Úps, svartur köttur hljóp yfir veginn!

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Föstudagurinn þrettándi, fullt tungl og svartur köttur hleypur yfir veginn. Er þetta nóg til að um þig fari hrollur og þú akir óvenjuvarlega til vinnu? Ef svo er gæti verið áhugavert fyrir þig að skoða uppruna ýmiss konar hjátrúar og hvers vegna hún er svo lífseig.

Sumir fussa og sveia þegar hjátrú kemur til tals og ganga vísvitandi undir stiga hvenær sem færi gefst. Þeir telja þetta allt tómar bábiljur og enga ástæðu til að tengja eitthvert óhapp við þá staðreynd að svarti köttur nágrannans gekk yfir veginn þegar þú varst að leggja af stað. En hvers vegna óttast fólk töluna þrettán? Og hvaðan kemur sú trú að svartir kettir boði ógæfu? Er nokkurt mál að brjóta spegil? Fylgir því virkilega sjö ára ógæfa?

 „Í fornri trú þeirra var veran Cat Sith ógnvekjandi stór svartur köttur á sveimi um jörðina þess albúin að fanga sálir manna þegar þeir létust.“

Fyrst af öllu er vert að kíkja á töluna þrettán. Það er nokkuð mismunandi milli menningarsvæða hvers vegna hún hefur svo slæmt orðspor en meðal þeirra skýringa sem varpað hefur verið fram er að samkvæmt norrænni goðafræði er Loki þrettándi ásinn. Hann var auðvitað ólíkindatól og hrekkjóttur mjög svo að sjálfsögðu boðar tala hans ekkert gott. Aðrir eru sannfærðir um að uppruni þessarar hjátrúar sé sá að meðan á síðustu kvöldmáltíð Jesús stóð sátu hann og lærisveinarnir tólf saman til borðs. Upphaflega hafi ógæfan aðeins átt að henda ef þrettán manns voru saman við kvöldverðarborð en það svo yfirfærst á allt annað í lífinu. Í talnaspeki er þrettán lægra sett en aðrar tölur því hún fylgir tólfunni, en hún er fullkomin tala, heilög segja sumir.

Óhappdagurinn föstudagur

En hvers vegna eru föstudagar óhappadagar og þá sérstaklega ef þá ber upp á þann þrettánda hvers mánaðar? Jú það er vegna þess að föstudagar voru að fornu kenndir við þær Freyju og Frigg, fredag eða fjárdagur er sagður vísa til þeirra en stundum voru dagarnir einfaldlega nefndir Freyjudagur eða Friggjardagur. Þær tvær réðu ástum og frjósemi, önnur var ástargyðjan en hin gyðja heimilisins, fjölskyldukærleikans. Það var oft viðkvæmt jafnvægi náttúrunnar sem réði hvort menn fengju uppskeru eða ekki og þessar tvær tóku því ekki vel væri brotið gegn þeim. Þess vegna væri best að halda sig í góðu bókum þeirra á föstudögum.

Kristnir menn halda því hins vegar fram að Jesús hafi verið krossfestur á föstudegi og það sé ástæða fyrir því að þetta sé engin gæfudagur. Auk þess er sagt að í Róm til forna hafi tíðkast að dæmdir fangar væru teknir af lífi á föstudögum. Sé það svo er kannski ekki undarlegt að við daginn hafi fests einhver neikvæður stimpill.

 „Aðrir eru sannfærðir um að uppruni þessarar hjátrúar sé sá að meðan á síðustu kvöldmáltíð Jesús stóð sátu hann og lærisveinarnir tólf saman til borðs.“

Lengi hafa menn haft trú á því að himintunglin hafi áhrif á líf fólks hér á jörðu. Uppruna stjörnuspeki má rekja til Egypta til forna. Þar var því trúað að tunglið hefði mikið að segja um bæði líf fólks og annarra vera. Til dæmis var ekki sama hvernig tunglstaða var þegar sáð var og uppskorið. Þeir fylgdust einnig náið með stöðu plánetnanna við fæðingu barns og fleira. Inkar og Mayar ástunduðu einnig stjörnuspeki og talið er að hún hafi verið hluti af drúídatrú. Fullt tungl á að leysa úr læðingi alls konar tilfinningar og ástríður. Það getur svo leitt til ýmissa vandamála. Hvort það er rétt er ómögulegt að segja en margir telja að á fullu tungli fari ýmislegt af stað.

Speglar og kettir

Sú hjátrú sem við þekkjum hvað flest er að það boði sjö ára ógæfu að brjóta spegil. Hana má rekja til Rómverja en þeir trúðu því að sál manna mætti fanga í spegilmynd hans og ef spegillinn brotnaði væri sálin föst þar að eilífu. Aðrir hafa talið að þetta hafi einfaldlega verið praktík. Speglar voru dýrir í framleiðslu og miklar gersemar. Þetta hafi verið tengt við þá til að tryggja að menn færu varlega með þess háttar verðmæti.

Svartir kettir hafa á sér illt orð. Þeir fylgdu nornum á miðöldum og allir vita jú að skjótist einn slíkur yfir veginn fyrir framan þig er ekki von á góðu. Sú trú á rætur að rekja til Kelta. Í fornri trú þeirra var veran Cat Sith ógnvekjandi stór svartur köttur á sveimi um jörðina þess albúin að fanga sálir manna þegar þeir létust. Ef henni tókst að hlaupa yfir líkið áður en guðirnir næðu að sækja sálina var voðinn vís. Ekki undarlegt að enginn vildi að smækkuð útgáfa af þessum ógnvaldi skytist í veg fyrir þá.

En við vitum að eigi menn von á að einhver ósköp muni yfir þá ganga er mjög líklegt að það gangi eftir. Rétt eins og áhrif lyfleysu geta verið öflug og jákvæð haldi menn að þeir séu að taka virkt meðal. Sama máli gegnir um þetta og allt annað. Það er gott að halda í bjartsýnina og vera ávallt varkár.

 

 

 

- Auglýsing -

Athugasemdir

Lestu meira

Litlir fuglar á vappi um safnið

Myndlistarmaðurinn Sigurbjörn Helgason hefur komið sér fyrir í vinnustofunni í safnbúð Hönnunarsafns Íslands. Þar mun hann nýta tímann...

Ólöf Kristín stýrir Listasafni Reykjavíkur áfram

Ólöf Kristín Sigurðardóttir hefur verið endurráðin til fimm ára sem forstöðumaður Listasafns Reykjavíkur.„Undir hennar stjórn hefur tekist...