„Var dauðhrædd við að fólk myndi hafna mér“

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Það kannast margir við rödd útvarpskonunnar Valdísar Eiríksdóttur, sem er betur þekkt sem Vala Eiríks, og  hefur starfað á FM957 í rúm fimm ár. Rödd Völu er nú farin á óma á fleiri útvarpsstöðvum en hún var að senda frá sér lagið Dulúð fylgir dögun.

„Lagið fjallar um það sem þú þarfnast að það fjalli um, mig langar að fólk geti túlkað lagið á sinn hátt,“ segir Vala aðspurð um hvað lagið fjalli um. „Fyrir mér fjallar lagið um að sleppa takinu og treysta því að lífið leiði mig þangað sem mér er ætlað að fara. Ég trúi því núna að allt gerist af ástæðu. Það urðu alveg svakalegar breytingar á mínu lífi þegar ég fór að tileinka mér þetta viðhorf, að trúa því að hlutir gerist af ástæðu. Þá fór ég að bjóða óvænt ævintýri velkomin.“

Vala segir að á sínum yngri árum hafi hún verið allt önnur en hún sé í dag. „Ég átti erfitt með að sleppa takinu á erfiðum upplifunum og velti mér mikið upp úr eigin vanlíðan. Ég glímdi við þunglyndi og önnur andleg veikindi,“ útskýrir Vala.

„Ég átti erfitt með að sleppa takinu á erfiðum upplifunum og velti mér mikið upp úr eigin vanlíðan.“

„Um leið og ég sætti mig við það óumflýjanlega og fór að leyfa hlutunum að gerast af sjálfu sér þá fór mér að líða betur, þegar ég fór að leyfa mér að sleppa takinu,“ segir Vala en tekur fram að þetta eigi vissulega ekki við um alla sem glíma við þunglyndi. „Fyrir mitt leyti þá hjálpaði það mér að setja traust mitt á alheiminn og sjá möguleikana sem felast í því að brotna, það er þá sem við fáum tækifæri til að setja okkur saman á ný og sleppa þeim brotum sem við þörfnumst ekki lengur,“ útskýrir Vala.

„Þetta var svakalegur vendipunktur, þegar ég hætti að hafa áhyggjur af öllum heimsins vandamálum og lærði að þú hefur ekki stjórn á neinum nema sjálfri þér. Svo lengi sem þú kemur fram við annað fólk og sjálfa þig af heiðarleika og gæsku þá verður þetta allt í lagi. Í dag er þungu fargi af mér létt og það er gott að geta verið svolítið kærulaus.“

Vala segir að áður fyrr hafi hún verið fullkomunarsinni á margan hátt en ekki í dag. „Það er í rauninni andstæðan við það sem ég er í dag, ég fer frekar kæruleysislega í hlutina núna, það fer samt auðvitað eftir aðstæðum. Þegar kemur að vinnu og verkefnum þá vil ég gefa 100% í það, ef ég finn að það er eitthvað sem ég get gert betur þá finnst mér erfitt að skilja við verkefnin. Á sama tíma finnst mér hráleiki fallegur.“

Eftirsjá vegna erfiðleikanna sem fjölskyldan gekk í gegnum

Vala glímdi við þunglyndi, anorexíu og búlimíu sem unglingur. „Árið 2006, þegar ég var 14 ára, var ég lögð inn á BUGL og eftir meðferð í eitt ár var ég komin úr þyngdinni sem var talin vera lífshættuleg. Eftir að hafa fengið þessa læknishjálp og meðferð tók mikil vinna í andlegu hliðinni við, sú vinna tók nokkur ár.“

Hún segir fjölskyldu sína hafa verið einstaklega skilningsríka á þessum krefjandi tímum. „Þetta reyndi á alla og mamma kom til dæmis með mér suður með flugi einu sinni í viku þegar ég þurfti að mæta í viðtal og alls konar mælingar á BUGL,“ segir Vala.

Eftir að Vala tileinkaði sér þetta nýja viðhorf, að sætta sig við staðreyndir og það sem hún fær ekki breytt hætti hún að horfa í baksýnisspegilinn. Hún hætti að eyða tíma í að hafa áhyggjur af því sem ekki verður breytt en það er þó eitt sem situr í henni að eigin sögn.

„Varðandi veikindin mín þá er það ekkert sem ég myndi vilja breyta, þau mótuðu mig og gerðu mig að þeirri manneskju sem ég er í dag. Veikindin kenndu mér ýmislegt en ef ég mætti taka eitthvað til baka þá er það það sem fjölskyldan mín gekk í gegnum þegar ég var veik. Þetta tímabil reyndi auðvitað ofboðslega mikið á fjölskylduna og ég vildi að hún hefði ekki þurft að ganga í gegnum þetta. Ég get rétt ímyndað mér hvað er vont að standa bara hjá og geta ekkert gert,“ útskýrir Vala. Hún segir fjölskyldu sína hafa verið valdlausa á þessu tímabili og að líðan fjölskyldunnar hafi verið sett til hliðar á meðan hún náði bata.

„Þetta tímabil reyndi auðvitað ofboðslega mikið á fjölskylduna og ég vildi að hún hefði ekki þurft að ganga í gegnum þetta.“

Hún bætir við að það sé góð tilhugsun að núna séu breyttir tímar. „Þau hafa litlar áhyggjur af mér núna og treysta mér. Það er ofboðslegur léttir fyrir mig, að vita til þess.“

„Ég er komin á ótrúlega góðan stað,“ segir Vala. Mynd / Hallur Karlsson

Vegna þess hve mikil áhrif veikindi Völu höfðu á hennar nánustu fjölskyldu hefur verið þörf á ákveðnu uppgjöri undanfarin ár. „Eins og með stóru systur mína sem er svo æðisleg og fannst hún alltaf þurfa að bjarga öllu og passa upp á að mér liði vel. Hún var alveg ótrúleg í þessu ferli en fékk sjálf ekki nógu mikla aðstoð meðan á veikindum mínum stóð. Við tölum opinskátt um þetta í dag og það hafa verið ýmsar tilfinningar sem hún þurfti að gera upp vegna þess að hún setti sig til hliðar á meðan ég náði bata. Ég var reið út í sjálfa mig út af því og þess vegna er svo gott að geta talað opinskátt um þetta í dag. Hún er besta vinkona mín og er í dag ekkert hrædd við að ræða þetta tímabil og það sem hún gekk í gegnum,“ segir Vala um systur sína sem er einu og hálfu ári eldri en Vala. Hún segir ómetanlegt að geta rætt málin hispurslaust við hana í dag.

Aðspurð hvort að hún sé á góðum stað í dag svarar Vala: „Já, algjörlega. Ég er komin á ótrúlega góðan stað. Ég er meira að segja búin að bæta á mig í COVID,“ segir hún og hlær. „Og mér finnst það bara vera minnsta mál í heimi,“ segir Vala og tekur fram að það sé mikil breyting frá því sem var áður. „Núna er ég farin að geta horft á þessa hluti eðlilegum augum. En auðvitað er alltaf ákveðin hætta á bakslagi, ég er í áhættuhóp og gæti veikst aftur en mér finnst ég vera komin á eins góðan stað og hægt er, líkamlega og andlega,“ segir Vala.

Vala fór með sigur úr býtum í keppninni Allir geta dansað í fyrra. Hún tekur fram að vegna mikilla dansæfinga á því tímabili hafi hún grennst og þá hafi hún áttaði sig á að það þyngdartap gæti orðið til þess að það yrði bakslag. „Ég hugsaði þetta mikið þá, að maður læknast aldrei alveg af þessum sjúkdómi en um leið fékk ég staðfestingu á því að ég er á frábærum stað hvað varðar heilbrigða líkamsímynd.“

Auðmjúk eftir dvölina í Suður-Afríku

Vala segir veikindin hafa haft markandi áhrif á líf sitt. Spurð út í hvað annað hafi mótað hana í lífinu segir Vala: „Þetta er kannski algjör klisja en það sem hefur mótað mig mest er fjölskyldan mín og fólkið mitt. Það að verða móðursystir markaði mig líka á rosalega sérstakan hátt. Í dag skilgreini ég mig sem frænku fram yfir flest allt annað.“ Hún segir ferðalög og innsýn inn í aðra menningarheima einnig hafa haft mótandi áhrif á sig.

„Ég fór í sjálfboðastarf til Suður-Afríku árið 2014 sem hafði rosaleg áhrif á mig og ég tók allt aðra stefnu í lífinu eftir það ævintýri. Þar var ég að vinna á griðastað fyrir ljón og önnur stórkattardýr sem mér þótti ofboðslega gaman,“ segir Vala sem er mikill dýravinur.

View this post on Instagram

Góđan daginn, hjartađ

A post shared by Valdís Eiríksdóttir (@valaeiriks) on

„Dýravernd skiptir mig miklu máli enda var ég alin upp með það að leiðarljósi að velferð dýra skiptir ekki minna máli en velferð okkar mannfólksins. Mamma og pabbi ólu okkur systurnar þannig upp að við eigum að koma vel fram við alla og standa upp fyrir þeim sem þurfa á því að halda, sérstaklega þeim sem hafa ekki eigin rödd. Vinnan með dýrunum hafði mótandi áhrif á mig en líka það að upplifa allt annan menningarheim þar sem mannréttindi eru ekki komin eins langt og hér á Íslandi. Þar sem ég dvaldi var bara litið á svart fólk sem vinnufólk og ég átti rosalega erfitt með það, það ávarpaði mig ekki með nafni, ég var bara „miss“ fyrir þeim. Þessi reynsla dró mann niður á jörðina og kenndi mér þakklæti og auðmýkt, hún vakti líka upp svolitla reiði hjá mér. Ég áttaði mig þarna á hvað ég er rosalega heppin.“

Nóg af göllum

Þeir sem spjalla við Völu sjá eflaust flestir strax að hún er einlæg og jákvæð. Aðspurð hverjir séu hennar styrkleikar til viðbótar við þessa jákvæðni sem hún hefur tileinkað sér segir hún: „Mínir kostir eru að ég er bjartsýn og frjálslynd, ég vil meina það alla vega. Ég tek fólki eins og það er og dæmi það ekki. Ég held og vona að fólk geti verið það sjálft í kringum mig, ég bið að minnsta kosti ekki um neitt annað frá fólki,“ útskýrir Vala.

„Í dag er ég lífsglöð og það er engin gríma. En auðvitað setur maður sjálfa sig stundum í svolítinn karakter, ég vinn náttúrlega á FM 957,“ segir Vala og skellur upp út. „Um leið og ég hætti að reyna að vera einhver sem ég hélt að ég ætti að vera þá small allt hjá mér. Fyrst þegar ég fór að vera ég sjálf þá fór ég líka að fá betri viðtökur í útvarpinu.“

„Ég er rosalega ástsjúk og þarf mikla ást og athygli.“

Spurð út í galla segir Vala hlæjandi: „Ég á nóg af þeim.“ Hún segist vera kærulaus en tekur fram að það geti líka verið kostur. „Svo get ég verið fljótfær og oft eru rosalega miklar andstæður hjá mér. Ég er rosalega ástsjúk og þarf mikla ást og athygli. Ég er skapmikil en samt skapgóð. Réttlætiskenndin stýrir mér og hefur oft komið mér í vandræði,“ segir Vala. Hún bætir við að hún sé líka óþolinmóð.

„Núna er ég til dæmis rosalega óþolinmóð varðandi það að halda áfram að senda frá mér meiri tónlist.

Ekki hægt að vera allra

Vala segir tónlistina vera sína þerapíu. „Ég vinn úr bæði góðum og slæmum tilfinningum með tónlistinni, með því að setjast fyrir framan píanóið, þannig að ég á mikið af efni sem mun aldrei heyrast og er bara eitthvað sem ég er að vinna úr.“

Vala segir að nýja lagið Dulúð í dögun hafi verið nánast tilbúið ofan í skúffu í tvö ár áður en hún gaf það loksins út. Hún viðurkennir að hafa skort kjarkinn til að senda það frá sér og að hún hafi verið hrædd við höfnun.

„Það var mjög stressandi fyrir mig að senda lagið frá mér. Maður er alltaf hræddur við viðbrögðin og það er kannski helsta ástæðan fyrir að ég hef ekki farið af stað. Ég var dauðhrædd við að fólk myndi hafna mér. Það var bara núna nýlega að ég fann að ég var tilbúin og sætti mig við að sumir kunna að meta tónlistina mína og aðrir ekki, ég reyndi allt of lengi að þóknast öllum en það er bara ekki hægt að vera allra,“ segir Vala.

Eftir að hafa hikað lengi segir hún ánægjulegt að fá þessar góðu viðtökur á laginu. „Viðtökurnar hafa verið fram út björtustu vonum. Það er svo gaman að sjá að það nenna fleiri að hlusta á tónlistina mína heldur en bara mamma og pabbi,“ segir hún og hlær. „Það færir mér alveg brjálaða hamingju.“

Mynd / Hallur Karlsson

Vala segist ótrúlega sátt við útkomuna. „Ég er svolítið hissa hvað mér  líður ótrúlega vel með þetta. Mér finnst lagið vera 100% ég. Það er svo gott, það gerist svo oft að einstaklingur byrjar í tónlist og er algjörlega trúr sjálfum sér og svo um leið og hann leyfir öðrum að fara að pota í sig og hafa of mikil áhrif á sem hann er að skapa þá missir tónlistin eitthvað. Ég finn alla vega að þetta lag er alveg ég í gegn,“ segir Vala.

Rosaleg dramadrottning

Dramatíkin ræður ríkjum í myndbandinu í Dulúð fylgir dögun. Þegar hún er spurð út í hvort hún sé dramatísk svarar hún hiklaust játandi. „Já, ég er það. Ég get ekki neitað því. Ég er rosaleg dramadrottning og upplifi allar mína tilfinningar mjög sterkt, bæði góðar og slæmar. Systir mín og kærastinn minn eru oft að benda mér á að ég fari aldrei neinn milliveg í mínum tilfinningum. Það var rosalega gaman að setja dramatísku tilfinningarnar mínar í svona búning,“ segir Vala og vísar í nýja lagið og myndbandið.

„Ég er rosaleg dramadrottning og upplifi allar mína tilfinningar mjög sterkt.“

Spurð út í hvenær sé von á meiri tónlist frá Völu segir hún að fjármagn hafi mikið að segja. „Ég á dálítið af efni til og ég er gott sem tilbúin með næsta lag. Um leið og ég hef fjármagn til að komast aftur í stúdíó þá geri ég það. Það er kostnaðarsamt að gefa út tónlist en þetta er með skynsamlegri hlutum sem ég hef eytt í. Ég vona að ég muni ná að gefa út eitthvað meira fyrir jól,“ segir Vala.

Skot úr myndbandinu við lagið Dulúð fylgir dögun. Mynd / Facebook

Hún hikar áður en hún segir frá lagi sem hún er að vinna að. „Það er lag sem ég er svolítið stressuð með að senda frá mér, það mun örugglega stuða einhverja. Það er svolítil ádeila á þennan bransa,“ segir Vala og á við fjölmiðla-, tónlistar- og skemmtanabransann eins og hann leggur sig. „Ég hef alltaf upplifað mig aðeins fyrir utan hann og eins og ég passi ekki alveg inn í þennan bransa, þar sem ég þyki stundum dálítið skrítin, en ég er hætt að reyna að dempa það og farin að vera bara stolt af því,“ segir Vala. Hún segir að með umræddu lagi vilji hún varpa ljósi á hvernig bransinn á Íslandi er og hvernig ákveðnir einstaklingar innan hans koma fram við aðra. Hún segir sýndar- og yfirborðsmennsku gjarnan leika stórt hlutverk. „Þegar réttu litir fólks koma í ljós á bak við tjöldin og þegar fólk lítur niður á aðra, ég á erfitt með það.

Lag Völu, Dulúð fylgir dögun, má hlusta á á bæði Spotify og YouTube.

- Auglýsing -

Athugasemdir

Orðrómur

Lestu meira