Fann sína hillu í lífinu og vinnur nú með stjörnum

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Sigríður Ágústa Finnbogadóttir hefur hlotið athygli fyrir fatahönnun sína eftir að hún útskrifaðist úr Listaháskóla Íslands á síðasta ári. Á stuttum tíma hefur hún unnið með stórum nöfnum í tískuheiminum erlendis og stjörnum í íslensku tónlistarlífi. Sjálf segir Sigríður að tilhugsunin um að vinna innan tískuheimsins hafi alltaf heillað en það hafi hins vegar tekið hana tíma að finna sína hillu.

„Ekki alveg, en ég vissi alltaf að mig langaði að vinna eitthvað með föt. Það kom fátt annað til greina,“ segir Sigríður Ágústa, þegar hún er spurð hvort hún hafi alltaf verið staðráðin í að leggja fatahönnun fyrir sig.

„Mig dreymdi alltaf um að starfa innan fataiðnaðarins en lengi vel vissi ég ekki nákvæmlega við hvað,“ heldur hún áfram. „Ég prófaði að fara á klæðaskerabraut í Tækniskólanum, sem var mjög lærdómsrík reynsla, en svo ákvað ég að taka mér smápásu og skellti mér þá í starfsnám til Danmerkur og Svíþjóðar. Mig langaði að prófa að vinna hjá stórum fyrirtækjum erlendis og fékk inni hjá tveimur fyrirtækjum, Stine Goya í Danmörku og hjá Filippa K. í Svíþjóð og náði að púsla því þannig að ég gæti farið á báða staði. Þegar ég kom heim til Íslands eftir það ævintýri var ég alveg viss um hvað ég vildi og skipti yfir í fatahönnun.“

Sigríður vakti strax athygli fyrir óvenjulega útskriftarlínu sína.

Glæsikona sem endaði í fiskvinnslu

Sigríður sótti um inngöngu í Listaháskóla íslands og útskrifaðist þaðan af fatahönnunarbraut árið 2019 og vakti strax athygli fyrir óvenjulega útskriftarlínu. „Útskriftarlínan mín fjallaði um neysluhyggju og hvernig við metum hlutina sem við eigum,“ útskýrir hún. „Ég vann hana út frá sögupersónu sem ég skáldaði upp, fyrrum glæsikonu sem neyðist til að flytja út á land aðeins með sínar veraldlegu eigur. Allt í einu þarf hún að læra að bjarga sér, vinna í fiski, gera við fötin sín og skapa eitthvað nýtt úr því sem hún á, en heldur í glamúrinn. Þetta endurspeglaðist í línunni þar sem ég bjó til vinnufatnað á móti meiri glamúrflíkum og notaði efni sem líktust áklæði og rúmdýnu og vísaði líka í fiskvinnslufatnað, svuntur og ermahlífar.“

„Þegar ég kom heim til Íslands eftir það ævintýri var ég alveg viss um hvað ég vildi og skipti yfir í fatahönnun.“

Hún segir að í náminu hafi mikil áhersla verið lögð á sjálfbærni og endurvinnslu og það hafi heillað hana. „BA-ritgerðin mín snerist um sjálfbærni innan fataiðnaðarins og vangaveltur um iðnað og neyslu og eftir útskrift hef ég haldið svolítið áfram að vinna með þær vangaveltur. Endurvinnsla og sjálfbærni eru mér ofarlega í huga og svo sæki ég aðallega innblástur í hversdagsleikann og hluti. Ég hef svo ótrúlega gaman af því að blanda saman andstæðum og ólíkum heimum eins og hugmyndin á bak við útskriftarlínuna endurspeglar.“

Dásamlegt að vinna með Bríeti

Spurð nánar út í ferlinn eftir útskrift segist Sigríður hafa fengist við alls konar skemmtileg verkefni, bæði sjálfstætt og í samstarfi við aðra hönnuði og samhliða því hefur hún kennt meðferð textíls í grunnskóla. „Ég er alltaf opin fyrir nýjum verkefnum og hef verið dugleg að prófa nýja hluti. Ég vinn til dæmis fyrir aðra hönnuði og svo hef ég verið að hanna búninga fyrir tónlistarfólk,“ segir hún, en á meðal þeirra sem Sigríður hefur hannað búninga á er engin önnur en tónlistarkonan Bríet. Hvernig kom það samstarf til?

„Bríet hafði sambandi við mig eftir að hún sá útskriftarlínuna mína,“ svarar hún glaðlega. „Hún var dugleg að fá lánuð föt úr línunni fyrir tónleika og samhliða því fórum við að hanna og sauma ný dress fyrir hina ýmsu viðburði og erum enn að. Við höfum mikið verið að breyta notuðum fötum og sauma eitthvað nýtt upp úr þeim og svo höfum gert eitthvað nýtt frá grunni,“ lýsir hún og segir samstarfið ganga eins og í sögu. „Það er svo gott að vinna með fólki sem er opið fyrir því að prófa eitthvað nýtt og það er dásamlegt að vinna með Bríeti. Okkur semur mjög vel. Svo er nánast sama hverju hún klæðist, það fer henni allt vel.“

Á meðal þeirra sem Sigríður hefur hannað búninga á er engin önnur en tónlistarkonan Bríet. Mynd / Aðsend

Hvert sækirðu innblástur? „Það er svo ótrúlega misjafnt,“ segir hún. „Þegar ég hanna til dæmis fyrir einstaklinga hef ég viðkomandi alltaf í huga og svo þróum við eitthvað skemmtilegt út frá því.“

Draumurinn alltaf að verða búðarkona

Nú er því stundum haldið fram að íslenskir hönnuðir þurfi að sinna öðrum störfum til að framfleyta sér. Tekur Sigríður undir það, í ljósi þess að hún hefur sjálf verið að kenna? Eða telur hún að hönnuðir geti lifað af hönnun sinni einni og sér? Er til dæmis lífvænlegt á Íslandi að vera með eigið fatamerki?

„Ég hef ekki enn farið með mína hönnun í framleiðslu og hef hingað til sinnt ýmsum störfum samhliða henni,“ svarar hún. „Það fylgja því ákveðnar áskoranir að framleiða vörur á Íslandi, það er bara staðreynd. En mér finnst frábært að sjá allar góðu breytingarnar innan iðnaðarins og ég dáist að því hvað margir fatahönnuðir hafa verið að taka skrefið í átt að sjálfbærni, bæði erlendis og hér heima. Hér er fullt af frábærum hönnuðum sem eru að gera flotta hluti og framtíðin björt fyrir okkur hin sem erum að taka okkar fyrstu skref.“

„það er dásamlegt að vinna með Bríeti. Okkur semur mjög vel.“

Sjálf segist Sigríður vera að vinna að ýmsum spennandi verkefnum. „Ég er núna meðal annars að hanna fleiri búninga fyrir tónlistarfólk, er síðan að þróa áfram nokkra stíla út frá útskriftarlínunni minni og er með nokkur ný snið í vinnslu. Síðan ætla ég bara að halda áfram að vera opin fyrir nýjum tækifærum. Draumurinn var alltaf að verða búðarkona. Hver veit nema sá draumur rætist einn daginn,“ segir hún og brosir.

- Auglýsing -

Athugasemdir

Lestu meira