„Þeir voru margir sem syrgðu eftir þessa örlagaríku nótt“

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Lífsreynslusaga úr Vikunni Ég hef alla tíð verið berdreymin þrátt fyrir að hafa ekki þroskað þennan hæfileika minn sérstaklega og í gegnum árin hefur mig oft dreymt fyrir tíðindum, sérstaklega sem varða mig og fjölskyldu mína. Draumar eru merkilegt og í raun einstakt fyrirbæri, sem taka ber mark á.

Ég man ótal drauma sem mig hefur dreymt um ævina, enda hef ég lært að þeim ber ekki að taka af léttúð. Þegar okkur dreymir erum við oft að vinna úr eigin reynslu og upplifunum og draumarnir bera okkur gjarnan skilaboð úr hinni öflugu undirmeðvitund. Þeir geta hins vegar líka verið annað og meira. Það hefur reynslan kennt mér.

„Sami draumur sótti endurtekið á mig“

Í minningum mínum kemur fyrst upp draumur sem mig dreymdi aðfaranótt 16. september árið 1961. Tíðin hafði verið slæm og veðrið minnti vel á sig þessa erfiðu nótt. Vindurinn gnauðaði og mér fannst í mér einhver beigur sem ég gat ekki útskýrt eða skilið af hverju stafaði. Ég lá lengi andvaka en leið loks inn í draumalandið. Svefninn varð þó ekki vær. Sami draumurinn sótti endurtekið á mig alla nóttina og sífellt voru mér birt blöð með svörtum ramma og krossi. Í rammanum stóð talan 16.

Ég vaknaði snemma og var þreytt og eftir mig, enda rann þessi óþægilegi draumur mér ekki úr minni allan morguninn. Ég gat þó ekki tengt hann við neitt og kenndi því veðurofsanum um óþægindi næturinnar. Undir hádegi fékk ég skilaboð um að hringja í foreldra mína þar sem ekki hefði náðst í mig. Ég vissi ekki til þess að þeir ættu við mig erindi og þessi sami beigur og ég hafði fundið fyrir kvöldið áður helltist yfir mig af fullum þunga.

Ég tók upp símtólið, hringdi og beið þess sem verða vildi. Ég gleymi aldrei röddinni í mömmu þegar hún tilkynnti mér að bróðir minn væri látinn. Hann varð bráðkvaddur þar sem hann svaf í skála á fjöllum ásamt ferðafélögum sínum. Síðar kom í ljós að ástæðan var hjartaáfall en bróðir minn var ungur og hafði alla tíð verið hraustur fjallagarpur. Hann var yngstur ferðalanganna í þessari síðustu ferð vinanna sumarið 1961 og þeir voru margir sem syrgðu eftir þessa örlagaríku nótt.

Máttlaus á miðilsfundi

Þremur dögum síðar dreymdi mig að látin föðursystir mín kom til mín og sagði: „Ekki hafa áhyggjur, bróðir þinn verður jarðaður við hliðina á mér,“ en áður hafði okkur fjölskyldunni verið sagt að ekkert pláss væri laust í þessum grafreit, þar sem afi minn og amma, ásamt föðursystur hvíldu. Á síðustu stundu vorum við látin vita að hægt yrði að jarða hann hjá þeim.

„Ég vissi ekki hverju ég ætti að trúa og fannst ég ekki geta rætt reynslu mína við neinn.“

Nokkrum dögum eftir jarðarförina fannst mér sem bróðir minn kæmi að rúmi mínu og brosti til mín. Hann hvarf jafnskjótt aftur en í stað hans kom kona, sem ég þekkti ekki, að rúminu. Hún leit hlýlega á mig, beygði sig niður til mín og hvíslaði svo: „Hvers vegna þjálfar þú ekki upp þennan hæfileika sem þér er gefinn?“ Síðan leið hún aftur frá. Á meðan á öllu þessu stóð fannst mér ég vera einhvers staðar á milli svefns og vöku en minningin um bróður minn og konuna var afar skýr og er það enn þann dag í dag.

Ég vissi ekki hverju ég ætti að trúa og fannst ég ekki geta rætt reynslu mína við neinn. Ég fann ekki hjá mér löngun eða kraft til að þroska þessa hæfileika mína frekar en mundi þó alltaf orð konunnar. Tveimur árum síðar fór ég á miðilsfund með vinkonu minni. Við fengum okkur sæti og ég virti fyrir mér rökkvað en notalegt herbergið áður en miðillinn, sem var kona, gekk inn.

Fundurinn hófst og fljótlega fann ég að ég fór að missa tilfinningu og varð á skömmum tíma máttlaus upp að mitti. Ég gat alls ekki hreyft mig. Miðillinn tók strax eftir þessu, leit hughreystandi á mig og sagði svo: „Æ, ertu svona, vinan. Ekki vera hrædd við þetta. Það líður hjá.“ Tilfinningin leið vissulega hjá og í nokkurn tíma eftir þetta varð ég ekki fyrir upplifunum sem ég gat ekki útskýrt. Mér varð þó oft hugsað til miðilsins, sem hafði virst skilja hvernig mér leið og konunnar hlýlegu úr draumnum.

Tíðindi við heimkomu

Rúmum tuttugu árum síðar hafði ég verið á mánaðarlöngu ferðalagi um mið- og suðurhluta Ameríku og eðlilega verið í litlu sambandi við fjölskyldu mína þann tíma. Örfáum dögum fyrir heimför fór ég að finna fyrir undarlegri tilfinningu. Það var eins og ég hefði einhvern beyg og upp í hugann kom nóttin örlagaríka árið 1961. Um nóttina dreymdi mig föður minn og var hann gulur á lit og allur mjög veiklulegur. Sömu nótt dreymdi mig einnig systur mína sem var gift frönskum manni. Þau höfðu verið búsett í Frakklandi í mörg ár og þótt við systurnar héldum góðu sambandi hittumst við sjaldan á þessum árum.

„Ég fékk mér sæti hjá henni og var viss um að mín biðu frekari tíðindi. Því miður hafði ég rétt fyrir mér.“

Í draumnum var systir mín fótbrotin og mér fannst sem hún mjakaði sér áfram á hækjum einhvers staðar í mikilli eyðimörk. Þessir draumar gerðu mér bilt við og mér leið illa morguninn eftir enda vissi ég ekki betur en að allt væri í lagi hjá bæði föður mínum og systur. Ég var óróleg og ákvað að finna síma til að hringja í móður mína, þótt ekki væri nema til að láta vita af mér. Hún var glöð að heyra í mér, lét sem ekkert væri og kvaðst hlakka til að sjá mig. Mér fannst gott að tala við hana en ónotatilfinningin fylgdi mér út ferðalagið.

Þegar ég kom heim aftur flýtti ég mér til foreldra minna. Ég hafði saknað þeirra en var samt dálítið stressuð þegar ég barði að dyrum. Systir mín kom til dyra. Við föðmuðumst og hún sagði mér að hún væri skilin og hefði verið á svolitlu flakki á milli vina sinna í Evrópu til að jafna sig. Við gengum svo inn í stofu þar sem móðir mín beið okkar. Ég fékk mér sæti hjá henni og var viss um að mín biðu frekari tíðindi. Því miður hafði ég rétt fyrir mér. Hún tilkynnti mér að faðir minn væri kominn með krabbamein og nokkrum mánuðum síðar var hann allur. Sjálfsagt hefur bróðir minn tekið vel á móti honum.

Kveðja hrafnsins

Í seinni tíð hef ég verið opnari fyrir boðskap drauma minna. Nokkrum mánuðum áður en ég tók þá ákvörðun að skilja við eiginmann minn dreymdi mig að hrafn settist í eldhúsgluggann hjá mér, en ég hafði haft það fyrir sið að ganga út á holtið skammt frá heimili mínu og tala við hrafnana. Hrafninn var kominn þarna í gluggann til mín til að kveðja mig og þakka fyrir samveruna. Eftir drauminn vissi ég að ákvörðunin um skilnað hafði þegar verið tekin.

Ég er ekki hrædd við draumana. Þeir gera mér ekki mein heldur hjálpa mér að skilja betur sjálfa mig og líf mitt. Þrátt fyrir orð hlýlegu konunnar hef ég ekki þroskað hæfileika minn markvisst en með árunum hef ég orðið opnari fyrir því sem draumarnir hafa fram að færa. Þeir eru í raun aðeins leið til að bera mér skilaboð frá mínum innsta kjarna eða frá æðri máttarvöldum sem ég kann ekki frekari deili á. Hvað sem um ræðir þá geta þeir ekki verið af hinu slæma. Þeir tilheyra mér og eru órjúfanlegur hluti af mér.

- Auglýsing -

Athugasemdir

Orðrómur

Lestu meira