„Við Raggi vorum dálítið óhreinu börnin hennar Evu þarna“

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Sigurður Hólmar Karlsson, eða Siggi eins og hann er alltaf kallaður, vissi frá því að hann var ungur að hann væri samkynhneigður en hann var ekki tilbúinn að koma út úr skápnum. Hann giftist konu þegar hann var í kringum tvítugt og eignaðist með henni tvö börn. Þau skildu og Siggi kynntist stúlku og eignaðist með henni eitt barn. Um það leyti sem það barn fæddist kynntist Siggi seinni konu sinni sem hann eignaðist eitt barn með. Siggi prýðir forsíðu Vikunnar að þessu sinni og hér grípum við niður í brot úr forsíðuviðtalinu.

„Ég átti yndislega konu og börn og lífið gekk bara þokkalega. Systir mín, Magnea, veiktist af MND-sjúkdómnum og lést þegar hún var 45 ára. Þá var ég skilinn við seinni konuna mína og búinn að taka tvö ár í að skoða sjálfan mig. Ég hafði setið við dánarbeð systur minnar og áttað mig á því hvað lífið er í rauninni stutt og ég ákvað að lifa því eins vel og ég gæti. Kvöldið sem hún lést kom ég út úr skápnum.“

Hvers vegna tók það þig tvö ár eftir skilnaðinn að koma út úr skápnum?
„Það tók mig þessi tvö ár að þora að taka þetta skref og viðurkenna sjálfan mig eins og ég var. Ég var sjálfur með fordóma og ég áttaði mig á því eftir á að þegar verið var að tala við mig um samkynhneigt fólk þá sagði ég alltaf að mér væri alveg sama um samkynhneigt fólk, bara ef það léti mig í friði. Þetta er auðvitað stútfullt af fordómum. En þótt ég hefði vitað að það kæmi að því að ég yrði að koma út úr skápnum var samt áfall að skilja, en það var öryggið sem mig langaði í, ekki að mig langaði í þetta sambúðarform.“

Hann segir það ekki hafa verið auðvelt að koma út úr skápnum, hann hafi óttast fordóma en kannski hafi fordómarnir verið mestir hjá honum sjálfum.

„Maður berst mest við hausinn á sjálfum sér þegar maður kemur út og þeir sem ekki taka manni eins og maður er, hafa aldrei verið vinir manns og eru ekki þess virði að eltast við. […] En það er alveg stórt skref að koma út og stundum getur maður farið út í það að vera svolítill öfgahommi. Ég var öfgaskápur; það hefði enginn getað trúað því að ég væri gay. Meira að segja fyrrum samstarfsfélagi minn, sem var gay, sagði einu sinni við mig að sig hefði aldrei grunað þetta. Ég lokaði þetta leyndarmál svo langt inni mér að það átti enginn að fá að uppgötva það.“

Siggi segir að þegar hann hafi komið út úr skápnum hafi hann kannski gert dálítið í því að ögra þeim sem hann vissi að voru viðkvæmir fyrir samkynhneigð eða á móti henni.

„Við Raggi eigum marga góða vini í Fíladelfíukirkjunni og ég var oft fenginn til að vera með vitnisburð þar áður en ég kom út úr skápnum. Eftir að ég kom út hef ég aldrei verið beðinn um að gefa vitnisburð í kirkjunni. Við Raggi vorum dálítið óhreinu börnin hennar Evu þarna; það þótti gott að geta bent á okkur þegar spurt var hvort samkynhneigðir væru ekki velkomnir í kirkjuna en við Raggi vorum bara þarna fyrir okkur sjálfa og okkar lofgjörð.“

Viðtalið í heild má lesa í nýjasta tölublaði Vikunnar.

Tryggðu þér áskrift að Vikunni í vefverslun

 

- Auglýsing -

Athugasemdir

Orðrómur

Lestu meira