Uppáhaldskjólahönnuðir hertogaynjunnar af Cambridge |

Uppáhaldskjólahönnuðir hertogaynjunnar af Cambridge

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Margar konur kunna mjög vel við að klæðast kjólum. Þeir eru vissulega þægilegir og eitt af því góða við slíkan klæðnað er að auðveldlega er hægt að breyta hversdagslegum kjól í spariklæði með réttum fylgihlutum. Ein þeirra kvenna sem ber kjóla mjög vel er Katrín, hertogaynja af Cambridge. Nokkrir breskir kjólahönnuðir eru í miklu uppáhaldi hjá henni.

Þessi vörumerki eru svokölluð „slow fashion“ eða hægunnin tíska. Það þýðir að hönnuðurnir leggja sig fram við að vinna á sjálfbæran hátt. Efnin eru valin með tilliti til þess að kolefnasporið sé sem minnst, sniðin eru klassísk svo flíkin endist lengur og hún er unnin á staðnum.

Meadows

Meadows er bandarískt fyrirtæki en á sér systur í Bretlandi, L.F. Markey. Merkið er þekkt fyrir rómantískan, gamaldags fatnað. Sniðin eru kvenleg og falleg, útsaumur algengt skraut á blússum og kjólum. Mynstruð efni, fellingar og pífur eru sömuleiðis ómissandi hjá Meadows. Þau segja að fatalínur þeirra sæki innblástur í þjóðsögur og ævintýri.

Rat & Boa

Rat & Boa hannar fyrir djarfar nútímakonur. Vinkonurnar Valentina Muntoni og Stephanie Cara Bennett eru stofnendur og eigendur fyrirtækisins. Þær vilja skapa kvenleg og falleg föt, kjóla sem draga fram helstu kosti kvenlíkamans og fegra hann. Einkunnarorð þeirra snúast um að skapa minningar og þær vilja styrkja konur, efla sjálfstraust þeirra og opna augu þeirra fyrir eigin fegurð. Að auk leggja þær sig fram um að velja náttúruleg efni og huga vel að umhverfisvernd í allri sinni starfsemi.

Seraphina

Tímalaus fegurð er markmið Seraphinu. Sumarlína hennar er mjúk og hlýleg. Mildir pastellitir ríkjandi, rendur og blómamynstur. Í kjól frá Seraphinu er hægt að mæta í vinnuna, fara í kokteilboðið, spássera niður í bæ og skella sér í brúðkaup. Alls staðar eiga þeir jafnvel við.
Tryggðu þér áskrift að Vikunni í vefverslun >

Deila

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 
- Auglýsing -

Orðrómur

Helgarviðtalið

Lestu meira