoða sig í herför að Trójuborg.

Íslendingar hafa löngum notað orð fremur en gerðir til að lýsa tilfinningum sínum og kvæðið Ferðalok eftir Jónas Hallgrímsson hefur dugað til þess fram á þennan dag að halda nafni Þóru Gunnarsdóttur, stúlkunnar sem varð honum samferða norður eitt sumar, lifandi. Sennilega væri hún gleymd öllum öðrum en afkomendum sínum ef ekki hefði verið leitt að því getum að hún væri stóra ástin í lífi Jónasar og sú kona sem kvæðið er ort til. Ýmsir minni spámenn en Jónas hafa ort um ástina og eru vísur Vatnsenda-Rósu flestum kunnar. Rósa lýsir vel bæði þeirri gleði sem ástin gefur og hvernig sársaukinn nístir þegar ástvinurinn endurgeldur ekki lengur tilfinningar manns. Sigurður Breiðfjörð á einnig nokkrar frábærar ástarvísur og liggur beinast við að minna á stökuna um að ástin hafi hýrar brár en hendur sundurleitar. Önnur er mjúk en hin sár þótt báðar séu heitar. En hvort sem ástin í lífi manna endar sem umfjöllunarefni í sögubókum eða gleymist fljótar en regnið bræðir snjóinn þá er víst að ástin kætir, ástin bætir og ástin grætir.

- Auglýsing -
- Auglýsing -

Athugasemdir

Orðrómur

Lestu meira