„Við geðsjúklingarnir erum langflest bara Jón og Gunna“

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Silja Björk Björnsdóttir lifði af sjálfsvígstilraun 21 árs að aldri og hefur valið að nota reynslu sína, áföllin í lífinu og sjúkdóminn sem er hluti af henni til að opna umræðuna um geðrænan vanda og geðheilbrigði. Hún segir fordóma og skömm fylgifiska andlegra veikinda, þó umræðan í dag sé mun opnari og ríkari af samkennd, en þegar hún veiktist fyrir 11 árum. Silja Björk situr í stjórn Geðhjálpar, þar sem hennar baráttumál er að opna umræðuna um sjálfsvíg, svipta skömminni af þeim og efla forvarnir, og segir hún að mikilvægt sé að ræða andlegt heilbrigði jafnt og líkamlegt heilbrigði.

„Mér finnst mikilvægt að einstaklingur viti að alveg sama hvað er í gangi á hausnum á honum, þá er hann aldrei einn með þessar hugsanir. Þú ert aldrei einn, það er alltaf einhver í kringum þig, það eru alltaf bjargráð, það eru alltaf úrræði, og það er alltaf hægt að leita að ljósinu sem er í enda ganganna,“ segir Silja Björk. „Við þurfum að heyra fleiri sögur af fólki sem lifir með geðsjúkdómi, af fólki sem hefur lifað af sjálfsvígstilraunir. Við þurfum að opna umræðuna um geðrækt.“

Silja Björk er fædd 1992 á Akureyri og segir hún æsku hennar hafa verið frábæra, og gott að alast upp í heimabænum, en foreldrar hennar og fleiri ættingjar búa þar enn þann dag í dag. Sjálf flutti hún til Reykjavíkur 2013 í kjölfar áfalls og afleiðinga þess og segir hún áfallið kristalla kosti, og jafnframt galla þess að alast upp í litlu samfélagi.

„Það er bara þannig með þessa íslensku bæi og kannski bara Ísland í heild. Utanumhald, vinskapur og að þekkja alla getur verið svo gott, en getur á sama tíma verið svo erfitt og flókið sérstaklega fyrir 11 árum þegar ég veiktist þegar umræðan um geðsjúkdóma var á allt öðrum stað og skilningurinn var miklu takmarkaðri,“ segir Silja Björk, sem var farþegi í bíl 17 ára gömul, með tveimur ölvuðum strákum ári eldri en hún, og lentu þau í árekstri um miðja nótt í september, viku áður en Silja Björk hóf nám í öðrum bekk í menntaskóla.

„Þetta var hræðilegt slys og mildi að við skulum hafa sloppið á lífi og í heilu lagi. Slysið varð mikið á milli tannanna á fólki eins og er í litlum bæ þegar eitthvað gerist og það komu upp alls konar sögusagnir um eiturlyfjanotkun, nauðgun og ég veit ekki hvað, sem var enginn fótur fyrir. Og fyrir 17 ára ungling er rosalega erfitt að takast á við þetta. Ekki nóg með að þurfa að takast á við það að hafa sýnt þann dómgreindarbrest að fara upp í bíl með drukknum ökumanni, áttað mig á því að þeir voru drukknir og ekki stoppað það, heldur líka að þurfa að sætta sig við áfallastreituröskun, bakverki og bólgur í andliti. Þurfa svo að fara í skólann eins og ég var útlits, þar sem hálft andlitið á mér var tvöfalt og ekkert hægt að fela það.“

Slysið var vendipunkturinn í lífi Silju Bjarkar, og segir hún slysið hafa hrint af stað tilfinningum sem hún kunni ekkert á og sjúkdóminum sem var byrjaður að gera vart við sig í kolli hennar.

„Ég trúi því að þegar kemur að geðsjúkdómum þá erum við fædd inn í ákveðna áhættuhópa, ákveðna tendensa, ákveðin gen, bara eins og með alla aðra sjúkdóma. Í minni fjölskyldu er saga um geðsjúkdóma og geðveiki þannig að ég trúi því að ef það hefði ekki verið slysið þá hefði það verið eitthvað annað sem hefði komið sjúkdóminum upp á yfirborðið,“ segir Silja Björk, og bætir við að eftir nokkrar vikur hafi fólk hætt að slúðra um slysið og farið að tala um annað, en henni leið sífellt verr.

„Hlutirnir urðu bara erfiðari og flóknari og þyngri fyrir mig og þá fór ég að skammast mín fyrir að geta ekki krafsað mig upp úr þessu sjálf. „Hvað meinarðu ertu þunglynd, þú ert alltaf brosandi, þú ert alltaf hlæjandi, þú ert með þak yfir höfuðið, ert í vinnu, ert í skóla, býrð hjá foreldrum þínum,“ fékk ég að heyra frá fólki. Það var eins og slysið hefði ekki gefið mér næga inneign til að líða illa, þar sem enginn dó og ég braut engin bein, en það er bara ekki þannig sem þunglyndi og geðsjúkdómar virka.“

Silja Björk Björnsdóttir
Mynd / Hallur Karlsson

Það er ekki eðlilegt að 17-18 ára stelpa hugsi um að vilja deyja á hverjum einasta degi, það er ekki partur af gelgjuskeiðinu, það er ekki partur af því að vaxa úr grasi, það er sjúkdómur

Geðlæknirinn sagði allt verða gott

Silja Björk er gagnrýnin á að engin áfallahjálp var í boði, henni var ekki boðið að ræða við sálfræðing, eða á neinn hátt hugsað um að hlúa að andlegu hliðinni, líkt og hlúð var að sárum hennar á slysadeildinni. „Þú þarft yfirleitt að sækjast eftir slíkri hjálp sjálfur ef lögreglan hefur ekki vit á því að hringja og óska eftir áfallahjálp eins og til dæmis í tilvikum þar sem fólk kemur að slysstað,“ segir Silja Björk, sem ári eftir slysið leið ekkert betur og fór til geðlæknis í fylgd móður sinnar.

„Þetta var gamall kall af gamla skólanum, sem talaði við mig í svona 20 mínútur og sagði svo: „Heyrðu þú ert nú bara 17 ára flott og gáfuð stelpa og þú veist nú betur og þú bara ferð ekki aftur upp í bíl með drukknum manni og þetta verður bara allt í lagi,“ en hlutirnir urðu alls ekki í lagi,“ segir Silja Björk.

„Það er ekki eðlilegt að 17-18 ára stelpa hugsi um að vilja deyja á hverjum einasta degi, það er ekki partur af gelgjuskeiðinu, það er ekki partur af því að vaxa úr grasi, það er sjúkdómur,“ segir hún og bætir við að oft sé erfiðara fyrir stelpur að fá greiningar um þunglyndi, ADHD eða annað, vegna fordóma og misréttis.

„Það er einnig erfitt þegar aðrir eru alltaf að segja við þig: „Þetta jafnar sig, þetta verður allt í lagi, þú verður bara að vera dugleg að fara út að labba, þú verður bara að vera dugleg að hitta vini þína, og annað í sama dúr. Svo bara lagast ekkert, þó ég geri allt þetta, því sjúkdómurinn bara tekur yfir, því það er það sem þetta er, þetta er sjúkdómur!“

Voru foreldrar þínir ekkert að gera sér grein fyrir veikindum þínum?

„Ég reyndi að fela þetta fyrir öllum af því ég var sjálf með fordóma og ég skammaðist mín svo mikið af því umræðan var á allt öðrum stað þá miðað við hvernig hún er í dag. Þú máttir einhvern veginn ekki vera þunglyndur eða vera veikur á geði nema hafa lent í einhverju stórfelldu áfalli og fólki fannst þetta bílslys ekki vera nægilegt áfall. Annaðhvort þurftir þú að hafa lent í að missa foreldri þitt eða hafa orðið fyrir misnotkun þá hefði verið í lagi að líða illa,“ segir Silja Björk, sem upplifði að sama hvert litið var þá var gert lítið úr veikindum hennar.

„Skólinn gerði lítið úr þessu, foreldrar mínir sáu breytingarnar sem voru að gerast á mér og minni líðan, en áttuðu sig ekki á að þetta væri geðsjúkdómur, héldu að þetta væru stælar eða frekja eða eitthvað, þau einhvern veginn standa of nálægt til að geta áttað sig á þessu. Sko kom þetta tímabil þar sem fólk var að segja við mig að þetta væri ekki eðlilegt og ég þyrfti að leita mér hjálpar, en ég hunsaði það bara af því að ég skammaðist mín enn þá svo mikið og ég skildi ekki af hverju ég gat bara ekki gert lagað þetta sjálf, rifið mig upp úr þessu sjálf.“

Silju Björk tókst þrátt fyrir veikindin að klára stúdentinn, en segir hún það hafa tekist með herkjum vegna lélegrar mætingar til viðbótar við veikindin. Hún var byrjuð í sambandi, en leið ekkert betur en áður.

„Ég hélt að ef ég væri í sambandi þá myndi allt lagast og ég myndi fá vettvang fyrir þessar tilfinningar eða hann myndi hjálpa mér í gegnum þetta, sem er ósanngjarnt af því hann er ekki sálfræðingur,“ segir Silja Björk, sem segir að þáverandi kærasti hennar hafi að lokum fengið nóg og sagt að hún yrði að leita sér hjálpar, annars gætu þau ekki verið saman. Silja Björk byrjaði í sálfræðimeðferð og hugrænni atferlismeðferð í lok árs 2012 sem hún var í til vorsins 2013.

„Meðferðin gekk mjög vel og mér leið mjög vel og þar talaði ég um slysið, afleiðingarnar og menntaskólaárin sem mér fannst ég hafa sóað,“ segir Silja Björk sem eftir útskrift úr menntaskóla ákvað að fara sem au pair til London. „Það gekk ekki vel og ég varð aftur kvíðin og mjög þunglynd og þá kom þessi skömm tilbaka, yfir að fá þetta bakslag og að verða aftur veik og líða svona illa.“

Á þessum tíma var Silja Björk búin að skrifa grein sem hét Þunglyndi er líka sjúkdómur, sem vakti athygli á henni og hennar veikindum. Hún fór í viðtal á Vísi og segir marga bara hrósað sér fyrir greinina og batann sem hún hafði náð. „Ég held að það hafi verið mistökin sem ég gerði á þessum tíma að halda það að ég gæti læknast af því að það er ekki það sem gerist, ég er alltaf þunglyndissjúklingur, en ég get verið í bata eða verið í veikindum bara eins og áfengissjúklingur fellur og fer í meðferð eða eitthvað slíkt, svona þannig pæling. Og ég þarf að vinna að því gagngert á hverjum einasta degi að vera í bata og halda mér í bata.“

Heilinn á mér var orðinn það bilaður og efnaskiptin það brengluð að heilinn á mér er að sannfæra mig um að þetta sé eina leiðin út úr sársaukanum

Sjálfsvíg er ekki sjálfselska

Eftir nokkra mánuði hætti Silja Björk sem au pair og flutti aftur heim, þá hætt með kærastanum og var alltaf að fá kvíðaköst sem hún sagði engum frá og þorði ekki að tala um, var orðin þunglynd aftur. Þetta var rétt fyrir 17. júní, þegar var árs útskriftarafmæli hjá henni og skólafélögum hennar og segist hún hafa mætt í útskriftina og verið hrókur alls fagnaðar og ekkert talað um líðan sína við neinn.

Daginn eftir reyndi Silja Björk að taka eigið líf og þegar blaðamaður spyr hvað hafi valdið því að hún taldi þá ákvörðun þá einu í stöðunni, kemur upp mismunurinn á orðræðunni milli viðmælanda og blaðamanns, þó skilningur og samkennd ríki hjá báðum aðilum.

„Fyrir mér er þetta ekki ákvörðun sem ég tók og fyrir mér er sjálfsvíg ekki ákvörðun eða ákall á hjálp, athyglissýki eða sjálfselska. Ég er með sjúkdóm og þarna er ég mjög nálægt því að deyja úr þessum sjúkdómi, bara eins og krabbameinssjúklingur sem er nálægt því að deyja úr sínum sjúkdómi, eða þú deyrð í bílslysi eða úr hjartaáfalli. Og mér finnst við þurfa að fara að beina umræðunni á þá braut þegar við erum að ræða sjálfsvíg sérstaklega af því við getum aldrei breytt neinu í samfélaginu og okkur getur ekki liðið betur eða stundað forvarnir ef við megum eða þorum ekki að tala um sjálfsvíg,“ segir Silja Björk.

„Heilinn á mér var orðinn það bilaður og efnaskiptin það brengluð að heilinn á mér er að sannfæra mig um að þetta sé eina leiðin út úr sársaukanum. Eina leiðin til að mér hætti að líða svona illa og einnig til að fólkinu í kringum mig hætti að líða illa út af því hvernig ég er og hvað ég er að láta fólk ganga í gegnum. Þess vegna eru sjálfsvíg aldrei sjálfselska af því þú ert ekki að hugsa um sjálfan þig heldur alla aðra, að losa aðra undan byrðinni sem þú upplifir þig vera,“ segir Silja Björk, sem segir umræðuna vera að breytast, en vissulega komi upp reiði hjá aðstandendum, sem eigi erfitt með að skilja af hverju ástvinur þeirra tók eigið líf.

„Þegar ég held fyrirlestra fyrir unglinga þá er mjög erfitt að útskýra þetta fyrir þeim. Heilinn er að segja þér: „Nú skalt þú fara og drepa þig af því það er eina lausnin á þessu vandamáli“, þannig að sjálfsvíg eru afleiðing af sjúkdómum eða alvarlegum heilsubresti, alvarlegum veikindum í heilanum,“ segir Silja Björk, sem sjálf upplifði algert vonleysi á þessum tíma og var viss um að sér myndi aldrei líða betur, að hún myndi aldrei ná bata í sínum veikindum.

„Ég var orðin tvítug og taldi þetta minn ákvörðunarrétt, bara eins ég mætti lita á mér hárið, fara í hárskóla, keyra bíl eða ekki. Ég var fyrst og fremst að hugsa um foreldra mína, vini mína, systkini mín, fjölskyldu mína sem hafði haft áhyggjur af mér í að verða fjögur ár, rifist og skammast, liðið illa, og ekki skiljað og ekki vitað og ekki kunnað. Þurft að borga sálfræðitíma, lyfjameðferðir og fleira. Þannig að þetta var fyrir þau, ef svo má segja, sem ég ætlaði að gera þetta,“ segir Silja Björk, sem segir dæmið hins vegar ekki ganga upp á þennan máta. „Mamma og pabbi myndu aldrei koma heim, finna mig látna og hugsa: „Já heyrðu hún er bara á betri stað og þetta er bara rétt, vefjum hana í klæði og kistu og gröfum hana.“ Þetta bara virkar ekki svona, en þegar þú ert á þessum botni þá er þessi hugsun það sem „meikar sens.“

Heyrðu þú ert ekki búin að skipuleggja þetta nóg, þú veist ekki hvað þú ert að gera, þetta er svo heimskulegt hjá þér, af hverju ertu að gera þetta svona, þú ert svo ómöguleg og vonlaus

Þunglyndispadda lét í sér heyra

Silja Björk fór í lyfjaskáp foreldra sinna og tók allar pillur sem þar voru sama hvað þær hétu og náði síðan í áfengi inn í barskáp. „Svo fór ég á netið að gúggla hvernig ég gæti bundið snöru og hafði til þess svona grænt þvottasnúrureypi og batt snöru og hengdi hana í ljósakrónuna. Ég var svo að skrifa bréf í tölvunni og var staðráðin í að þetta væri rétt leið og eina leiðin,“ segir Silja Björk, og bætir við að þá hafi rödd komið upp í huga hennar.

„Þessi rödd sem hafði verið að bögga mig í öll þessi ár, þessi þunglyndispadda sem fer að segja við mig: „Heyrðu þú ert ekki búin að skipuleggja þetta nóg, þú veist ekki hvað þú ert að gera, þetta er svo heimskulegt hjá þér, af hverju ertu að gera þetta svona, þú ert svo ómöguleg og vonlaus.“ Röddin sem byrjar svo að rakka mig niður, og hvað ég ætli að gera ef ég dett úr snörunni, ef ég byrja að æla og eyðilegg á mér nýrun, hvort ég ætli að vera í hjólastól það sem eftir er, hvað ertu að gera?!“

Silja Björk segir röddina hafa fengið hana til að taka upp símann og hringja í vinkonu sína, sem keyrði strax yfir og hringdi í Neyðarlínuna á leiðinni. Hún segir það algjör forréttindi að hafa fengið að hlusta á upptökuna nokkrum árum seinna.

„Það er það erfiðasta sem ég hef gert af því að ég var út úr því, ég var lyfjuð og drukkin og í kvíðakasti þannig að ég man skringilega eftir atvikinu. Að heyra bestu vinkonu mína gráta í símann og vita ekki hvað er að gerast og heyra í mér grátandi í fanginu á henni sýndi mér hvað þetta er mikill sársauki og mikil veiki og hvað þetta er erfitt og skrýtið. Það var samt mjög hreinsandi upplifun og algjör forréttindi að hlusta á upptökuna. Tinna vinkona mín bjargaði lífi mínu, ég veit ekki hvað ég hefði gert ef hún hefði ekki svarað. Ég hefði aldrei hringt í mömmu eða pabba. Ef hún hefði ekki svarað þá hefði ég verið bara: „Alheimurinn er að gefa mér merki,“ þannig að ég á henni lífið að launa.“

Silja Björk Björnsdóttir
Mynd / Hallur Karlsson

Upplifði skömm á geðdeild

Silja Björk svaf tvo sólarhringa á gjörgæslu, og eftir samtal við sálfræðinginn sinn var hún í tíu daga á geðdeild. Segir hún að ekki sé hægt að neyða einstaklinga til að leggjast inn á geðdeild, nema með sviptingu sjálfræðis, en hún hafi á tilfinningunni að hún hefði ekki komist upp með að þræta.

„Þetta eru tilfinningar sem takast á, ég er veik og veit að ég er veik og þarf hjálp og veit að ég get fengið hana á geðdeildinni, en á sama tíma er ég ennþá með svo mikla fordóma og sjálf svo hrædd og skammaðist mín svo mikið að ég hugsaði með mér: „ég er ekki geðsjúklingur og á ekki heima á einhverri deild í spennitreyju og fóðruðum klefa og bara gleymdu því.“ En ég er búin að vera geðveik síðan 2009 og hef aldrei séð spennitreyju, mér hefur aldrei verið troðið inn í fóðraða klefa,“ segir hún og brosir, og við ræðum aðeins hvernig einstaklingar með geðsjúkdóma eru oft túlkaðir í sjónvarpsþáttum og kvikmyndum.

„Vissulega eru til alls konar tilefni, en við geðsjúklingarnir erum langflest bara Jón og Gunna, venjulegt fólk sem á erfitt andlega séð. Við erum öll með líkamlega heilsu og öll fókuseruð á að borða rétt, mæta í ræktina, bursta tennurnar og drekka vatn, en við þurfum líka að rækta geðheilsuna, við þurfum líka að stunda geðrækt og það er eitthvað sem allir þurfa að gera hvort sem þeir eru veikir eða ekki, til að koma í veg fyrir að verða veikir. Nákvæmlega eins og þú hreyfir þig til að koma í veg fyrir stoðkerfisvandamál, og þú ákveður að reykja ekki til að koma í veg fyrir að fá lungnakrabbamein.“

Það er ekki geðheilbrigðiskerfinu að þakka að ég er enn á lífi, það er fjölskyldu minni og vinum að þakka að ég er ennþá hér í dag

Heilbrigðiskerfið grípur mann ekki

Silja Björk er gagnrýnin á heilbrigðiskerfið, ekki bara gagnvart sjúklingum heldur einnig aðstandendum. „Ekki nóg með að það sé víða pottur brotinn í heilbrigðiskerfinu og sjúklingar eiga oft erfitt uppdráttar. En aðstandendur geðsjúklinga eru ekki til í kerfinu. Ímyndaðu þér að vera móðir, frumburðurinn þinn 21 árs er næstum látinn af sjálfsvígi og þú færð aldrei að tala við neinn. Það kemur enginn og talar við þig, spyr þig hvernig þér líður, segir þér hvernig næstu skref eru að fara að vera. Bara ekki neitt og ekki einu sinni sálfræðingur sem tekur á móti þér og leyfir þér bara að gráta. Og það er ekki skrifað um sjálfsvíg í einhverjum uppeldisbókum!“

Silja Björk segir margt hafa brugðist þegar hún útskrifaðist af geðdeildinni, það gleymdist að senda lyfseðil fyrir hana í apótek, bréf til sálfræðings og gögn hennar týndust.

„Ég fell í einhverja glufu í kerfinu, þannig að ég fór að hugsa hvað það væri skrýtið að vera með heilt kerfi sem á að halda utan um alla þessa geðsjúklinga en það gengur ekki upp. Ég fór í fráhvörf af því lyfin voru ekki komin. Ef ég hefði verið krabbameinssjúklingur þá hefði það verið ólíðandi að lyfseðillinn minn gleymdist, að ég hefði ekki fengið neina eftirmeðferð. Þegar þú ert svona veikur á geði og þú getur ekki einu sinni ímyndað þér að standa upp og bursta í þér tennurnar þá ertu ekki að fara að standa upp og berjast við þetta bákn sem heilbrigðiskerfið er. Þú vilt ekki vera fyrir og taka pláss, þú vilt bara fara inn í sjálfan þig og vera í friði. Og það er ekki geðheilbrigðiskerfinu að þakka að ég er enn á lífi, það er fjölskyldu minni og vinum að þakka að ég er ennþá hér í dag.“

Við sem samfélag verðum að hætta að vera tilfinningalöggur á tilfinningar annars fólks. Við verðum að hætta að véfengja áföll annars fólks, véfengja upplifanir annars fólks, véfengja tilfinningar annars fólks, og gera lítið úr því þó að við upplifum það ekki þannig eða skiljum það ekki þannig. Við þurfum öll á meiri samkennd að halda

Hættum að vera tilfinningalöggur

Eftir veruna á geðdeild fór Silja Björk að velta fyrir sér umræðunni um geðsjúkdóma og hvernig talað var á ólíkan hátt um andleg veikindi og líkamleg. „Af hverju við tölum svona um krabbameinssjúklinga, vefjasjúklinga eða líkamlega sjúkdóma, en allt öðruvísi um geðsjúkdóma? Þú myndir aldrei segja við krabbameinssjúkling: „heyrðu hættu þessu bara, hefurðu einhverntíma bara pælt í því að vera ekki með krabbamein, láttu nú ekki svona!“ Þegar ég held fyrirlestra þá segi ég alltaf að við erum fædd með ákveðin gen og ákveðna tendensa, en ég get fengið lungnakrabbamein þó ég hafi aldrei reykt sígarettu, ég get líka orðið veik á geði þó ég hafi aldrei lent í áfalli. Áfall er víðtækt hugtak og mjög persónubundið. Bara sem dæmi þá varð köttur vinkonu minnar fyrir bíl og hún mætti í vinnu sama dag og ég skildi ekkert í því hvernig hún gat það. Mánuði seinna er keyrt yfir köttinn minn og ég gat ekki mætt í vinnuna í viku. Það gerir mig ekki að verri manneskju, hana að betri manneskju eða að hún sé sterkari en ég og ég sé einhver aumingi,“ segir Silja Björk og bætir við:

„Við sem samfélag verðum að hætta að vera tilfinningalöggur á tilfinningar annars fólks. Við verðum að hætta að véfengja áföll annars fólks, véfengja upplifanir annars fólks, véfengja tilfinningar annars fólks, og gera lítið úr því þó að við upplifum það ekki á sama hátt eða skiljum það ekki. Við þurfum öll á meiri samkennd að halda.“

Fann farveg fyrir erfiða reynslu

Þegar Silja Björk fór að ná bata fór hún að velta fyrir sér hvort og þá hvernig hún gæti nýtt reynslu sína og segist hún hafa hugsað að ef hún hefði fengið fræðslu um andleg veikindi og geðsjúkdóma fyrr á ævinni þá hefði ekki farið svona fyrir henni. „Ef ég hefði vitað sem krakki sömu hluti og ég veit í dag þá hefði farið allt öðruvísi fyrir mér. Ég er ekki að segja að ég hefði aldrei veikst, og það er ekki hægt að velta sér upp úr hvað ef?, en ef ég hefði vitað að manni mætti líða illa, maður mætti vera veikur á geði, það væri eðlilegt og ég væri ekki eitthvað skrýtin eða furðuleg eða aumingi eða öðruvísi. Ef það hefði bara verið einhver fræðsla eða eitthvað þá hefði mér örugglega liðið betur. Tala nú ekki um ef ég hefði vitað að það væri hægt að leita sér aðstoðar, og það væri í lagi að leita sér aðstoðar,“ segir Silja Björk. „Ég áttaði mig á því í sálfræðimeðferðinni að allt hefur áhrif, allt sem hefur komið fyrir mig, gott og slæmt, hefur mótað mig á einn eða annan hátt sem manneskjan sem ég er. Áföll eru svo skrýtin, mér fannst ég ekki hafa lent í neinu fyrir bílslysið, en allt í einu var ég farin að hágráta yfir einhverri stríðni sem átti sér stað í áttunda bekk, eitthvað lítið áfall, sem var samt massaáfall fyrir 10 ára Silju eða 14 ára Silju. Það er mesti kosturinn finnst mér við að fara til sálfræðings eða fara í hugræna atferlismeðferð að fara yfir söguna sína og bera kennsl á þessa hluti og læra af þeim og hvaða áhrif þeir hafa á mann og hegðun manns.“

Í september, sama dag og bílslysið átti sér stað nokkrum árum áður, sat Silja Björk á háskólatorgi að skrifa ritgerð þegar hún sá að sami dagur, 10. september, er alþjóðlegur forvarnardagur sjálfsvíga. Segir hún þetta hafi slegið sig út af laginu.

„Allt í einu er ég byrjuð að skrifa grein um sjálfsvíg og að þau séu ekki sjálfselska og það sé ekki skömm að þessu og ég var jafnmikið að skrifa greinina fyrir mig eins og aðra. Skrif hafa alltaf verið mín leið til að vinna úr hlutunum, koma þeim frá mér og geta lesið yfir skrif mín, fá staðfestingu á að það sem ég er að skrifa sé rétt, fá sjálfa mig til að hlusta og koma reglu á hugsanir mínar,“ segir Silja Björk, sem birti greinina, Brotnir fætur og brotnar sálir, á bloggi sem hún var með. Greinin vakti athygli og umræðu og Silja Björk sá að þarna var kominn farvegurinn fyrir hennar lífsreynslu.

„Ég hugsaði að ég gæti tekið þennan hræðilega hlut sem kom fyrir mig og þessa verstu lífsreynslu mína og gert eitthvað gott úr henni. Ég hugsaði það hlýtur að vera ástæða fyrir því af hverju ég er að ganga í gegnum þetta. Hvað ég ég að gera við þetta til að mér líði sjálfri betur og get ég látið öðrum líða betur?“

2014 flutti Silja Björk Ted fyrirlesturinn The Taboo of Depression í Hörpu, þar sem hún fjallar um tabú andlegra veikinda, „af hverju má ég pósta mynd af mér í ræktinni en ekki mynd af mér hjá sálfræðingi, af hverju erum við ekki að tala um þetta hluti?“ Og ári síðar stofnaði hún ásamt vinkonum sínum Bryndísi og Töru samfélagsmiðlabyltinguna Ég er ekki tabú, sem hún segir hafa verið tvíeggja sverð.

„Það var erfitt að sjá hvað mörgum leið illa og höfðu upplifað erfiða hluti, en á sama tíma var það gott að sjá að þetta er eðlilegur hluti af því að vera manneskja. Það var bóndi í afdalasveit á Egilsstöðum að skrifa færslu og opna sig í fyrsta skipti um að vera veikur á geði, og hann var að segja sömu hluti og tvítug stelpa í Versló. Þarna sýndi sig að þú ert ekki að glíma einn við hlutina. Það var ótrúlegasta fólk sem var að deila sínum sögum.“

„Þetta er minn tilgangur“

Silja Björk segist alltaf benda á það í sínum fyrirlestrum í skólum að ef unglingarnir eru ekki sjálfir að upplifa erfiðleika á geði, „þá mun það koma fyrir þau í framtíðinni, ef ekki fyrir þau, þá fyrir maka þeirra, vini þeirra, fjölskylduna þeirra eða einhvern í kringum þau. Þetta er leyndarmál í hverri einustu fjölskyldu.“

Hún nefnir einnig samfélagsmiðlana og segir mikilvægt að ræða andleg veikindi þar eins og annað. „Af hverju megum við ekki tala um þau, alveg eins og að birta mynd af hamborgaranum sem þú borðaðir í hádegismat, eða leiðinni sem þú hljópst í dag? Með samfélagsmiðlum erum við alltaf að sníða í kringum okkur einhvern glansjakka sem er svo kannski bara drulluskítugur pollagalli í rauninni. Við erum að búa til mynd af því hvernig lífið er fullkomið, en svo eru allir bara að glíma við alls konar erfiðleika, af hverju megum við ekki tala um þá líka eins og hitt?

Það er margt ótrúlegt búið að breytast á þessum 11 árum síðan ég veiktist 2009, 2013-4 byrjaði ég að halda fyrirlestra og munurinn í dag og þá er bara himinn og haf, umræðan er orðin opnari og auðveldari, fleiri að opna sig og ræða þetta, skömmin og fordómarnir eru að minnka. Það er eins og samfélagið sé búið að taka sig á á meðan heilbrigðiskerfið stendur í stað,“ segir Silja Björk sem segist vera búinn að finna sinn tilgang.

„Mér finnst þetta vera minn tilgangur og mitt innsæi segir mér að þetta kom fyrir mig og ég lenti í þessari reynslu og það er mitt að gera gott úr henni, það er hluti af mínum bata. Ég segi alltaf í mínum fyrirlestrum að ef ég get hjálpað einum sem er að hlusta hvort sem það er í dag, eða eftir viku eða tíu ár, þá veit ég að tilgangi mínum er náð og þá var þetta ekki allt til einskis, og sársaukinn sem ég gekk í gegnum tilgangslaus. Þetta hjálpar mér að vera í þakklæti fyrir að vera veik, þakklát fyrir allt sem þunglyndið hefur kennt mér, fært mér og sýnt mér skilning á, eitthvað sem ég hefði aldrei getað lært í skóla eða með því að lesa bækur eða gúggla það. Þunglyndið hefur gefið mér meira en allt annað og hjálpað mér meira að átta mig á að það er hluti af mér, ég er með tíu fingur og tíu tær, ég er þetta og hitt og finnst hitt og þetta skemmtilegt og ég er þunglyndissjúklingur og það er bara hluti af mér. Það að vera aktívisti er svo ákvörðun sem ég tek af því að ég hef gagn og gaman af því og ég get það og ég hef rödd og ég hef hæfileikann og getuna til þess,“ segir Silja Björk, sem segir marga hafa sagt við hana að hún ætti að verða sálfræðingur eða prestur, það sé hins vegar eitthvað sem hún hafi ekki áhuga á og myndi verða of erfitt fyrir hana.

„Ég vil frekar stjórna þessu sjálf, skrifa bækur og greinar, halda fyrirlestra, fara í viðtöl og koma mér fyrir í umræðunni þar sem ég vil koma mér fyrir þegar ég vil koma mér fyrir í henni.“

Er aldrei erfitt að vera svona opin með þína reynslu?

„Jú það er mjög erfitt og ég segi ekki að ég sjái eftir því, en ég hef oft verið svona : „Úff!“ Hvað á fólki eftir að finnast núna?“, segir Silja Björk og segir að í dag skammist hún sín ekki fyrir að hafa verið á geðdeild, heldur frekar fyrir hvernig hún hagaði sér þegar hún var þar.

„Ég upplifði svo mikla skömm og fordóma að ég einangraði mig frá hinum á deildinni. Ég man ekki hvað þetta fólk heitir og hvað það var að ganga í gegnum. Við vorum ekki látin sitja saman í hóp og ræða hlutina, látin læra af reynslu hvors annars eða nota samkennd eða samhyggð, sem er eitthvað sem ég lærði mun seinna að nýtist mjög vel þegar þú ert veikur. Það er friðþæging í því að heyra sögur annars fólks, að fá að heyra annað fólk endurspegla þig og þínar tilfinningar, að vita að þú ert ekki eina manneskjan sem hugsar svona og líður svona.“

Það er friðþæging í því að heyra sögur annars fólks, að fá að heyra annað fólk endurspegla þig og þínar tilfinningar, að vita að þú ert ekki eina manneskjan sem hugsar svona og líður svona

Burt með bannhelgina

Silja Björk situr í stjórn Geðhjálpar og segist þakklát fyrir að fá þar tækifæri til að berjast fyrir þeim málefnum sem hún vill opna umræðuna um. „Ég vil tala um sjálfsvíg og sjálfsvígshugsanir og ég vil taka þessa bannhelgi og ég vil opna umræðuna bara almennt. Og ég vil aðallega efla forvarnir líka af því ég trúi því að við stuðlum að heilbrigðara samfélagi með því að ráðast á vandamálið áður en það verður til. Að fara frekar í orsakirnar heldur en afleiðingarnar.“

Aðspurð um hvernig hún hlúir að sér og haldi sér í bata segir hún því miður enga töfralausn til og engin töfralyf, auk þess sem það sem virkar fyrir einn, þurfi ekki að virka fyrir þann næsta.

„Þú þarft að finna fyrir sjálfan þig hvað virkar fyrir þig, eitthvað sem er ekki skaðleg hegðun, ekki leita að lausnum í flöskubotnum eða sprautunálum. Þetta er ekki flóknara en það að taka einn dag í einu og ef það er of mikið þá bara eitt korter í einu, 10 mínútur í einu, þrjár mínutur í einu. Ef þú getur haldið þér á lífi korter í einu, þá verður það að hálftíma og svo 45 mínútum og þá verður þetta bærilegra. Þegar ég kom af geðdeild og var atvinnulaus og allslaus og vissi ekkert hvað ég var að fara að gera og leið hræðilega illa þá hugsaði ég með mér: „Ok ég ætla að vera á lífi þar til ég fæ mér næstu sígarettu, svo reykti ég og hugsaði, ég bíð í klukkustund og fæ mér aðra. Svo hringdi vinkona mín og sagðist vera búin í vinnu eftir klukkutíma og vilja mig með í sund, og þá hugsaði ég að ég myndi halda mér á lífi svo lengi. Svo varð þetta auðveldara og það leið lengri og lengri tími milli sígarettanna, svo var ég bara hætt að reykja,“ segir Silja Björk og segir að fyrir sig virki hreyfing mjög vel, að sinna því sem þarf án þess að taka að sér of mörg verkefni í einu, og tala rosalega mikið og tjá sig, bæði opinberlega og við vini sína.

„Þetta er sambland af hvað gerir þig hamingjusama, en ég hefði aldrei komist á þennan stað ef ég hefði ekki farið í sálfræðimeðferð, lyfjameðferð, ekki fengið tækin og tólin til að bera kennsl á þessar kveikjur í mér og mínum persónuleika, þá hefði ég aldrei komist upp úr þessu skilurðu. Sumir þurfa að vera á lyfjum daglega í mörg mörg ár, ég hef bara náð að taka einhverja lyfjakúra og svo hætta þeim í samráði við lækni. Ég fer reglulega til sálfræðings bara eins og maður fer reglulega til læknis.“

Það á enginn að burðast með erfiðleika einn

Silja Björk mælir með að fólk sé opið um andleg veikindi sín við vini sína, fjölskyldu, vinnufélaga og yfirmenn. „Af hverju ekki? Ég fann það um leið og ég fór að tala um þetta, að það væri ekki séns fyrir mig að fela veikindin lengur. Það væri ekki séns fyrir mig að verða veik og enginn tekur eftir því, það er ákveðinn björgunarhringur. Það er svo fáránlegt að ég get hringt í vinnuna og sagt að ég þurfi að vera heima með bullandi kvef og flensu, en ef ég hringi og segist vera lömuð af kvíða eða svo þunglynd að ekkert „meikar sens“ í hausnum á mér, þá á ég samt að mæta í vinnuna og vera virkur samfélagsþegn þó ég sé að drepast úr veikindum. Því oftar og meira sem ég talaði um veikindin því auðveldara varð það. Þannig hefur mér persónulega tekist að breyta samfélaginu til hins betra og fengið annað fólk með mér til að gera samfélagið betra. Það á enginn að þurfa að burðast með svona hluti einn, það bara gengur ekki upp. Annars ertu alltaf að fela einhvern hluta af hver þú ert og það gengur ekki upp til lengdar.“

Silja Björk gaf í vor úr bók byggða á eigin reynslu.

Samtalið fer yfir í  grímurnar sem fólk setur oft upp til að fela líðan sína fyrir öðrum og í bók sem Silja Björk gaf út núna í vor um eigin reynslu, Vatnið, gríman og geltið, talar hún mikið um þessar grímur. Bókin var sjö ár í vinnslu og safnaði Silja Björk fyrir útgáfu hennar á Karolina Fund. Bókin fjallar um hana sjálfa, veikindin og batann, og er að mestum hluta byggð á dagbókarfærslum hennar á geðdeildinni. Bókin er stutt og hnitmiðuð saga um þunglyndi, lífið, sjálfsvígstilraunina, en umfram allt um vonina og batann að sögn Silju Bjarkar.

Ég setti upp grímu og var fjögur ár í menntaskóla að haga mér eins og manneskja sem ég er ekki. Ég var vond við sjálfa mig og aðra

„Við erum öll að spila einhver hlutverk, nú ert þú blaðamaðurinn og ég viðmælandi, svo er ég sjúklingur á bakdeildinni og þú ert mamma að elda matinn. Við erum öll með mismunandi hlutverk og grímur sem við klæðum okkur í, en þegar þetta er orðið svona sjúklegt og þú ert farin að setja andlit á þig daglega sem er ekki í samræmi við hver og hvað þú ert, þá er gríman farin að íþyngja þér og allt í einu kemstu ekki undan þessari skrípapersónu og þú treystir engum til að koma nálægt þér eða heyra hvernig þér líður í alvörunni af því þú ert hræddur um að vera útskúfað úr samfélaginu eða fólk geri grín að þér, þú verðir rekinn úr vinnu, eða missir sambandið sem þú ert í. Við viljum öll vera hluti af samfélaginu,“ segir Silja Björk sem segist hafa týnt sjálfri sér um tíma og verið farin að breyta í ósamræmi við sjálfa sig.

„Ég setti upp grímu og var fjögur ár í menntaskóla að haga mér eins og manneskja sem ég er ekki. Ég var vond við sjálfa mig og aðra. Ég var skemmtilegur, sinnulaus dólgur og fólki fannst ég fyndin. Á tímabili var ég orðin svo veik, ég gat ekki séð hvort þetta var gríma eða ég. Hver er Silja, hvað gerir Silja? Allt í einu var ég farin að gera þvert á það sem ég hafði gert í 17 ár. Ég var stjörnunemandi með tíur í öllu, svo var ég hætt að mæta í skólann. Þannig að það var mjög þægilegt að geta tekið grímuna af og hent henni.“

Hún segist hafa hugsað hvað myndi gerast þar sem hún er opin með sín veikindi, hvort að hún fengi yfirhöfuð vinnu, myndi eignast maka eða vini, eða halda gömlu vinunum. „Ég hef alveg hugsað verð ég einhverntíma ráðin í vinnu, mun ég einhvern tíma eignast maka, hvað með vini mína? Svo hugsa ég bara ef ég fæ ekki vinnuna þá er það hvort eð er ekki vinna sem ég vil, ef makinn minn getur ekki tekið þessu þá er það ekki maki sem ég vil vera með, ef vinir mínir geta ekki tekið þessu þá eru það ekki vinir sem ég vil eiga,“ segir Silja Björk, sem í dag á mann, son, hús og kött, auk þess að eiga fjölskyldu, vini, vera í vinnu og nýútskrifuð úr háskólanámi. Hún segir að aðstæðurnar sem nú eru í samfélaginu sökum kórónuveirufaraldursins séu góður tími til að tala um hlutina.

„Við erum neydd til að fara inn á við og endurskoða hlutina og endurraða þeim. Þetta eru kvíðavaldandi tímar, við erum að sjá aukningu á sjálfsvígum, aukningu á sálfræðitímum og aukningu í þeim fáu úrræðum sem standa til boða ókeypis í þessum heimsfaraldri.“

Þetta eru kvíðavaldandi tímar, við erum að sjá aukningu á sjálfsvígum, aukningu á sálfræðitímum og aukningu í þeim fáu úrræðum sem standa til boða ókeypis í þessum heimsfaraldri

Hvert geta ungmenni leitað, sem vilja jafnvel ekki ræða við foreldra sína?

„Það má alltaf hafa samband við mig, ég er ekki sálfræðimenntuð, en veit og kann margt. Ef krakkar vilja ekki ræða við foreldra sína, geta þau rætt við annan fullorðinn sem þau treysta í sínum innsta hring eða í skólanum. Ef enginn fullorðinn aðili er til staðar þá er alltaf hægt að hringja í 1717 hjálparsíma Rauða krossins, þar er þjálfað fólk sem svarar, hafa samband við Geðhjálp, Píeta-samtökin eða Bergið Headspace. Og það er alltaf hægt að fara til heimilislæknis og í versta tilfelli er hægt að gúggla,“ segir Silja Björk.

„Það er alltaf hægt að finna einhvern farveg fyrir þessar hugsanir og þessa líðan og það er alltaf einhver til staðar sem getur gripið þig og hjálpað. Og bara það að segja upphátt í fyrsta skipti hvernig þér líður, þá geturðu ekki tekið það til baka. Það er svo mikil hreinsun, þá ertu búinn að viðurkenna þetta fyrir sjálfum þér og þeim sem þú ert að tala við og þá er hálfur sigurinn unninn.“

Á www.39.is getur þú skrifað undir áskorun þess efnis að setja geðheilsu í forgang í samfélaginu.

Fólk með sjálfsvígshugsanir er minnt á Hjálparsíma Rauða krossins, 1717, og netspjallið. Einnig er hægt að leita til Píeta samtakanna, þar síminn 552-2218 opinn allan sólarhringinn og vefsíðan www.pieta.is.

 

- Auglýsing -

Athugasemdir

Orðrómur

Lestu meira