Nýjasta lína Collina Strada er einstök en flíkur línunnar eru að mestu gerðar úr textíl sem sóttur var á fatamarkað í Ghana.
Collina Strada hefur lengið verið leiðandi í umhverfisvænum lausnum. Bandaríski hönnuðurinn Hillary Taymour er konan á bak við Collina Strada, hún reynir að vekja fólk til umhugsunar með hönnun sinni.
Hennar nýjasta lína er gerð fyrir verslunina Browns í London og inniheldur flíkur sem eru gerðar úr endurnýttum textíl, nánar tiltekið notuðum flíkum sem keyptar voru á Kantamanto-markaðinum í borginni Accra í Ghana. Það merkilega er að fötin komu upprunalega frá Bandaríkjunum. Þessi nýja fatalína er ádeila á textíliðnaðinn og mengunina sem fylgir því að senda notuð föt sem Vesturlandabúar eru hættir að nota þvers og kruss um hnöttinn.
Föt Vesturlandabúa í landfyllingum í Ghana
Línuna vann Taymour í samstarfi við The OR samtökin, góðgerðasamtök sem vinna gegn skaðlegum áhrifum innan tískubransans
Með línunni vilja þau varpa ljósi á þá staðreynd að um 15 milljón flíkur rata frá Norður-Ameríku á Kantamanto-markaðinn í hverri viku, til sölu eða endurvinnslu. En um 40% textílsins endar í raun í landfyllingum í Ghana eða í hafinu við strendur Ghana.
„Mig langaði að vekja athygli á samtökunum OR með því að hanna flíkur úr notuðum textíl,” segir Taymour í samtali við Wallpaper. „Allar flíkur línunnar eru gerðar út notuðum bolum sem keyptir voru í Ghana og hefðu líklega endað á haugunum,” útskýrir Taymour sem kveðst hafa farið í gegnum gríðarlega mikið magn textíls í leit að nothæfu efni við gerð línunnar. Textíllinn var svo handlitaður og saumaður í New York.
Hér fyrir neðan má sjá myndband sem verslunin Browns gerði þar sem Taymour segir frá aðferðum sínum.